02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

166. mál, menntaskólar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. um menntaskóla á mörgum fundum, leitað álits skólastjóra, kennara og nemenda menntaskólanna, rætt við höfunda frv. og ýmsa fleiri aðila og fengið till. víðar að. N, er sammála í afstöðu sinni til frv., telur það stórmerkan áfanga í þróun menntaskólanna og leggur áherzlu á, að það verði gert að lögum og síðan framkvæmt af heilum hug. N. er sammála um nokkrar brtt. og mun ég síðar gera grein fyrir þeim.

Fyrst tel ég rétt að geta um afgreiðslu menntmn. á umsókn Kvennaskólans í Reykjavík um heimild til þess að útskrifa stúdenta. Þessi umsókn hafði verið send þeirri n., sem samdi frv. um menntaskóla, og hún hafði um hana fjallað. Þannig barst umsóknin til Alþ. í grg. þessa frv. Menntmn. kynnti sér formsatriði þessa máls og komst að niðurstöðu, sem fólst í bréfi, sem n. skrifaði hæstv. menntmrh. Þetta bréf hljóðar svo, með leyfi forseta:

Menntmn. Nd. hefur rætt um ósk Kvennaskólans í Reykjavík um leyfi til að útskrifa stúdenta, en sú umsókn er gerð að umtalsefni í grg. menntaskólafrv. N. er ljóst, að hugsanlegt sé að túlka 5. gr. frv. svo, að samkv. henni gæti ráðh. gert kvennaskólann að menntaskóla þrátt fyrir 4. gr. Þó telur n. þetta hæpna málsmeðferð og ekki æskilega. N. vill minna á, að auk menntaskólanna hafa tveir skólar heimild til að útskrifa stúdenta. Um þá er ekki fjallað í frv., enda eru þeir ekki menntaskólar. Í samræmi við þetta telur n rétt, að um heimild til að leyfa kvennaskólanum að útskrifa stúdenta verði fjallað í sérstöku frv.

Menntmn. samþykkti á fundi í dag að skrifa hæstv. menntmrh. og tjá honum þessi sjónarmið.

Virðingarfyllst“

Og síðan koma undirskriftir.

Þetta var sú afgreiðsla, sem þetta mál fékk í menntmn., og kemur að sjálfsögðu ekki fram í þessu, hvort nm. eru efnislega fylgjandi því, að kvennaskólinn fái þessi réttindi eða ekki, en ég vil geta þess, að um þau virtust vera nokkuð skiptar skoðanir.

Ég mun þá gera grein fyrir þeim brtt., sem menntmn. gerir við frv. Þessar till. eru á tveimur þskj., þskj. 550 og þskj. 611.

1. till. á þskj. 550 er við 1 gr., en um hana var mjög rætt við 1. umr. frv. í þessari hv. d. Kom þar fram sú eindregna skoðun, að í þessari gr. ætti að telja upp þá menntaskóla, sem þegar hefur verið ákveðið í lögum, að reistir skuli verða. Menntmn. hefur orðið við þessari ósk og leggur til, að 1. gr. hljóði svo:

„Menntaskólar skulu vera svo margir sem þörf er á, þar á meðal tveir í Reykjavík, einn á Akureyri, einn að Laugarvatni, einn á Ísafirði og einn á Austurlandi. Kostnaður við stofnun og rekstur menntaskóla greiðist úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til á fjárl.“

Síðari mgr. í frv. er um, að velta megi einkaaðilum eða sveitarfélögum leyfi til að byggja og reka menntaskóla. N. leggur til, að það atriði verði fellt niður úr l., og telur, að ef slík atvik koma upp, einhverjir slíkir aðilar væru reiðubúnir til að koma á fót menntaskóla og gætu það, yrði eðlilegast, að það mál yrði þá afgreitt á Alþ. Eins og n. leggur til, að 1. gr. verði afgreidd, eru þar taldir upp þeir skólar, sem þegar eru taldir upp í lögunum. N. barst bréf, þar sem óskað var að bæta í þessa upptalningu Reykholti í Borgarfirði. N. varð þess vör, að þm. í fleiri kjördæmum hafa hugsað til þess að fá lögbundna staði í þessa gr., og nú síðast hafa borizt í fréttum óskir frá bæjarstjórn Hafnfirðinga. Í sjálfu sér eru nm. í menntmn. ekki sammála um þetta atriði. Sumir telja æskilegast að nefna engan skóla í þessari gr., aðrir eru reiðubúnir til að nefna fleiri, en öll n. sameinaðist um þá málamiðlun að telja upp þá, sem þegar hafa verið lögfestir. En ég vil undirstrika, að eins og gr. er samkv. till. n., mundi, eftir að reistir hafa verið skólar á þessum stöðum, verða óþarfi að lögfesta fleiri staði, því að þá verður hægt að reisa menntaskóla, eftir því sem ákveðið er á fjárlögum. Það er mikilvægt, að menn geri sér grein fyrir þessu, að þegar uppfyllt hafa verið þau loforð, sem felast í gildandi l. í dag, þá tekur þessi gr. við á þann hátt, að menntaskólar skuli vera svo margir sem þörf er á og byggjast eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

2. brtt. á þingskjali 550 er við 9. gr. og fjallar eingöngu um formsatriði, sem ástæðulaust er að fjölyrða um.

Á þingskjali 611 er brtt. við 11. gr., sem einnig er formsatriði, sem óþarfi er að ræða hér frekar. Þá kem ég að brtt. við 13. gr. Á fyrra skjalinu, þingskjali 550, er brtt. við 13. gr., sem menntmn. tekur aftur. Í hennar stað kemur brtt., sem er á seinna þingskjalinu. N. leggur í raun og veru ekki til efnisbreytingar á þessari grein, hins vegar hefur hún orðið við mjög eindregnum óskum menntaskólakennara um að breyta nokkrum starfsheitum. Það, sem í frv. heitir yfirkennari (konrektor), verður nú kallað aðstoðarskólastjóri. Og í staðinn fyrir einn lið komi tveir liðir: annars vegar deildarstjórar, sem hafa umsjón með kennslu, námsefni og tækjum í einstökum námsgreinum eða greinaflokkum, hins vegar yfirkennarar, sem gegnt hafa fullri kennslu við menntaskóla í 16 ár, en eru þó ekki deildarstjórar. Með því að bæta þarna inn í þessum lið og halda yfirkennaranafninu, er verið að ganga til móts við margra áratuga, ef ekki aldagamla hefð, því að í menntaskólunum — eða í menntaskólanum, sem lengi vel var einn, hafa kennarar orðið yfirkennarar eftir ákveðinn árafjölda.

4. brtt. á þskj. 550 er við 15. gr.till. er tekin aftur, en á síðara skjalinu er ný brtt. við 15. gr. Eftir að n. hafði lokið störfum, magnaðist mjög hörð deila um það, hvaða kröfur eigi að gera til þeirra, sem geti orðið menntaskólakennarar, og var komið á framfæri við n. mismunandi sjónarmiðum í sambandi við það, sem n. voru raunar kunn áður, en nú af nýjum krafti. Menntmn. kom til móts við þá aðila, sem þarna áttu hlut að máli, en það voru annars vegar menntaskólakennarar og hins vegar samtök háskólagenginna kennara. N. ræddi við báða þessa aðila á nýjan leik, hún hafði haft samband við þá áður, og endirinn varð sá, að n. samþ. að gera nýja till. um 15. gr., till. á þskj. 611. N. leggur því til, að gr orðið svo: „Þeir einir geta orðið fastir kennarar skólanna, er lokið hafa háskólaprófi í þeim aðalgreinum, sem þeir eiga að kenna. Þeir, sem lengri hafa eðlilegan námstíma, ganga fyrir, ef umsóknir eru sambærilegar að öðru leyti. Kennarar skulu hafa lokið prófi í uppeldis- og kennslufræðum. Þessi ákvæði ná eigi til þeirra, sem nú eru fastir kennarar skólanna. Undanþágu frá þessum ákvæðum má veita, ef sérstaklega stendur á. Þess skal vandlega gætt, að hver skóli hafi á að skipa nægilegum fjölda kennara með fyllstu menntun til að stjórna kennslu í hverri grein. Setja má í reglugerð ákvæði um frekari kröfur til kennara í einstökum greinum.“

Í frv. og fyrri brtt. eru tilgreind 2 háskólapróf sem eins konar viðmiðun í sambandi við það, hverja megi ráða sem fasta kennara menntaskólanna. Annars vegar cand. mag.-próf við Háskóla Íslands og hins vegar B. A.-próf við Háskóla Íslands. Eftir því sem meira var um þetta mál fjallað, komst menntmn. lengra inn á þá skoðun, að rétt væri að telja ekki upp nein sérstök próf, enda eru háskólapróf nú sífellt að breytast og próf, sem bera sama nafn, hafa mismunandi gildi í mismunandi löndum, og fleiri ástæður mætti færa fram til þess, að hyggilegt sé að nota þá reglu, sem gilti í gömlu l., að tiltaka ekki ákveðin próf. Ég vil taka það fram, að það er tvímælalaust skilningur menntmn., að till. um orðalag gr. á þskj. 611 sé þannig, að hún nái til B. A.-prófa. Um það má ekki vera neinn vafi. Hins vegar vil ég taka fram, að n. lítur svo á, að stjórnir einstakra menntaskóla hafi með þessu nýja orðalagi frjálsari hendur en áður og meiri möguleika til þess að ráða því, hver menntun þeirra kennara verður, sem ráðnir eru að skólunum, og hafa þannig áhrif á það, hvernig menntun kennara við skólann verður varið í framtíðinni. Þá er settur þarna dálítill varnagli með því, að setja megi í reglugerð ákvæði um frekari kröfur til kennara í einstökum greinum. Þetta er tvímælalaust hyggilegt, af því að l. gera ráð fyrir því, að kennslugreinum geti fjölgað verulega, þar komi til ný fjölbreytni, og tæknin er svo breytileg, að það getur skapazt ástæða til þess að setja einhver alveg sérstök skilyrði varðandi nám til kennslu í einstökum greinum.

5. brtt. n. á þskj. 550 er við 18. gr., og er óþarfi að skýra hana frekar.

6. brtt. er við 19. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að veita megi menntaskólakennurum leyfi frá störfum til að semja kennslubækur. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði, af því að skortur á hentugum kennslubókum, sérstaklega kennslubókum á íslenzku, er vaxandi vandamál fyrir þessa skóla. Það vandamál mun vaxa enn, þegar frv. þetta verður að lögum og verður framkvæmt. Í frv. stendur, að það megi aðeins veita menntaskólakennurum leyfi frá störfum til að skrifa kennslubækur fyrir menntaskólastigið. En við leggjum til, að þetta verði fellt niður, þannig að það geti eins komið til, að menntaskólakennari sé rétti maðurinn eða eini maðurinn, sem geti samið góðar kennslubækur fyrir fleiri skólastig í sinni grein.

Við 21. gr. er 7. brtt. Þar kemur fyrir orðið bókasafn. Það er lagt til, að í þess stað standi: safn bóka og annarra kennslugagna. Segja má, að orðið bókasafn geti náð yfir þetta allt saman, ef það er túlkað á þann hátt, en nú þegar eru til í menntaskólunum söfn af hljómplötum, sem lánuð eru út, og enginn vafi er á því, að í nánustu framtíð munu bætast þarna við hljóðbönd, myndbönd og fjöldamörg önnur tæki, og er hugmyndin með þessari breyt. sú, að öll slík tæki eigi að rúmast innan ramma gr.

8. brtt. er við 22. gr., en hún fjallar um skólaráð. Er lagt til, að 2. málsl. orðist svo: „Skólaráð skipa aðstoðarskólastjóri, fulltrúar almenns kennarafundar og nemenda (sbr. 23. gr.).“ Í fyrsta lagi er breytt orðinu yfirkennari í aðstoðarskólastjóri, og byggist það á því, að till. um 13. gr. verði samþ. Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir því, að nemendur hafi aðeins einn fulltrúa í skólaráði, en brtt. okkar er á þá lund, að tala kennara og nemenda sé ekki föst í frv., enda getur sú tala farið mjög eftir stærð skólanna og ýmsum öðrum atriðum.

9. brtt. er við 23. gr., og hún er afleiðing af þeirri síðustu um það, að nemendaráð kjósi fulltrúa í skólaráð með þeim réttindum, sem tiltekin eru í ákvæðum reglugerðar um það.

Loks er 10. brtt. við 26. gr. Þar er lagt til, að 1. málsliður orðist svo: „Menntmrn. setur skólunum, að höfðu samráði við skólastjórnir, reglugerð um framkvæmd þessara l. strax eftir gildistöku þeirra, og skal þar m. a. kveðið nánar á um þessi atriði.“ Hér hefur verið bætt inn í setningunni „að höfðu samráði við skólastjórnir.“ Í viðræðum menntmn. við skólastjórana, sem sömdu frv., og ekki síður við menntaskólakennarana kom í ljós, að allir þessir aðilar gera sér ljóst, að hér er um rammalöggjöf að ræða og reglugerðirnar, sem settar verða samkvæmt henni, hafa því meginþýðingu fyrir framvindu menntaskólanna. Allir þessir aðilar lögðu mikla áherzlu á það, að reglugerðirnar yrðu settar þegar í kjölfar laganna og að til þeirra yrði mjög vandað. Þykir menntmn. ekki óeðlilegt, að það standi í l., að hafa skuli samráð við skólastjórnir, en í skólastjórnunum eru skólastjórar, kennarar og fulltrúar nemenda, enda þótt það sé ljóst, að menntmrn. muni að sjálfsögðu ráðgast við þessa aðila, hvort sem það er tekið fram í l. eða ekki. Hins vegar þótti þessum aðilum í menntaskólunum heldur betra að hljóta þá viðurkenningu, að þetta stæði í lögunum.

Herra forseti. Hér er um veigamikið mál að ræða, sem getur haft mikla þýðingu fyrir framvindu menntaskólanna. Samkvæmt upplýsingum, sem menntmn. voru veittar, má búast við því, að á nokkru árabili framundan muni nemendum í menntaskólunum fjölga um allt að helming. Augljóst er, að gera verður þær breyt., sem hér eru lagðar til, að breikka starfssvið skólanna, að breyta stúdentsprófinu úr því tiltölulega þrönga menntamanna- og húfuskírteini, sem það var áður fyrr, í próf, sem er áfangi ungra Íslendinga á sem flestum menntaleiðum. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að þess verði ekki langt að bíða, að menntaskólapróf í einhverri mynd, stúdentspróf, muni koma fyrir ofan iðnskólana og tækniskólana og opna þar leiðir til framhaldsnáms, þannig að á þessu sviði verði mun meiri fjölbreytni og sérstaklega, að þetta nám tengist atvinnuvegum þjóðarinnar meira og betur en verið hefur í fortíð. Menntmn. vill því mæla með frv. með þessum breyt. Við höfum ekki lagt til neinar teljandi breyt. á grundvallaratriðum frv., enda þótt tvær eða þrjár af breytingunum snerti atriði, sem eru vissulega þýðingarmikil, t. d. varðandi menntun kennara. Við viljum því vænta þess, að málið fái góðan framgang og tekið verði tillit til þeirra brtt., sem n. hefur lagt til að samþ. verði, eftir samráð við þá aðila, sem eiga að framkvæma þetta frv. og búa við það, þegar að lögum verður.