17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

115. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og ég tók fram, þegar ég mælti fyrir þessu frv. hér í hv. d., getur ríkisstj. fyrir sitt leyti vel á það fallizt, að frv. sé breytt í það horf, að það gildi aðeins í eitt ár, eins og þau lög, sem nú gilda, giltu. Tók ég það fram, að ef hv. n. kysi að breyta frv. í það horf, þá gæti ríkisstj. fyrir sitt leyti algerlega á það fallizt, og ég lýsi því fylgi hennar við þær brtt., sem hv. meiri hl. n. hefur þegar lýst og mælt hefur verið fyrir. Annars var það ekki erindi mitt hingað í ræðustólinn að taka þetta fram, það hefði í raun og veru verið óþarfi, en ég geri það fyrst ég er kominn hingað á annað borð, heldur er erindi mitt hingað, og það tel ég allmikilvægt, að gera þá fsp. til hv. minni hl. fjhn. eða öllu heldur til hv. form. þingfl. Framsfl., hvort afstaða fulltrúa Framsfl. í fjhn. sé afstaða hv. Framsfl. Það vil ég fá að vita, og það hygg ég, að fleiri vilji fá að vita af eða á, já eða nei um. Í nál. hv. þm. á þskj. 190 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:„Minni hl. telur, að gera skuli breytingar á l. um verðlagsmál. Sérstaklega virðist óþarft með öllu að halda uppi opinberum verðlagsákvörðunum og eftirliti með verðlagi á vörum, sem öllum er frjálst að flytja til landsins.“Ég vek athygli á því, að nú er frjálst að flytja til landsins um það bil 85% af öllum innflutningi. Þetta mundi því þýða það, ef framkvæmt væri, að svo að segja allt verðlagseftirlit á Íslandi yrði afnumið. Og nú langar mig til að fá um það algjörlega skýr svör frá hv. þm., eða ef hann vill ekki svara, þá frá form. þingfl. Framsfl., er þetta stefna Framsfl. í verðlagsmálum? Ja, það er hreint ekki út í bláinn, að spurt sé um það, hver sé raunveruleg stefna Framsfl. í þessu máli og hinu málinu, því að svo að segja samdægurs og fulltrúi Framsfl. í verðlagsnefnd lýsir þeirri skoðun sinni, að hann sé andvígur svo að segja öllu verðlagseftirliti á Íslandi, þá mælir sjálfur form. Framsfl. fyrir frv. í Ed. um Atvinnumálastofnun, sem ég sé ekki betur en sé hið gamla Fjárhagsráð endurreist í öllum aðalatriðum. Hér er í Nd. mælt af hálfu Framsfl, með afnámi alls verðlagseftirlits, en form. Framsfl. mælir síðdegis í dag með stofnun nýrrar stofnunar, sem í meginatriðum á að fá svipað vald og Fjárhagsráð sællar minningar hafði á sínum tíma. Í Ed. er það með öðrum orðum stefna Framsfl. að endurreisa Fjárhagsráð og allt það eftirlitskerfi, sem því fylgir, en hér í Nd. er það rödd Framsfl., sem heyrist um það, að afnema skuli allt verðlagseftirlit á Íslandi. Hvers konar flokkur er Framsóknarflokkurinn eiginlega að verða? Ja, það er sannarlega von að maðurinn spyrji, og hér gerðist nýlega í hv. Nd. atvik, sem gerir það alveg fullkomlega eðlilegt, að um það sé spurt, því hér fóru fram mjög skemmtilegar umræður um daginn á milli tveggja framsóknarmanna, í tilefni af frv., sem varamaður hv. þm. Þórarins Þórarinssonar flutti hér, Kristján Thorlacius. En þeim kom ekki saman, hv. þm. Skúla Guðmundssyni og hv. þm. Kristjáni Thorlacius frekar en mér sýnist nú, að í dag komi þeim saman hv. þm. Skúla Guðmundssyni og hv. form. Framsfl. í Ed. Þetta er engin ný bóla, þetta gerðist hér fyrir fáeinum dögum, og þá fékk deila þeirra heldur sögulegan enda, og ég ætla að leyfa mér að minna hv. þm. á það, hvaða enda sú deila fékk, ef ég mætti lesa síðustu setningarnar í ræðu hv. þm. Kristjáns Thorlacius um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta. En hann sagði um samflokksmann sinn, hv. þm. Skúla Guðmundsson, þessi orð: Það er góðra gjalda vert hjá þessum hv. þm. að vilja styðja atvinnurekendur heldur í sínu heimahéraði og annars staðar. En ég held, að hann ætti að endurskoða sína tölu í sambandi við launamenn í þessu sambandi og reyna að rumska við og lifa í nútímanum, heldur en að koma eins og maður, sem ekki hefur lifað í nokkra áratugi.“

Nú langar mig að vita: Er þetta áratuga gömul rödd, sem hljómar frá hv. þm. einum saman og enginn annar í flokknum tekur mark á, eða er þetta rödd Framsfl.? Annars er það svo um ýmsa þm. Framsfl., að um þá má segja, suma vil ég segja, ég undirstrika það sérstaklega, dálítið líkt og Goethe sagði um sjálfan sig á sínum tíma, að tvær sálir byggju í brjósti sínu. Ég átti talsverð orðaskipti í dag við einn ágætan þm. Framsfl. (Gripið fram í: Hver var það?) Það var bóndinn og kennarinn Sigurvin Einarsson. Það er maður, sem ég hef setið á þingi með um alllangt árabil og oft átt samræður við utan þingsalarins og alltaf líkað ágætlega, maðurinn margfróður, stórskemmtilegur og skáldmæltur að auki. Milli okkar hafa oft farið orðsendingar með ýmsum hætti, sem orðið hafa okkur báðum til mikillar skemmtunar. Bóndinn og kennarinn Sigurvin Einarsson er mesti heiðursmaður, sem ég held, að allir hafi mestu ánægju af að eiga orðaskipti og öll samskipti við. En svo er til annar maður, framsóknarmaðurinn Sigurvin Einarsson, og hann var hér að tala í dag, og það er engu líkara en að það sé allt önnur manneskja, eftir því sem fram kom í umr. í dag, og dálítið svipað má segja um þann þm., sem hér var að tala af hálfu minni hl. fjhn. Með honum er ég búinn að eiga sæti á Alþ. í meira en 20 ár. Hann er bóndi og fyrrverandi kaupfélagsstjóri og auk þess skáld, sem alveg sérstök ánægja hefur verið að eiga venjuleg, mannleg samskipti við, bæði hér utan þingsalanna og ekki hvað sízt í þingveizlum og alls staðar, þar sem maður hittir hann sem kaupfélagsstjórann, bóndann og skáldið Skúla Guðmundsson. En hér í pontunni áðan var framsóknarmaðurinn Skúli Guðmundsson, og það er svolítið líkt með honum og flokksbróður hans, að það virðist vera svolítið önnur manneskja, mjög íhaldssöm, svo íhaldssöm, að hans eigin flokksbræðrum ofbýður, og telja hans rödd vera aftan úr forneskju, margra áratuga gamla. Það er mál til komið að reyna að fá hreint borð í þessum efnum, og það sé ljósara en hingað til hefur verið, hvenær þessir menn tala fyrir hönd flokksins og hvenær þeir tala fyrir hönd sjálfra sín, sem enginn maður tekur mark á, hvorki þeirra eigin flokksmenn né þá heldur nokkrir aðrir. Og ég óska skýrra svara við þeirri spurningu: Er þetta stefna Framsfl., sem kemur fram í þessu nál. fulltrúa Framsfl. í fjhn., eða er það hans einkaskoðun?