02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2508)

232. mál, lax- og silungsveiði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil minnast með örfáum orðum á eitt atriði í þessu frv. Það er 7. gr. þess. Hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. málsliður 2. mgr. 15. gr. orðist svo: Eigi má leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns á tímabilinu frá 1. marz til 1. október en 1000 metra, ef meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m3 á sekúndu, en 2000 metra, ef vatnsmagnið er meira.“

Ég bendi á það, að í l., eins og þau eru nú, er þetta bann við að leggja net eða hafa ádrátt í sjó látið ná yfir 500 m svæði frá ósi straumvatns. Þarna á að lengja þetta upp í 1000–2000 metra. Ég vil vekja athygli þeirrar hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, á því, að það er nauðsynlegt að tryggja rétt þeirra manna, sem búa á sjávarjörðum, í sambandi við þessa till., sem þarna er flutt. Ef þeim er meinað að nytja veiði eða bannað að nota þann rétt, sem þeir hafa til að veiða fyrir sínu landi, þá verða þeir vitanlega að fá bætur fyrir þetta, sem yrðu annaðhvort með því að þeim yrðu metnar einhverjar skaðabætur, ef þessi réttur er af þeirra jörðum tekinn, eða þá þeim væri ákveðinn hluti í veiði vatns samkv. arðskrá. Mér er ekki vel ljóst, hvernig ákvæði eru um þetta í núgildandi l., en ég vildi mjög mælast til þess, að hv. landbn. tæki þetta til sérstakrar athugunar, því að þeir, sem þarna eiga að glata sínum rétti samkv. þessu til þess að veiða fyrir landi sinna jarða í sjó, þeir verða að fá þetta bætt, og ef um mat er að ræða á skaðabótum, ættu þeir að fá það framkvæmt án þess að þurfa að bera af því nokkurn kostnað. Annað ætla ég ekki að gera að umtalsefni í þessu frv. að svo stöddu.