13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

166. mál, menntaskólar

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur nú í ýtarlegu máli skýrt þetta frv.. sem hér liggur fyrir, og hann mun hafa orðið var við það, að við nokkrir þm. höfum kvatt okkur hljóðs, nokkru áður en þessi umr. hófst, og ég var einn í þeim hópi, og hann beindi þeim tilmælum til okkar, hvort það kynni ekki að vera, að við hefðum fengið þær upplýsingar, sem okkur skorti, í framsöguræðu sinni, þannig að við þyrftum ekki að hafa langt mál hér á eftir. Ég játa það, að ég fagna því að ýmsu leyti, sem fram kom í hans máli. Hins vegar hafði ég gert ráð fyrir því að setja fram í örstuttu máli það, sem mér kom fyrst í hug, þegar ég sá þetta frv., er það var lagt á borðið og ég hafði litið yflr það. Og ég verð að játa það, að ég hrökk nokkuð við, þegar ég las 1. gr. frv. En eins og hér hefur verið rakið og eins og kunnugt er, var það lögfest á þingi 1964–1965, að menntaskólar skyldu vera á Austurlandi og Vestfjörðum. Og það var þess vegna, sem mér kom það nokkuð ókunnuglega fyrir að sjá nú lagt til í þessu frv., að þessi ákvæði féllu niður. Það má að vísu deila um það, hvort nú sé ekki eins hagfellt að hafa óbundið í lögum um skólastaði, sem fram undan hljóta að vera. En breytingin á áður tekinni ákvörðun er auðvitað ekki til í dæminu, og ég er fús að segja það, að ég var alls ekki að væna um það, að raunverulega hafi það átt að felast í því frv., sem hér var lagt fram. En ég vil þó gera hér tvær tilvitnanir í grg. og aths., sem kynnu að geta vakið spurningar. Í aths. við 1. gr. frv. segir svo:

„Hins ber þó jafnan að gæta, ekki sízt er velja skal nýjum skólum stað, að menntaskóli, er fullnægi öllum kröfum um starfslið, húsrými og tækjabúnað, er dýr stofnun og því dýrari hlutfallslega, sem hann er minni.“

Það mætti varpa fram spurningunni: Hvað felst í þessu? Og ég verð að segja, að mér urðu það nokkur vonbrigði að sjá þá ágætu menntafrömuði, sem staðið hafa að samningu þessa frv., vera að gæla þarna svolítið við tölvusjónarmiðið, sem ég tel, að sé orðið allt of ríkt í okkar þjóðfélagi.

Í öðru lagi vil ég vitna hér í annað, sem einnig er í þessu frv. eða fskj. þess, en það er í séráliti ráðuneytisstjóra menntmrn. út af Kvennaskólanum í Reykjavík, sem ég skal taka undir ásamt með þeim öðrum þm., sem hér hafa talað, að ég er alveg samþykkur, að rétt sé að láta hafa heimild til að útskrifa stúdenta, — en sú tilvitnun, sem ég vil hér vitna í, er á þá leið, með leyfi hæstv forseta:

„Í l. nr. 56 1965, um breyt. á l. nr. 58 1946, um menntaskóla, er heimild til stofnunar menntaskóla austanlands og vestan og til stofnunar fleiri menntaskóla í Reykjavík og nágrenni“ En í lögunum, sem samþ. voru 1965, stendur: „Menntaskólar skulu vera 6.“ Það er sem sagt ekki heimild, heldur er það alger ákvörðun. Maður verður dálítið undrandi, þegar jafnskýrum manni og sjálfum ráðuneytisstjóra menntmrn. virðist skjótast þarna skýrleikur.

Á þessi tvö atriði vildi ég benda í sambandi við þau fskj., sem eru með frv.

Það er vafalaust nauðsynlegt að endursemja lög um menntaskóla. En ég vil bara að lokum láta það koma fram, að ég tel bezt fara á og raunar er sjálfsagt, að núgildandi ákvæði séu afdráttarlaus áfram, eins og þau eru í 1. gr. núgildandi laga. Og ég vil beina því til hv. menntmn., sem væntanlega fær þetta frv., að gera þá breytingu á l. Það felst ekki í þessu, að ég vantreysti á nokkurn hátt þeim yfirlýsingum, sem hæstv. menntmrh. hefur hér gefið. En eins og aðrir ræðumenn hér á undan mér hafa þegar bent á, kemur að því, að nýr menntmrh. komi, að breyting verði á ríkisstj., og ég tel þess vegna eðlilegt og sjálfsagt, — og einmitt vegna þess, að ég þykist vita, að það sé a. m. k. samhljóða vilji alþm., að þessi ákvæði, sem nú eru í l., séu í gildi og verði í gildi áfram, — þá álít ég eðlilegast og réttast að gera þá breytingu á 1. gr. frv., þannig að þetta sé alveg ótvírætt.