02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

166. mál, menntaskólar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki gera að sérstöku umtalsefni ræðu hæstv. forsrh., en vil aðeins víkja að því, sem hann nefndi, að menntaskólar þyrftu að mennta fólk á fleiri en einn veg, eins og hann orðaði það. Ég held, að menn séu yfirleitt sammála um það og að sú er ætlunin, enda er svo fyrir mælt í þessu frv. í 11. gr., að með reglugerðarákvæðum megi ákveða námsefni og prófkröfur svo, að menntaskólanámi ljúki með öðru fullnaðarprófi en stúdentsprófi, svo að þarna er áreiðanlega opnuð leið til þess að hafa fjölbreytni í námi og það geti orðið um annað próf en stúdentspróf að ræða, sem nemendur ljúka frá menntaskóla.

Hann talaði einnig um, að það mundi vera þörf á því, að þetta frv. yrði látið meltast eitthvað lengur. Það er búið að standa yfir í 6 ár að undirbúa þetta frv., og ég er ekki viss um, að það breytist mjög til batnaðar, þó að lengri tími fari í þetta. Menntmn. hefur náttúrlega gert sína skyldu. að kanna málið eftir öllum leiðum, eftir því sem hún hefur getað, og held ég, að það sé ekki hægt að sakast um neitt við hana.

En út af því, sem hér hefur borið á góma um Kvennaskólann í Reykjavík, vil ég segja það, að það kann að vera rétt hjá hv. frsm. n., að það sé ágreiningur um það, hvort kvennaskólinn eigi að fá rétt til þess að útskrifa stúdenta. Ég rengi það ekki neitt, að það kunni að vera. En sá ágreiningur kom ekki fram í menntmn., þ. e. a. s. það reyndi ekkert á það þar, af því að n. komst að þeirri niðurstöðu, að til þess að svo yrði gert, þyrfti sérstakt frv. Að öðru leyti fjallaði n. ekki um það atriði. Hins vegar hef ég lýst því yfir í n., og ég ætla, að það sé rétt hjá mér, að hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, hafi lýst því yfir líka, að við styðjum það eindregið, að kvennaskólinn fái þessi réttindi, og við leggjum áherzlu á það, að hann fái þau ekki síðar en þetta frv. er afgreitt. Það hefur dregizt því miður nokkuð, að þetta frv. kæmi fram, og það er fyrir mistök, sem ég get ekki ásakað neinn sérstakan um, að bréfið hefur einhvers staðar mislagzt, sem átti að fara til menntmn., en kom ekki fyrr en í morgun, en er þó skrifað fyrir viku í menntmrn., þar sem óskað er eftir, að n. flytji slíkt frv. En frv. sjálft er bara ósamið. Og ég held, að við séum sammála um það í menntmn., að það væri æskilegast, að það yrði samið í menntmrn., enda mun það nú verða gert, og eftir því sem hæstv. ráðh. hefur tjáð mér, mundi þá slíkt frv. koma fram núna einhvern allra næstu daga.

Hins vegar er ég ekki sammála þeim skoðunum, sem fram hafa komið, að samkv. 5. gr. frv. sé heimild til þess að leyfa kvennaskólanum að útskrifa stúdenta, því að 5. gr. fjallar eingöngu um það, að stofna megi menntaskóla í tilraunaskyni. En það hefur enginn farið fram á það að gera kvennaskólann að menntaskóla, það hefur engin ósk komið fram um það frá skólanum sjálfum, heldur aðeins um heimild til þess að útskrifa stúdenta. Sumir segja, að þetta sé alveg það sama, að hafa þessa heimild til þess að útskrifa stúdenta, og að vera menntaskóli, en ég held, að það sé alls ekki. Verzlunarskólinn er ekki menntaskóli, kennaraskólinn er ekki menntaskóli, enda eru þeir hvorugir nefndir í þessu frv. En það er miklu meiri breyting á skóla að gera hann að almennum menntaskóla en að veita honum rétt til þess að útskrifa stúdenta, það vitum við. Verzlunarskólinn fékk þessi réttindi, án þess að nokkur sérstök lög væru fyrir, sem veittu heimild til slíkrar útgáfu reglugerðar. Kennaraskólinn fékk sín réttindi með ákveðnum lögum frá 1963. Ég vil ekkert vera að mótmæla því, sem hæstv. forsrh. hélt hér fram, að það væri kannske eðlilegast, að í menntaskólalögum fælist ákvæði um heimild fyrir ríkisstj. til að leyfa ákveðnum skólum að útskrifa stúdenta. Það getur vel verið, að það eigi heima þar, en það getur líka átt heima í sérstökum lögum, þarf ekki endilega að vera í menntaskólalögum.

Ég vil aðeins endurtaka það, að ég er því mjög fylgjandi, að kvennaskólinn fái þessi réttindi og fái þau ekki síðar en þetta frv. verður afgreitt, sem ég vona, að geti orðið á þessu þingi.