08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

166. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er fylgjandi því, að frv. það, sem lagt hefur verið fram um, að kvennaskólinn fái rétt til þess að brautskrá stúdenta, nái fram að ganga, og alla tíð talið eðlilegt, að það verði samferða menntaskólafrv. Eins og það frv. var lagt fram, leit ég þannig á í samræmi við skoðun menntaskólanefndar, að í því fælist heimild til þess að veita kvennaskólanum slík réttindi, og hafði hugsað mér að leita eftir fjárveitingu í því skyni á næstu fjárl. og nota síðan heimildina. Niðurstaða menntmn. Nd., sem að vísu var fallizt á, var hins vegar sú, að eðlilegt væri, að sérstök lög yrðu látin gilda um kvennaskólann, sem er einn af gagnfræðaskólum landsins. Þess vegna var þetta frv. flutt, en ég tel sjálfsagt, að þessi frv. fylgist að.