13.03.1969
Neðri deild: 64. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2478)

166. mál, menntaskólar

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það eru orðnar alllangar umr. um þetta mál, sem ekki er að furða, því að hér er mjög merkt mál á ferðinni. Ef að lögum verður, markar þetta frv. vafalaust tímamót í starfsemi menntaskólanna á Íslandi. Ég vil fyrir mitt leyti fagna þessu frv. Það hefur inni að halda mörg merk nýmæli og hefur verið vandlega undirbúið af hinum færustu og kunnugustu mönnum. Einstök atriði hafa þegar sætt hér gagnrýni og þá aðallega það, sem fram hefur komið í umr., að með samþykkt frv., ef það færi í gegnum þingið eins og það nú er, gæti leikið vafi á því, hvort í gildi væri lengur fyrri ákvörðun Alþingis um staðsetningu menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum. Út af þessu vil ég fyrir mitt leyti lýsa því yfir, að ég tel slíka tortryggni, eftir yfirlýsingar hæstv. menntmrh., gersamlega ástæðulausa, einkum og sér í lagi þar sem hann hefur lýst því yfir, að hann hafi ekkert við það að athuga, að 1. gr. frv. verði breytt, til þess að taka af öll tvímæli um þetta.

Ég vil alveg sérstaklega fagna því, að í frv. er, eins og hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir í frumræðu sinni, gert ráð fyrir, að til þess að stofna menntaskóla þurfi ekki að stofna algildan skóla, þannig að um sé að ræða allar námsleiðir, heldur megi einnig stofna aðra skóla, eins konar tilraunaskóla, þar sem valin sé ein sérstök námsleið. Mér er það alveg ljóst, að í sambandi við stofnun menntaskóla á Vestfjörðum, eða á Ísafirði, og á Austfjörðum verða slíkir skólar til að byrja með alls ekki stórar stofnanir og alls ekki þannig úr garði gerðir, að þar geti verið um deildaskiptingu að ræða. Einmitt þess vegna fagna ég sérstaklega þessu ákvæði frv. Það er hægt að gera ráð fyrir skólum með aðeins einni deild, sem tæki fyrir sérstök námsefni, eins og hæstv. menntmrh. benti á, t. d. í félagsfræði. Þetta ákvæði frv. verður vafalaust til þess að auðvelda það, að stofnun menntaskólanna á Vestfjörðum og Austfjörðum komist til framkvæmda.

Ég get tekið undir það, sem komið hefur fram í ræðum þm. Vestfjarða, að ekki er von til þess, að við getum byggt við þann skóla, sem við höfum nú, eða framhaldsdeildina, sem við köllum, sem svarar til 1. bekkjar menntaskóla, meðan ekki hefur verið tekin ákvörðun um, að næstu bekkir, 2. og 3, o. s. frv., taki til starfa. Það er ekki við því að búast, að fólk, sem ætlar í menntaskóla, jafnvel ekki búsett á Ísafirði, kæri sig um að setjast inn í þennan skóla, meðan hann er aðeins ein bekkjardeild, og svo þarf að fara á enn annan stað til þess að verða sér úti um framhald skólagöngunnar. Þess vegna legg ég á það mikla áherzlu, að sem allra fyrst verði tekin ákvörðun um, að það megi bæta við 2. og 3. bekk við þessa framhaldsdeild, sem þegar hefur starfað á Ísafirði alllengi. Einnig er það mikið atriði, til þess að hægt sé að vinna upp þennan skóla, að byggð verði heimavist á Ísafirði. Auðvitað er ekki við því að búast enn sem komið er, að tæplega 3000 manna bær leggi til fullskipaða bekkjardeild í menntaskóla. Ég vil í þessu sambandi benda á, að undanfarin ár munu um 50–70 manns frá Vestfjörðum hafa sótt menntaskólanám árlega annars staðar, og þá aðallega á Akureyri. Ég tel það fyrir mitt leyti alveg eðlilegt, að miðað við það, að Vestfirðingar skila þessum fjölda inn á menntaskólastigið, þá sé byggt yfir þá skólastarfsemi á Vestfjörðum, en ekki t. d. á Akureyri eða í Reykjavík. Þetta þýðir alls ekki, að við Vestfirðingar viljum á nokkurn hátt setja fótinn fyrir eðlilega framþróun í þessum málum í þéttbýlinu. Ég veit ekki til þess, að Vestfjarðaþm. hafi nokkra tilhneigingu til þess að setja þetta þannig upp, að þeir telji, að við eigum að fá þennan menntaskóla á kostnað þéttbýlisins. Ég álít, að hv. Alþ. verði að vega og meta þarfirnar í hverjum landshluta fyrir sig og leysa úr þeim eftir þörfum. Af þeim undirtektum og þeirri fyrirgreiðslu, sem hæstv. menntmrh. hefur þegar veitt í þessu máli, — fyrst með því að heimila framhaldsdeildina á Ísafirði, síðan með því að beita sér fyrir stjórnarfrv., þar sem ákvörðun var tekin um staðsetningu skólans, og svo með þeim yfirlýsingum, sem hann hefur hér gefið, — efast ég ekki um, að við Vestfirðingar megum af hans hendi vænta góðrar samvinnu um áframhaldandi lausn þessa máls, og þá sérstaklega, að sem allra fyrst verði tekin ákvörðun um ráðningu skólastjóra og um byggingu heimavistar fyrir skólann á Ísafirði.