02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

166. mál, menntaskólar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég get svarað þeirri fsp., sem til mín hefur verið beint, um leið og ég þakka þann óvænta heiður, að hv. þm. skuli tala svo hlýlega til mín, því að ég hef vanizt því, þó að við séum góðir vinir, að eigast við í mismunandi mikilli hörku á Vesturlandi.

Frv. það, sem hann hefur tekið upp og flutt um æskulýðsmál, hefur lítillega verið rætt í menntmn., en ég hef kannað það í stjórnarflokkunum, hvort afstaða til þess hafi nokkuð breytzt, frá því að það var síðast til umr., og ég hef fengið því miður neikvæð svör um það. Hins vegar hef ég ekki dregið dul á það í n., að ég er efnislega fylgjandi þessu frv. og vildi gjarnan, að það yrði að lögum, en ég vænti þess, að hv. þm. viti, hvernig samstaða stjórnarflokka um fjármál verður að vera. Ég veit ekki, hvað minni hl. n. gerir, hvort hann afgr, frv. frá sér, en afstaða stjórnarflokkanna er á þessu stigi málsins óbreytt frá því í fyrra því miður.