17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

6. mál, innflutningsgjald o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 3. sept. s. l. um álagningu 20% innflutningsgjalds.

Ég tel ekki rétt, nema tilefni gefist til þess, að fara að innleiða hér almennar umr. um efnahagsmál, vegna þess að þau mál eru nú öll til meðferðar í viðræðum milli stjórnmálaflokkanna, og ég efast um, að það sé æskilegt á þessu stigi að fara að hefja almennar umr. um þau hér á Alþingi. Hins vegar að sjálfsögðu, ef málin verða færð inn á þann vettvang af öðrum, þá vitanlega mun ég taka það til athugunar, eftir því sem efni standa til. Af þessari ástæðu mun ég í þessari framsöguræðu minni fyrir frv. aðeins halda mér að þeim atriðum, sem varða útgáfu frv., og ekki rekja söguna eða þróun mála þannig, að það leiði til almennra umr.

Það var ljóst allt frá síðasta ári, að þróunin var sú, að það gekk stöðugt á gjaldeyrisvarasjóðinn vegna óhagstæðrar þróunar í innflutnings- og útflutningsmálum, sem ekki þarf að orðlengja um, og öllum hv. þdm. eru nógsamlega kunnar þær ástæður allar. Um síðustu áramót nam gjaldeyrisvarasjóðurinn um 1100 millj. á núv. gengi. Eftir gengisbreytinguna dró að vísu allverulega úr innflutningi. En vegna þess, hversu útflutningur dróst miklum mun meira saman en gert hafði verið ráð fyrir, þá reyndist þróunin mun óhagstæðari en áætlað hafði verið í byrjun ársins. Það var því vandlega fylgzt með þróuninni fram eftir árinu og margoft í ríkisstj. og innan Seðlabankans tekið til athugunar, hvort tímabært væri að gera sérstakar ráðstafanir í þessu sambandi. Að öllum ástæðum athuguðum þótti þó rétt að bíða fram eftir sumri, til þess að séð yrði, hvernig færi með þróun útflutningsmála, og þá ekki hvað sízt, hvaða horfur yrðu með síldveiðar, sem að sjálfsögðu hljóta að hafa veruleg áhrif varðandi gjaldeyrisöflun. Þegar það síðari hluta ágústmánaðar blasti við, að síldveiðar höfðu engar verið á sumrinu, horfur um það efni mjög slæmar og þróun útflutnings svo óhagstæð, að það þóttu líkur til þess, að útflutningsáætlunin, sem gerð hafði verið í upphafi ársins, mundi lækka mjög verulega, eða jafnvel um 600–800 millj. kr., og af þessum ástæðum hafði haldið áfram að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn, þá var það samdóma álit ríkisstj. og Seðlabankans, að grípa yrði til bráðabirgðaráðstafana til þess að forðast, að gjaldeyrisvarasjóðurinn gengi algerlega til þurrðar. Þá var svo komið í ágústmánuði, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafði minnkað um helming frá áramótum og raunar þó enn meira, vegna þess að þá var komið til notkunar innanlands það 2 millj. sterlingspunda framkvæmdalán, sem ríkissjóður tók fyrr á árinu. Það þótti því sýnilegt eftir því, hvernig innflutningur hafði verið í júnímánuði og horfur í ágúst, að ef ekki yrði gripið til sérstakra ráðstafana í skyndi, mundi gjaldeyrisvarasjóðurinn ganga til þurrðar. Það var því horfið að því ráði, sem að vísu var vart við, að mönnum þótti ýmsum óheppilegt að væri gert vegna viðræðna, sem þá voru að hefjast milli stjórnmálaflokkanna, að ákveðið var að gefa út brbl. um að leggja 20% innflutningsgjald á allan innflutning til landsins. Vitanlega er þetta mál það svipaðs eðlis og gengisbreyting, að það má ekki vera lengi að veltast á milli manna, til þess að það leiði ekki til margvíslegrar spákaupmennsku, og þess vegna var nauðsynlegt að gera þetta með skyndingu. Það var hins vegar ljóst, að hér gat ekki orðið nema um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, enda voru lögin sett ljóslega með það í huga, vegna þess að ákveðið var, að gildistími þeirra skyldi aðeins vera til loka nóvembermánaðar. Það er jafnframt ljóst, að almennt gjald sem þetta leiðir af sér ýmiss konar annmarka, og vissulega má benda á marga galla í sambandi við þetta gjald og framkvæmd þess, og það er mér fullkomlega ljóst, að slíkt gjald gæti ekki staðizt til langframa, án þess að gerðar væru margvíslegar aðrar hliðarráðstafanir. En gjaldinu var ætlað að ná því marki að draga úr eftirspurn eftir gjaldeyri, og því takmarki hefur tekizt að töluverðu leyti að ná, eftir því sem málin virðast nú horfa, þó að aldrei verði sagt um það fyrr en eftir nokkurn tíma, hvernig heildarútkoman í þeim efnum verður.

Á það skal lögð áherzla, að enda þótt að sjálfsögðu færi afkoma ríkissjóðs mjög versnandi og það væri mikil þörf á fjáröflun til hans, hefði ekki verið hafizt handa um útgáfu slíkra brbl. vegna afkomu ríkissjóðs út af fyrir sig, heldur fyrst og fremst vegna þeirrar nauðsynjar að reyna að sporna gegn hinni gífurlegu eftirspurn eftir gjaldeyri og þar af leiðandi ýmiss konar spákaupmennsku, sem farin var að gera vart við sig, vegna þess að vitanlega sáu menn, hvert stefndi, að gjaldeyrisvarasjóðurinn mundi ganga til þurrðar, ef ekki væri gripið til sérstakra aðgerða. Ég skal ekki ræða hér afkomuhorfur ríkissjóðs á árinu, það mun ég gera nánar við 1. umr. fjárl., en það blasti að sjálfsögðu við, að afkoma ríkissjóðs yrði mjög slæm, og þess vegna í senn nauðsynlegt að gera þetta vegna gjaldeyrisvarasjóðsins og afla ríkissjóði aukinna tekna vegna skuldbindinga, sem ríkið hafði orðið að taka á sig til þess að forðast stöðvun útflutningsframleiðslunnar fyrr á árinu.

Eins og ég áðan sagði, var brýn nauðsyn að hafa þessar ráðstafanir, sem áttu að gilda til bráðabirgða, eins einfaldar og hugsanlegt var. Þess vegna var sá kostur valinn að leggja almennt innflutningsgjald á allar vörur með sárafáum undantekningum, og undantekningarnar verða í rauninni aðeins brýnustu vörur sjávarútvegsins, sem ljóst var, að ekki var hægt að leggja nýjar kvaðir á, þar sem hafði orðið að grípa til sérstakra ráðstafana honum til aðstoðar, og jafnframt þótti rétt að krefja ekki til ríkissjóðs um það gjald, sem átti að leggjast á fóðurvörur landbúnaðarins. Hins vegar mun reyndin vera sú, að gjalds er krafizt af þessum fóðurvörum, en það gjald mun þá renna til landbúnaðarins með öðrum hætti, sem ekki hefur endanlega verið ákveðið um. Að öðru leyti er gjaldsins krafizt af öllum vörum, sem til landsins eru fluttar.

Það þótti rétt að velja þessa aðferð, að leggja á innflutningsgjald, en ekki gjaldeyrisskatt, vegna þess að á þessu stigi málsins, meðan viðræður fóru fram um, hvaða efnahagsráðstafana yrði gripið til, þótti rétt að halda opnum öllum dyrum um það, hvaða úrræði yrðu valin, og með því að hafa þetta innflutningsgjald til skamms tíma, var engu slegið föstu um það, hvaða leiðir yrðu valdar í þessu efni. Gjaldeyrisskattur hefði í rauninni verið formleg ákvörðun um gengislækkun, og a. m. k, á því stigi málsins var enginn reiðubúinn til þess að slá því föstu, að það yrði sú leið, sem valin yrði að lokum til lausnar á efnahagsvandamálunum. Það er því meginástæðan til þess, að þetta form skattálagningar var valið.

Álagning þessa gjalds er miðuð við að fylgja þeim reglum, sem tollskrá segir um varðandi innflutning vara, og þeim aðferðum fylgt, sem fylgt er við innheimtu tolla. Það skal tekið fram í þessu sambandi, að það munu verða notaðar heimildir, sem til eru, til þess að fella niður tolla, og þá mun innflutningsgjald jafnframt verða í flestum tilfellum fellt niður af slíkum vörum. Hins vegar, þó að sé enginn tollur á vöru samkv. tollskrá, er innheimt af þeim vörum innflutningsgjald, vegna þess að þar telst vera um formlega tollákvörðun að ræða, þó að hún sé ákveðin sem enginn tollur.

Það er ákveðið í frv., að ekki sé heimilt að hækka verð vara, sem til eru í landinu, þegar gjaldið er á lagt. Það er sama aðferð og verið hefur, þegar gengisbreytingar hafa verið framkvæmdar, eða ef meiri háttar álögur eða skattar hafa verið lagðir á vöruverð, að það komi ekki á vörur, sem fyrir eru í landinu. Þá er jafnframt svo ákveðið, að það er sett tiltekin regla um það, hvað sé heimilt að hækka álagningu á vörur, og þá er miðað við, að heimilt sé að hækka álagningu sem svarar hækkun þess hluta í vöruverði eða tilkostnaði verzlunar, sem leiðir af erlendum tilkostnaði eða hækkun á erlendum vörum, og það hefur verið reiknað út fyrir nokkru, að það væri um 30% af tilkostnaði af verzlunarálagningunni, sem mætti teljast til komið á þennan hátt.

Það er rétt að vekja athygli á 4. gr. frv., sem er þess eðlis, að þar er ákveðið, að gjald þetta skuli endurgreitt, ef gerðar verða þær ráðstafanir varðandi gjaldeyrismál, að það mundi leiða til tvítekningar í rauninni eða tvísköttunar, ef svo má segja. Og er þá auðvitað það, sem við er átt í þessu efni, að ef kæmi til gengisbreytingar, sem enginn getur neitt um sagt nú, mundi það hafa leitt til þess, ef um væri að ræða vöru, sem væri á greiðslufrestur og hún hefði ekki verið greidd, áður en til gengisbreytingar kæmi, að þá mundi í senn verða að greiða af þessari vöru 20% innflutningsgjald og síðan aftur gjaldeyrisálagið, ef gengisbreyting kæmi til. Þetta þótti allt of þung og alvarleg kvöð í sambandi við þessar vörur, vegna þess að hér er fyrst og fremst um að ræða hinar brýnustu nauðsynjavörur, sem fluttar eru til landsins, sem inn eru fluttar með þessum greiðslufresti, matvörur og olíur og annað þess konar.

Loks var ákveðið, sem þótti sjálfsagt, að það væri lagt 20% gjald á útgjöld til ferðalaga erlendis, því að óeðlilegt þótti að selja gjaldeyri til þeirra nota í rauninni með allt öðrum hætti en til vörukaupa. Það mundi aðeins valda óeðlilegri eftirspurn eftir gjaldeyri á því sviði.

Það er auðvitað mjög erfitt um það að segja, hver árangur verður af þessu gjaldi, sem á að standa svo stuttan tíma sem raun ber vitni um. En bráðabirgðaáætlun, sem um það hefur verið gerð, er þess efnis, að gert er ráð fyrir, að tekjur af gjaldinu mundu nettó verða um 220 millj. kr., að frádregnum endurgreiðslum til 1. des., og tekjur af ferðagjaldeyri á sama tíma um 6 millj. kr. Hins vegar er ljóst, að ef kæmi til, að þyrfti að nota heimildir 4. gr., mundu þessar tekjur geta rýrnað um 90–100 millj. kr., vegna endurgreiðslna, sem þá kæmi til. Og þá yrði nettó-tekjuauki ríkissjóðs af gjaldinu ekki nema um 70–80 millj., sem er vitanlega alls ófullnægjandi til þess að mæta þeim halla, sem nú er á ríkisbúskapnum. Um þetta verður auðvitað ekkert sagt enn þá, en þannig er áætlunin, eins og bezt verður séð í dag. En ég tek það skýrt fram, að þetta er gert með öllum fyrirvörum, vegna þess að það er ómögulegt enn að átta sig á því til hlítar, hvernig þetta gjald verkar. Samhliða þessum ráðstöfunum eða innflutningsgjaldinu ákvað ríkisstj. að beita því eftirliti, sem hún og gjaldeyrisbankarnir geta haft varðandi yfirfærslu í sambandi við duldar greiðslur til útlanda, og takmarka þær með öllum hugsanlegum hætti, þ. e. a. s. ekki yrði leyft að framkvæma erlendis viðgerðir og aðra þjónustu, sem hægt væri að framkvæma hér innanlands, nema því aðeins að verðmismunurinn á þeirri þjónustu væri meiri en sem svaraði þessu gjaldi, þannig að álagning gjaldsins yrði ekki til þess að örva notkun gjaldeyris til þjónustukaupa erlendis.

Ég held, herra forseti, að á þessu stigi sé ekki þörf nánari skýringa með þessu frv. Ég vil aðeins að lokum taka fram, að það mun þurfa að gera á frv. vissar breytingar vegna vandamála, sem komið hafa upp, einstakra vandamála, og mun það þá verða athugað í samráði við þá hv. n., sem fær frv. til meðferðar. Eins og glöggt er varðandi tímamörk laganna, og er gert ráð fyrir, að þau tímamörk verði staðfest með frv., þá er ekki vikið að kaupgjaldsmálum í þessu frv. eða brbl. Gildistaka nýrrar kaupgjaldsvísitölu er 1. desember. Þess vegna er líka frv. haft innan þeirra marka, vegna þess að það er augljóst, að innan þess tíma verður Alþ. að hafa tekið endanlegar ákvarðanir um frambúðarlausn á þessum vandamálum öllum. Ég geri ekki ráð fyrir, að frv. verði endanlega afgreitt hér á Alþ., fyrr en ljósara verður, hvaða stefnu þau mál taka, en það var að sjálfsögðu skylt og eðlilegt að leggja brbl. fyrir Alþ., strax og það kom saman til funda.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.