13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

166. mál, menntaskólar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Mér hefur fundizt, þegar ég var að hlusta á þessa menn, sem hér hafa talað á undan, að það væri einhver kergja hlaupin í „stóru mömmu“ á stjórnarheimilinu. Ég get vel tekið undir þá gagnrýni, sem komið hefur fram á 1. gr. frv. hjá hv. þm. sem hér hafa talað. Það er náttúrlega augljóst, að henni verður að breyta. Hún er mjög óheppilega orðuð, og ég skal ekki eyða um það fleiri orðum, vegna þess að hæstv. ráðh. hefur eiginlega lofað því hér og lýst því yfir, að hann skuli beita sér fyrir því, að gr. verði breytt. En að sjálfsögðu hlýtur þetta mál að fara til n., og þessi gr. verður þá tekin til athugunar eins og annað, sem í frv. stendur.

Annars tel ég ástæðu til þess að fagna þessu frv. Ég fæ ekki betur séð en það sé jákvætt í flestum meginatriðum. Það, sem ég tel fyrst og fremst jákvætt við frv., er það, að í því felst viðurkenning á nýjum viðhorfum í sambandi við hlutverk og starfsemi menntaskólanna. Frv. er því að sínu leyti stefnumótun og þó fremur staðfesting á stefnu, sem flestir skólar hafa viðurkennt í verki, að svo miklu leyti sem kostur hefur verið. Eins og fram kemur í grg. menntaskólanefndar, sem samdi frv., hafa menntaskólarnir í sívaxandi mæli tekið upp margvíslega nýbreytni, og „í öllum menntaskólunum standa yfir einhverjar breytingar á tilraunastigi, allt frá niðurfellingu einstakra skyldugreina til stofnunar nýrra deilda,“ eins og segir í grg. Frv. er því staðfesting á gildi þessa tilraunastarfs, sem þegar hefur verið unnið innan menntaskólanna og raunar á grundvelli núgildandi laga um menntaskóla. En þó að þetta sé haft í huga, finnst mér það ekki rýra gildi frv. Frv. kann að vera jafnnauðsynlegt og gott þrátt fyrir það. En ég held, að rétt sé að gera sér grein fyrir því strax, að gildandi lög um þetta efni veita einnig nokkurt svigrúm til margs konar breytinga og nýsköpunar í námsefni og kennslutilhögun og einnig að frjálslyndir og athafnasamir skólameistarar eða rektorar hafa þegar hafizt handa um nýskipan menntaskólanáms, sem rofið hefur stöðnun og íhaldssemi á þessu sviði. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að þetta frv. er staðfesting á stefnu, sem þegar er byrjað að framkvæma í flestum eða öllum menntaskólum landsins. Gildi frv. felst aðallega í því, að nú skal með lögum knýja íhaldssama skólastjóra, ef einhverjir eru eða verða, til þess að láta af kyrrstöðutilhneigingum sínum og fylgja frjálslyndari stefnu í anda nútímans. Sem sagt, hér eftir eiga afturhaldssamir skólastjórar ekki að standa í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum á starfi menntaskólanna, ef öðrum skilyrðum er fullnægt. Af þessum sökum er ávinningur að frv. Það er spor í rétta átt.

Hæstv. ráðh. hefur lýst efni frv., og ég skal ekki rekja það í neinum smáatriðum. Ég vil lýsa stuðningi mínum við meginefni þess og þá meginstefnu, sem þar kemur fram. En jafnframt vil ég leyfa mér að minna á, að þó að frv. verði að lögum, leysir það ekki allan vanda. Frv. hefur ekki í sér fólgna neina lausn á meginvanda menntaskólanna um þessar mundir, en hann er skortur á húsnæði, skortur á tækjabúnaði einnig. þ. e. a. s. kennsluaðstöðu í samræmi við stefnu þessa frv., og einnig er skortur hæfra kennara. Ég vil því leggja áherzlu á, að þetta frv., þótt að lögum yrði, er ekki lausn á aðalvandamálinu, heldur fer lausn þess algerlega eftir framkvæmd þeirrar stefnu, sem þar er boðuð. Spurningin er, hvort húsnæðisþörf skólanna verði leyst og hvernig það verði gert, hvort unnið verði að því að efla tækjabúnað menntaskólanna, koma upp viðunandi bókasöfnum og kennslubókakosti, og síðast, en ekki sízt, hvort bætt verði úr kennaraskorti, sem fyrirsjáanlegur er, ef auðið á að vera að framkvæma stefnu þessa frv.

Þau atriði, sem ég hef hér minnzt á í stuttu máli, eru ákaflega yfirgripsmikil og vandasöm úrlausnar út af fyrir sig. En samþykkt frv. sem þess, sem hér liggur fyrir, er mjög gagnslítil, ef ekki fylgja aðgerðir á þessum sviðum, sem ég hef nefnt. Flest, sem í þessu frv. stendur, er þess eðlis, að framkvæmd laganna skiptir þar öllu máli. Bókstafur frv. eða l., ef samþ. verður, leysir í sjálfu sér ekkert af aðalvandamálum menntaskólastigsins. Allt stendur og fellur með framkvæmdinni. Ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu strax í upphafi. Frv. sem þetta má ekki vekja neinar falsvonir um bráða lausn þess vanda, sem við er að glíma. Hið sanna er, að löggjöf í þessum anda gerir vandamál menntaskólanna að því leyti enn meira aðkallandi en nú er, að ríkisvald og þar með Alþ. taka þar með á sig siðferðilega ábyrgð á viðhlítandi framkvæmd slíkrar löggjafar, þ. e. a. s. taka á sig þá ábyrgð að tryggja, að l. verði annað og meira en pappírsgagn.

Við höfum því miður nokkra reynslu af því, að stundum verður vel hugsuð og vel meint löggjöf lítið annað en pappírsgagn. Sumir mikilvægustu þættir fræðslulöggjafarinnar t. d. hafa löngum verið lítið meira en orðin tóm. Það stafar af því, að fræðslulög eru ekki framkvæmd eins og til er ætlazt. Það hefur tekið miklu lengri tíma að framkvæma l. heldur en upphaflega var ætlazt til. Ég nefni það, að framkvæmd fræðsluskyldu og þar á meðal útrýming farskólafyrirkomulagsins átti að taka 6–7 ár, miðað við árið 1946, en þessu verkefni er ekki lokið eftir nær 23 ár. En nú boðar hæstv. menntmrh. lengingu fræðsluskyldunnar og upplýsir, að frv. verði lagt fram um það efni mjög á næstunni! Það er lagaskylda, að fullnægjandi gagnfræðaskóli sé í hverju fræðsluhéraði. Það má segja, að það sé lagaskylda. En þetta hefur ekki verið framkvæmt. Og slík dæmi munu kannske fleiri vera og eru víti til varnaðar. Ég minni því enn á það, að framkvæmd nýrra menntaskólalaga er fyrir öllu, en ekki gerð þeirra, samsetning þeirra og ekki samþykkt þeirra ein saman. Auk þess ber hv. þm. að hafa í huga, að þetta frv. fjallar einungis um afmarkað svið innan víðtæks málaflokks, sem menntamálin eru. Þetta frv. gefur ekki til kynna, hver sé heildarstefnan í fræðslu- og menntamálum þjóðarinnar. En það skiptir ekki litlu máli, að heildarendurskoðun þessa mikla og mikilvæga málaflokks verði látin fara fram og þeirri endurskoðun verði flýtt, svo sem auðið er, og jafnframt, eins og hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að slík endurskoðun sé sífellt í gangi. Á þetta atriði hafa framsóknarmenn á Alþingi bent margsinnis á undanförnum árum og flutt till. í þá átt. En þessar till. hafa ekki náð fram að ganga, og ég leyfi mér að efast um, að hæstv. ríkisstj. hafi sinnt því verkefni nægilega af eigin hvötum. Hér er um stærra verkefni að ræða en svo, að það verði unnið af einum manni eða mjög fáum. Til þess að framkvæma slíka endurskoðun, þarf að koma til mjög víðtækt rannsóknarstarf og samstarf margs konar sérfræðinga og samvinna við kennara. Heildarstefnu í menntamálum verður að reisa á sérstök­ um og víðtækum skólamálarannsóknum, sem eru sérfræðilegs eðlis og verða aldrei unnar án viðtæks samstarfs margra aðila. En þrátt fyrir þetta er þó ýmislegt, sem hægt er að koma auga á, án þess að um það fari neinar sérstakar rannsóknir fram. Það er m. a. augljóst, að skortur hæfra kennara stendur mjög í vegi fyrir nauðsynlegum endurbótum innan þeirra skóla yfirleitt, sem nú starfa. Af því leiðir, að ekki er gerlegt að taka upp nýjungar í kennslustarfi eða breyta um námsefni, jafnvel þótt skólayfirvöld væru þess fýsandi. Þetta atriði mun m. a. sýna sig áþreifanlega í sambandi við þetta mál, sem nú er til umr., námsskipulag í menntaskólunum. En kennaraskorturinn eða úrval hæfra kennara á ýmsum sviðum stendur þarna í vegi. Ég held því, að nauðsynlegt sé að gefa kennaramenntuninni sérstakan gaum og taka það mál alveg sérstaklega út úr og vinna að því að auka framboð á hæfum kennurum, ekki sízt í þeim greinum, sem telja má til nýjunga og nauðsynlegt er að taka á námsskrá skólanna meira og á víðtækari hátt en nú er kostur. Hér kemur ekki einungis til álita efling Kennaraskóla Íslands, heldur og ekki síður efling kennaramenntunar í heimspekideild Háskóla Íslands. Að því verður að stefna, að framhaldsskólakennarar séu háskólamenntaðir í kennslugreinum sínum, og það verður að hraða því, að slík stefna komist í framkvæmd. En slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Til þess að svo megi verða, þarf sérstakar aðgerðir, sem ríkisvaldið verður að hafa forustu fyrir.

Ég endurtek það, að þetta frv. er góðra gjalda vert sem stefnuyfirlýsing og viðurkenning á nauðsynlegum breytingum á menntaskólastiginu, en ég minni aftur á það, sem ekki má gleymast, að lagaframkvæmdin skiptir öllu máli, og það er hægurinn hjá að gera vel meinta löggjöf að pappírsgagni, ef út af ber um framkvæmd hennar.