11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki ofmælt, að þau tíðindi, sem gerzt hafa í dag, 11. nóvember, eru váleg tíðindi og ill. Þó hygg ég, að þau hafi komið á óvart. Menn eru búnir að sjá það undanfarnar vikur ef ekki mánuði, að slíkt ástand hafi skapazt í landinu, að gengi íslenzka gjaldmiðilsins var í raun og veru fyrir löngu fallið. Og það mun sérhver maður, sem ekki hefur þá gert sér það ljóst áður, sannfærast um, ef litið er á ástandið eins og það núna er. Ég efast ekkert um það, að hæstv. ráðh., hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., hafa átt þung spor upp í ræðustólinn hér í dag, enda fannst mér í raun og veru, að ræður þeirra bæru þess vitni.

Ég held, að annað sé þó í raun og veru enn verra heldur en það, að hæstv. ríkisstj. hefur þó haft þor til þess að játa, að íslenzka gengið væri fallið, með því að fela Seðlabanka Íslands að skrá gengið á þann veg, sem gert hefur verið. Frv. heitir að vísu frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi íslenzku krónunnar. Jú, jú, formlega er ákvörðunin Seðlabankans. En auðvitað er ákvörðunin fyrst og fremst hæstv. ríkisstj., þó að hennar sé ekki við getið í heiti frv. Það er eins og í skáldsögu Jóns Thoroddsen: Ég hafði áður sagt Gróu á Leiti, en Gróa á Leiti sagði mér, en ég hafði áður sagt henni. Ríkisstj. hefur hér áður sagt Seðlabankanum fyrir verkum, og þetta frv. er því auðvitað undan rifjum ríkisstj. runnið.

Það, sem ég tel vera verra en sjálf gengislækkunin, sem við erum hér að horfast í augu við sem gerðan hlut, er það, að hæstv. ríkisstj. hefur haldið þannig á málum undanfarnar vikur, að brasköflin í þjóðfélaginu hafa komið sér við mætavel til þess að mata krókinn og bæta sinn hag á þeirri efnahagsmálaaðgerð, sem þjóðarheildin á svo að bera byrðarnar af. Það hefur verið sagt hér í umr., að annars staðar með öðrum þjóðum sé venjulega mikil leynd höfð um það, ef ríkisstj. telur sig verða að fella gengi, og eins er það hér, að ef heiðarlega er staðið að gengisfellingu, á það að vera leyndarmál allra fram á síðustu stund þangað til gengisfellingin skellur á, svo að gróðaöfl, óheilbrigð öfl efnahagslífsins komi sér ekki við. En það var þveröfugt að þessu staðið hér, og það álít ég vera meginsök hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál að hafa haldið þannig á málinu.

Hún hefði í raun og veru, þegar hún gerði sér ljóst, að hún kæmist ekki hjá að fella gengið, átt að skella þeirri ráðstöfun á fyrirvaralaust.

Annað finnst mér ákaflega óviðkunnanlegt líka við framkvæmd þessa máls, og það er það að hafa setið að viðræðum við samningaborð við stjórnarandstöðuflokkana nánast 9 vikur og svo rétt að þeim viðræðum loknum, örfáum dögum eftir að þeim er slitið, þá hefur ríkisstj. til allar sínar till. um gengisbreytinguna. Það dylst engum manni, að þannig hefur verið á málum haldið, að trúnaðarmenn ríkisstj. hafa setið meginhluta þessa tímabils, sem setið var við samningaborðið, og verið að undirbúa þessa ákveðnu leið hæstv. ríkisstj., ég gat vel sagt gengisfellingarríkisstj., og þannig finnst mér ekki af heilindum að málinu staðið. Það er fyrst núna rétt fyrir helgina, sem viðræðunum er slitið, og á þeim tíma er alveg útilokað, að efnahagsmálaráðunautar ríkisstj. hafi reiknað sitt dæmi og haft þau plögg til, sem gengislækkunarákvörðunin er byggð á.

Ég ásaka hæstv. ríkisstj. þunglega fyrir þetta hvort tveggja. Það er ekki liðið ár síðan hæstv. núv. ríkisstj. stóð einnig á Alþ. og mælti fyrir gengislækkunarfrv. Ef ég man rétt, var gengislækkunin í fyrra, gengislækkun ársins 1967, framkvæmd 24. nóv. Það vantaði því nokkra daga á, að ár sé liðið frá því, að gengi íslenzku krónunnar var seinast fellt. Þetta mun líka vera einhver stærsta gengisfelling íslenzkrar sögu. Erlendur gjaldeyrir hækkar um 54.4%. Minna mátti ekki gagn gera. En þetta væri allt saman gott og blessað, ef menn gætu haft trú á því, að þessi gengislækkun væri varanleg lækning á efnahagsvanda íslenzku þjóðarinnar. En þrennar gengislækkanir framkvæmdar af þessari hæstv. ríkisstj. og þessi hin fjórða gera það að verkum, að þjóðin trúir því ekki. Ég hygg líka, að ríkisstj. sjálf trúi því ekki, og ég get ekki ímyndað mér, að stjórnarliðið trúi því, að í fjórða sinni heppnist hún, þegar hún hefur misheppnazt þrisvar sinnum í höndum þessa sama aðila. Og það er alltaf erfitt að framkvæma þann hlut, sem hvorki maður sjálfur eða aðrir hafa trú á. Ég er því ósköp hræddur um það, að það fari eins í fjórða sinn og í hin þrjú skiptin, að þær ofurþungu byrðar, sem lagðar verða á þjóðina vegna þessarar gengisfellingar, verði allar saman unnar fyrir gýg. Mig skortir trú á það, lái mér hver sem vill, að í fjórða sinni heppnist hún. En hæstv. ríkisstj. hefur vafalaust hugsað sem svo: Í þriðja sinni þreytt, en fjórða sinni fullreynd.

Hæstv. forsrh. tók það fram í ræðu sinni, að nú eftir að gengislækkunin hefði verið ákveðin mundu verða teknir upp samningar við launþegasamtökin í landinu og við bændasamtökin. Já, það er máske betra seint en aldrei. En það er rétt, sem hér kom fram í umr. áðan, að við verkalýðshreyfinguna a.m.k. hefur ekki verið talað orð um þessi mál. Gengislækkunin er framkvæmd án hins minnsta samráðs við hana, án þess að nokkrar viðræður hafi farið fram um það, með hverjum hætti væri hægt að framkvæma þessa aðgerð á þann veg, að láglaunafólkið í landinu gæti þolað aðgerðina. En það er alveg víst, að eins og málið liggur fyrir, þá er hægt að fullyrða það, að láglaunastéttirnar í landinu geta ekki með neinu móti tekið á síg þær ofurþungu byrðar, sem því eru samfara, að erlendur gjaldeyrir hækkar um meira en 50%.

Það var eitt atriðið í ræðu hæstv. forsrh., sem ég var honum alveg sammála um. Hann sagði, að frv., sem lægi hér fyrir þinginu, væri þannig, að um það þyrfti ekki að ræða. Það væri í sama formi og önnur frumvörp, sem fylgt hefðu gengislækkunum. Það er alveg rétt. Við kunnum þetta frv. utanbókar orðið. Samt er þetta mál þannig og svo alvarlegs eðlis, að það verður ekki ráðin bót á vandamálum þjóðarinnar með löngum ræðum hér á Alþ. Það eitt dugar að snúast í raun í verki við þeim vanda, sem þjóðin er komin út í, á þann hátt, að byrðarnar af honum verði sem léttbærastar, og léttbærar geta þær þó aldrei orðið, og það verður auðvitað að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að láglaunastéttirnar í þjóðfélaginu og lágtekjustéttirnar geti borið þær byrðar, sem þeim er ætlað að axla. Máske er það svo, að ég sé allt í einu orðinn svartsýnismaður, en við það hef ég samt ekki verið orðaður yfirleitt, en mér sýnist ástandið vera mjög dapurlegt og alvarlegt, hvar sem litið er. Ég sé ekki annað heldur en það horfi mjög uggvænlega með afkomu ríkissjóðs. Ég hygg, að hann vanti stórar upphæðir til þess að ná endum saman. Ég sé ekki betur heldur en greiðslubyrði hans á næsta ári af skuldum sé hvorki meira né minna en nokkuð á 2. milljarð kr., að vextir og afborganir af skuldum, sem koma á ríkissjóð og hann verður að bera á næsta ári, séu 1.3 eða 1.4 milljarðar kr. Ég sé ekki betur heldur en gjaldeyrishalli tveggja seinustu ára sé á 3. milljarð kr., losar milljarðinn á árinu 1967 og verður eitthvað talsvert á 2. milljarð á yfirstandandi ári. Ég fæ ekki betur séð en atvinnulífið sé yfirleitt í rústum, og það er miklu alvarlegra heldur en um stöðu ríkissjóðsins. Atvinnulífið er gersamlega stöðvað. Það er í rúst í mörgum sjávarplássum á Íslandi í dag, og hæstv. ríkisstj. er það vel kunnugt. Mörg iðnaðarfyrirtæki hafa þegar orðið gjaldþrota, og gjaldþrotið vofir yfir öðrum tugum saman. Halda menn nú, að nokkurt kraftaverk gerist til þess að koma atvinnulífinu í gang við gengislækkun? Ekki get ég ímyndað mér, að vélbátaútgerð, sem er stöðvuð, geti tekið neinn fjörkipp við gengislækkun. Það er vitað, að útgerðin er með mikið af erlendum skuldum, sem nú hækka stórkostlega við gengisfellinguna, og byrði þeirra útgerðarmanna verður uggvænleg og kemur illa við þá, þó að rekstur þeirra sé í gangi. En þeir fara fyrst að njóta einhvers hagnaðar af gengisfellingunni sjálfri, þegar þeir hafa aflað fiskjar og selt hann á erlendum markaði og fengið fyrir hann fleiri krónur. En hins vegar fá þeir líka það á klakkinn, að vextir og afborganir verða þungbær byrði af hinum erlendu skuldum. Þeir verða líka að horfast í augu við það, að margt það, sem til útgerðar þarf, veiðarfæri, salt og olíur. hækkar auðvitað gífurlega í verði, og menn segja því, að gengislækkun hafi orðið og verði vafasamur hagnaður fyrr en þá eftir marga mánuði í þessu tilfelli fyrir útgerðina, eins og hún er stödd í dag. En þar sem útgerðin er stöðvuð og hraðfrystihúsaiðnaðurinn er stöðvaður, þá er alveg gefinn hlutur, að þetta fer ekki í gang við gengislækkunina. Það hefði orðið að gera áður en hún skall á ráðstafanir til þess að hjólin færu að snúast. Hæstv. ríkisstj. mun segja, að hún hafi verið að horfast í augu við slíkan vanda nú að undanförnu og verið að leysa þessi mál á sumum stöðum. Jú, mér er kunnugt um það. En það er lítt fullnægjandi lausn, að útgerðarmenn og þeir, sem rekið hafa hraðfrystihús í einu byggðarlagi, komi í skjóli hreppsnefndar sinnar til Reykjavíkur og kríi sér út, við skulum segja 3–4–5 millj. kr., til þess að koma þessu í gang, ef þessar upphæðir eru látnar í hendur hinna gjaldþrota fyrirtækja, sem hafa örmagnazt og stöðvazt með rekstur sinn, og þetta fé fer síðan í súpuna hjá þeim. Ég held, að slík bráðabirgða- og káklausn auki ábyrgðarleysi þeirra, sem nú eru búnir að sigla málum í strand, og sé þannig mjög skaðvænleg lausn. Ég held, að bankarnir eigi að horfast í augu við það, að þeir hafa þegar tapað því fé, sem þeir hafa lánað þessum fyrirtækjum mörgum hverjum, og eigi að viðurkenna það og það eigi að gera þau upp og fela einhverjum aðila þegar í stað að hefja reksturinn á sléttu. Þá fyrst gæti komið til mála, að fjör færðist í atvinnulíf á slíkum stöðum, þegar áhrif gengislækkunarinnar, hin jákvæðu áhrif, færu að segja til sín. En þessi hreingerning hefur ekki farið fram, svo að ég viti, ekki á einum einasta stað, og skipta þeir staðir þótugum á landinu, þar sem svona hreingerning hefði þurft að verða undanfari gengisfellingar, til þess að atvinnulífið gæti notið þeirra jákvæðu áhrifa, sem í vissum tilfellum geta fylgt gengislækkun. Þegar álít ég, að hafi verið farið mjög öfugt að, og verður varla úr því bætt nema bankarnir horfist í augu við, að þeir hafa þegar tapað fé og fyrirtæki mjög viða rísa ekki undir þeirri skuldabyrði, sem þau rogast nú með. Það þýðir ekkert að ætla litlu hraðfrystihúsi í smáþorpi úti á landi aðstanda undir 15–20, jafnvel 30 millj. kr. skuldasúpu og bera vextina eins og þeir eru hér á landi af slíkri upphæð. Það er vonlaust með öllu.

Ég vék að því, að það hefði verið um það rætt, að nú stæði til að ræða við launþegasamtökin og bændasamtökin í landinu, og í raun og veru fagna ég því, þó að ég telji það nokkuð seint gert. Og menn spyrja: Hvað gerir verkalýðshreyfingin? Það er spurt um það hér, og það verður spurt um það um landið allt næstu daga og vikur, og sannast að segja getur enginn á þessari stundu sagt, hvað verkalýðshreyfingin gerir. Það eitt er víst, að þær byrðar, sem falla á þegnana af 50% hækkun erlends gjaldeyris, geta láglaunastéttirnar á Íslandi ekki borið. Það er óframkvæmanlegt. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar á næstu vikum hlýtur því að verða það sérstaklega að verja hina lægst launuðu þyngstu áföllunum af þessari aðgerð, gengisfellingunni. Ég veit ekkert, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að halda á þeim viðræðum, en það mega a.m.k. ekki verða neinar sýndarviðræður. Það mundi ekki leiða til neinnar farsællegrar lausnar. Það verða að vera viðræður í fullri alvöru, þar sem tekið er á fyrst og fremst atvinnulegu vandamálunum hjá þjóðinni, því að það er rétt, sem komið hefur fram í ræðum hæstv. ráðh. og annarra, að það verður fyrst og fremst að snúast gegn þessum vanda með uppbyggingu atvinnulífsins. Þar má ekkert láta reka á reiðanum lengur. Það er búið að gera það nógu lengi.

Vafalaust þarf þó í fleiri horn að líta í sambandi við þær væntanlegu umr. heldur en líta á atvinnulífið eitt saman. Ég held, að það sé mjög mikill vandi við þessi mál að fást, úr því sem komið er, því að ástandið er enn þá alvarlegra á flestum sviðum þjóðfélagsins heldur en menn hafa hér almennt gert sér grein fyrir enn þá.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn spyrji: Hvers vegna gengisfellingu? Var ekki um neinar aðrar leiðir að ræða? Ég er alveg sannfærður um það, að hæstv. ríkisstj. hefur vafalaust verið búin að velta því lengi fyrir sér, hvort hún ætti nú að leggja út í gengislækkun í fjórða sinn. Það hefur ekki verið leið, sem hefur blasað við henni. Það er ég viss um. Jú, mér er ekki grunlaust um það, að hún hafi líka velt því fyrir sér, hvort hægt væri að ná saman endum og leysa vandann með skattlagningu og síðan að búa út uppbótarkerfi hér og uppbótarkerfi þar til þess að reyna að fá hjól atvinnulífsins til þess að snúast. Vafalaust hefur hún borið þessar tvær leiðir saman og komizt að þeirri niðurstöðu, að illt úr illu væri gengislækkunin skárri heldur en að skattleggja þjóðina, eins og nú er komið í rýrnandi atvinnu og lækkandi tekjum meginþorra þjóðarinnar, skattleggja hana kannske yfir 2000 millj. Minna hefði ekki dugað. Ég geri því ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að sú leið væri ófær, þegar svona væri komið, þegar vandinn væri orðinn svona mikill, og þá hafi hún ekki séð neitt úrræði annað heldur en gengislækkun í fjórða sinn þrátt fyrir hrapallega reynslu af þeirri úrlausn þrisvar sinnum áður. Hér einu sinni fyrir alllöngu síðan, þegar Ólafur Björnsson, hv. þm., var ungur hagfræðingur, það er svo langt síðan; þá voru nokkuð margir hagfræðingar látnir gera álitsgerð, og það kom út heil bók eftir þá um úrlausnir í efnahagsmálum, og þá var talað um þrjár leiðir mögulegar, hugsanlegar og mögulegar: Það var gengisfellingarleið. og það var skattlagningar- og uppbótaleið, og það var svokölluð verðhjöðnunarleið. Í fræðibókum hagfræðinga var þriðja leiðin þá til, ekki aðeins gengislækkunarleið og hin leiðin, heldur og þriðja leiðin líka. Og nú er okkur sagt, að það hafi einmitt komið upp hugmyndir meðal fylgismanna ríkisstj. um það, hvort það væri ekki betra að huga einmitt nú að þessari þriðju leið, að verðhjöðnunarleiðinni, að menn hafi lagt á sig nokkurt ómak til þess að kryfja möguleika þeirrar leiðar til mergjar og lagt fram nokkuð ákveðnar till. um þá leið að ganga framan að fólkinu og lækka kaupið núna, að gera sterklegar, ákveðnar ráðstafanir til þess að lækka verðlag og færa niður skuldabyrði á mönnum, einstaklingum og fyrirtækjum. En þessi leið hefur lengi verið mér mjög hugleikin, og ég flutti einu sinni fyrir alllöngu síðan till. um hana hér á Alþ., þegar líkt stóð á eins og nú, og hef því í raun og veru staðnæmzt við hana enn, hvort þessi leið, sem hagfræðingarnir eitt sinn töldu færa leið, hafi verið grandskoðuð af efnahagsmálaráðunautum núv. hæstv. ríkisstj. og komizt hafi verið að þeirri niðurstöðu, að hún væri ófær, að hún væri eins fær eins og gengislækkun, þegar litið væri á þá reynslu, að hún væri búin að misheppnast þrisvar, því að í fjórða sinn vekur hún ekki miklar vonir, a.m.k. ekki hjá mér.

Ég geri mér það ljóst, að þessi niðurfærslu- eða verðhjöðnunarleið er sjálfsagt mjög vandmeðfarin í framkvæmd. Hún útheimtir, að hún sé framkvæmd af sterkri réttlætiskennd og hörðum höndum. Það yrði áreiðanlega að fylgja þar fast eftir, ef framkvæmdin ætti ekki að fara í handaskolum og ekki að koma ranglátlega niður. Það má vel vera, að það þyki kostur gengislækkunar samanborið við verðhjöðnunarleiðina, að hún sé sjálfvirkari eftir að búið sé að skella henni á landslýðinn.

Það upplýsist nú sjálfsagt hér í umr., hversu mikill gaumur hefur verið gefinn þessum möguleika, að fara beint framan að fólkinu, skera niður kaupið sem fyrstu aðgerð og gera jafnframt ráðstafanir til verðlækkunar og niðurfærslu skulda, og geri ég þá sérstaklega ráð fyrir því, að ef aðrir verða ekki til að gera grein fyrir þessum þætti málsins, þá munu þó þeir menn, sem þessar hugmyndir báru fram, gera það. Alþ. á sannarlega heimtingu á því að fá að kynnast öllum þeim möguleikum, sem menn hafa þó komið auga á í sambandi við úrlausn slíks vanda, sem skapazt hefur í efnahagslífi þjóðarinnar. En verkin sýna merkin. Ég er viss um það, að hæstv. ríkisstj. hefur vafalaust einnig hugleitt þessa leið og hafnað henni, úr því að gengislækkunarfrv. liggur hér fyrir hv. Alþ. Ég er alveg hjartanlega samþykkur þeim mönnum, sem segja, að nú sé svo komið, að það þýði ekki að kýta um það, hverjum sé að kenna það ástand, sem skapazt hefur, og það mun ég ekki gera, það er bara staðreynd. Ástandið er alvarlegt. Það þýðir heldur ekki að kýta um það, hverjum það sé að kenna, hvort það sé að kenna verðfalli á heimsmörkuðum og aflatregðu eða hvort það sé að kenna hæstv. ríkisstj. og stefnu hennar. Og ég held, að það sé óviturlegt af hæstv. ríkisstj. að halda því til streitu, að stjórnarstefnan eigi hér enga sök á. Það er hægt að segja það með sanni, að þjóðin hefur orðið fyrir allþungu áfalli á árinu 1967 og 1968 eða frá því á síðari hluta árs 1966, en hins er ekki að dyljast, að hinar þrjár gengislækkanirnar voru framkvæmdar í góðæri og hefðu þannig átt að eiga miklu meiri möguleika til þess að takast heldur en þessi. Þessi gengislækkun er framkvæmd við erfið skilyrði, þegar ástandið er orðið slíkt, að það hvarflar að manni, hvort efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar sé ekki nokkuð hætt komið. Ég tel það vera skyldu mína persónulega, ég tel það vera skyldu verkalýðshreyfingarinnar, ég tel það vera skyldu stjórnarandstöðuflokkanna að horfast af raunsæi í augu við það ástand, sem skapazt hefur. Það þýðir ekkert gaspur til lausnar þeim vanda, sem þjóðin stendur nú í. Ég mun verða spurður af mörgum sem forseti Alþýðusambandsins: Er nokkuð hægt að gera annað heldur en hækka kaupið til þess að mæta þeirri stórfelldu kjaraskerðingu, sem leiðir af þessari gengislækkun? Ég fyrir mitt leyti verð að játa það strax, að ég held, að við það ástand, sem núna hefur skapazt, sé kauphækkun ekki fær og ekki raunhæf leið, því miður. En ég er ekki sannfærður um það, að þar með séu allar leiðir lokaðar til þess að verja hina lægst launuðu innan og utan verkalýðshreyfingarinnar, og það verður áreiðanlega að grípa fremur til annarra ráða til þess að verja hagsmuni hinna tekjulágu í þjóðfélaginu heldur en kauphækkana eins og sakir standa.

Það þyrfti mikla kauphækkun til, og að gera kröfu um hana og lemja hana fram með verkföllum, því að öðru vísi fengjum við hana ekki, það væri auðvitað ráðstöfun til þess að gera þessa gengislækkun að engu á næstu vikum og mánuðum. Það er ekkert markmið í sjálfu sér. Það, sem við verðum að leita að í viðræðum við hæstv. ríkisstj., er það, hvort hægt sé að finna leiðir, sem geti haft nokkuð varanlegt gildi og sem geti varið láglaunastéttirnar fyrir þyngstu áföllum þessarar ákvörðunar, og ákvörðunina sjálfa tel ég vera afleiðingu af því ástandi, sem skapazt hefur. Ég tel gengislækkunina ekki gerða að ófyrirsynju af hæstv. ríkisstj., alls ekki. Ég held, að hún sé gerð, þegar hæstv. ríkisstj. gerði sér ljóst, að hún átti einskis annars úrkosta. Ég tel þó, að hæstv. ríkisstj. hefði átt og ætti, þegar hún sá, að hún hafði ekki ráðið við vandamálin — þau hefðu færzt henni svo þunglega í fang, að hún réði ekki við vandamálin, stefnan dugði ekki og hæstv. ríkisstj. dugði ekki heldur til þess að leysa vandamálin — þá er það mín skoðun, að hún hefði átt að segja af sér. En um það þýðir heldur ekki að sakast. Hún virðist hafa trú á því, að hún ráði við málin með því að framkvæma gengislækkun í því formi, sem hún hefur lagt fram frv. um. Og það ber að vona í lengstu lög, að hún verði ekki fyrir vonbrigðum með það, og það segi ég þjóðarinnar vegna. Ég veit ekkert um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að ræða málin við verkalýðshreyfinguna, og á meðan get ég ekki sagt um það, hvaða tökum verkalýðshreyfingin tekur þessi mál. En ég er alveg viss um það, að verkalýðshreyfingin stendur í svo alvarlegum sporum nú í dag, og í þeim vanda stöndum við núna næstu daga og vikur, að það verður einhuga verkalýðshreyfingu að mæta, og verkalýðshreyfingin verður einhuga um það að taka af raunsæi á þessum miklu vandamálum og leysa þau á þann veg, ef nokkur kostur er, að atvinnulífið verði sterkara eftir en áður, því að í raun og veru á verkafólk allt undir því, að atvinnuleysisvofan verði ekki landlæg, og hún hefur þegar minnt á sig nægilega. Hún gerði það á s.l. vetri, og hún hefur þegar gert það ekki síður á þessu hausti, því að ástandið er víða vægast sagt mjög uggvænlegt í þeim efnum. Ég teldi það ekki rétt af mér, þó að mönnum sé þungt í skapi og þó að ekki sé bjart fram undan, að hóta verkföllum í nafni verkalýðshreyfingarinnar, og ég veit, að það að hrinda atvinnulífinu út í algera stöðvun verður ekki úrræði, sem nú verður gripið til fyrr en í síðustu lög, ef hæstv. ríkisstj. fæst ekki til að ganga neinar aðrar færar leiðir. En við skulum ekki gleyma því, að það er þó alltaf síðasta vopnið, sem verkalýðshreyfing hvaða lands sem er verður að grípa til til að knýja sinn vilja fram, að beita verkfallsvopninu, og það skyldi því enginn vera of viss um það, að verkalýðshreyfingin neyðist ekki til þess, ef hún fær ekki sínum málstað framgengt, að grípa til þess vopns jafnvel nú.

En ég endurtek það, sem ég hef sagt í þessari ræðu minni: Allar okkar aðgerðir í verkalýðshreyfingunni verða að miðast við það að verja þá lægst launuðu í þjóðfélaginu áföllum af þeirri ákvörðun, sem nú hefur verið tekin með gengisfellingunni og þeirri dýrtíðaröldu, sem nú skellur yfir og virðist skella yfir, án þess að hæstv. ríkisstj. hafi enn gert neinar ráðstafanir til þess að verja láglaunastéttirnar fyrir áföllum af þessari aðgerð. Þetta mál er þess eðlis, að það væri í raun og veru ekkert unnið við það fyrir stjórnarandstöðuflokkana að tefja framgang þess. Stjórnin hefur sjálfsagt tryggt sér það, að málið á meirihlutastuðning í þinginu. Þetta er aðgerð, sem affarasælast er fyrir þjóðfélagið, að gangi fljótt fyrir sig, eins og ég hef áður drepið á, úr því að það verður að gerast. En ég hygg, að stjórnin hafi nú þegar tryggt sér það samkomulag við stjórnarandstöðuflokkana, að svo verði á málum haldið hér, að bankarnir geti hafið starfsemi sína með morgundeginum, enda sé ég ekki heldur, að neitt væri unnið við að hindra það af stjórnarandstöðunni. En það dregur ekkert úr því, að þetta mál er eitt hið alvarlegasta, sem fyrir þingið hefur komið nú um lengri tíma. Bæði er gengisfellingin stórfelld og hún er ekki gerð núna í fyrsta sinn. Þetta er í fjórða skipti á 8 árum, eins og sagt hefur verið, og það má ekki minna vera heldur en þm. gefist kostur á að ræða málið eins og þá lystir, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hugsi sér heldur ekki að leggja neinar hömlur á það. Allt er undir því komið, hvernig framkvæmdin verður á þessari hrikalegu gengislækkun, og við eigum eftir að sjá, hvernig hæstv. ríkisstj. snýst við því, bæði í viðræðum við verkalýðshreyfinguna og aðra aðila í þjóðfélaginu, að milda framkvæmdina á þann hátt, að hún verði framkvæmanleg, því að sýni hæstv. ríkisstj. ekki góðan vilja í því, þá er ég alveg viss um það, að þessi leið reynist ekki framkvæmanleg.