17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

115. mál, verðlagsmál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er eiginlega orðið alveg sama, hvaða mál er til meðferðar hér í Nd., og það er kannske eins í Ed. líka, hæstv. viðskmrh. þarf að tala í hverju máli og lýsa vanþóknun sinni á framsóknarmönnum. En ég kvaddi mér ekki hljóðs að þessu sinni til þess að svara ummælum hans um okkur framsóknarmenn, það getur beðið annars tíma, heldur ætla ég fyrst og fremst að ræða um það mál, sem hér er á dagskrá, og þær brtt., sem liggja fyrir frá meiri hl. og minni hl. fjhn. Ég kvaddi mér hljóðs til að gera grein fyrir afstöðu minni, því að eins og á stendur finnst mér réttara að greiða atkv. með till. meiri hl. en minni hl., og skal ég gera lauslega grein fyrir því. Ég get alveg tekið undir það, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að ég hef enga ofsatrú á verðlagseftirliti. Ég hef þvert á móti takmarkaða trú á því, að verðlagseftirlit sé neytendum og launþegum til mikils hagnaðar, þó að það geti verið til nokkurra bóta undir vissum kringumstæðum. Mér finnst sú reynsla, sem ég hef reynt að kynna mér í þessum efnum, benda til þess, að undir öllum eðlilegum kringumstæðum, sem við viljum kalla svo, gefi frjáls verðmyndun bezta raun, þar sem verzlanir, kaupmenn og kaupfélög hafa aðstöðu til að keppa undir eðlilegum kringumstæðum. Nú er hins vegar ástandið í okkar þjóðfélagi þannig, að það er ekki hægt að tala um eðlilegt ástand í þessum efnum, og ástandið er tvímælalaust þannig, að við þurfum að beita einhverjum verðlagshömlum, og þær geta sennilega komið að einhverjum notum. En ég vara bæði neytendur og launþega við því að hafa of mikla trú á því, að verðlagseftirlitið gefi mjög mikla raun, og ég segi það, að ég vara alveg sérstaklega launþega við því að trúa of mikið á verðlagseftirlitið og telja það vera eitthvert aðalatriði eða höfuðatriði í kjarabaráttunni. Ég er ekki með þessu að gera lítið úr því, að það geti gert eitthvert gagn undir vissum kringumstæðum, en það gerir áreiðanlega ekki neitt stórt gagn, vegna þess að verzlanir, sem kæra sig um það, hafa ótal möguleika til þess að komast fram hjá því, eins og oft hefur verið bent á í umræðum um þessi mál. Ég held þess vegna, að það leiki enginn efi á því, að ef hægt er að hafa eðlilegt fjármálaástand í landinu, þá sé það frjáls verðmyndun, sem gefur bezta raun. Við sjáum líka glögg dæmi um það yfirleitt í öllum eða flestum þeim löndum í kringum okkur, sem hafa undir vissum kringumstæðum búið við verðlagseftirlit, að þau hafa fallið frá því, þegar efnahagsástandið þar hefur komizt í eðlilegt horf.

Þessi lög, sem hér eru til umr., eða sem verið er að ræða breytingu á, munu upphaflega hafa komizt á vegna samkomulags milli verkalýðssamtakanna og ríkisstjórnarinnar. Verkalýðssamtökin munu hafa lagt nokkra áherzlu á það að fá verðlagseftirlit samþykkt undir þeim kringumstæðum, sem þá voru, og ég get vel skilið þá afstöðu þeirra og tel hana eðlilega. Mér finnst hins vegar rétt í sambandi við umr. um þetta mál að vara verkalýðssamtökin við því að leggja of mikið upp úr verðlagseftirlitinu og treysta á það eitt sem kjarabótaleið í þessum efnum. Ég vil sérstaklega láta þetta koma fram í sambandi við þær viðræður, sem nú eru byrjaðar á milli fulltrúa verkalýðssamtakanna og ríkisstj. Ég tel, að í þeim viðræðum, þó að verkalýðshreyfingin leggi áherzlu á það, að verðlagseftirlitinu verði haldið áfram, eigi hún að leggja áherzlu á tvö mál önnur, sem mér finnst, að hún megi ekki undir neinum kringumstæðum víkja frá. Í fyrsta lagi verður verkalýðshreyfingin að leggja áherzlu á það, að tryggð verði næg atvinna í landinu. Það er annað höfuðatriðið, sem nú þarf að leggja áherzlu á, en hitt atriðið, sem ég tel engu þýðingarminna, og verkalýðshreyfingin má ekki undir neinum kringumstæðum víkja frá, er það, að tryggð sé verðtrygging launa, a.m.k. ekki lakari en sú, sem nú er í gildandi kaupsamningum.

Ég tel, að þeir kaupsamningar, sem náðust á seinasta ári og veita láglaunastéttunum nokkra verðtryggingu á launum þeirra, séu annað höfuðatriðið, sem verkalýðshreyfingin verður að halda fast við í samningum sínum við ríkisstjórnina og hún megi ekki undir neinum kringumstæðum hörfa frá. Það komi því aðeins til greina samkomulag milli þessara aðila, að ekki verði hörfað frá því samkomulagi, sem gert var milli verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda á s.l. ári. Mér finnst einmitt rétt að láta þetta sjónarmið koma fram við þessar umr., vegna þess að ég tel það svo mikilvægt, að þetta atriði komi fram hér ákveðið í þinginu, einmitt um það leyti, sem þessir samningar eru að hefjast. Verðlagseftirlit getur undir vissum kringumstæðum og á takmörkuðum tíma gert nokkurt gagn, en það, sem tryggir launþegana bezt gegn verðhækkunum og gegn kjaraskerðingu, er það, að launin séu verðtryggð. Og ég tel, að það sé alveg lágmarkstrygging í þeim efnum, sem verkalýðssamtökin sömdu um við atvinnurekendur á s.l. vetri. Og vegna þess, að viðskmrh. er nú að beina ýmsum fsp. til okkar framsóknarmanna, þá vildi ég beina þeirri fsp. til hans, hvort hann sé mér ekki sammála um þetta atriði, að það sé meginnauðsyn til þess að tryggja kjör láglaunastéttanna í landinu, að ekki verði á neinn hátt hörfað frá þessu samkomulagi, sem gert var á milli atvinnurekenda og launþega á s.l. vetri. Því þó það geti verið nokkur ávinningur fyrir launþega að fá verðlagseftirlit, eins og það, sem nú er, þá er ávinningurinn af hinu margfaldur á við það, sökum þess, að ég tel, að eins og nú er ástatt í landinu, eins og ríkisstjórnin er búin að koma málum þjóðarinnar, þá sé ekki raunverulega um frjálsa verðmyndun að ræða, það sé hér óeðlilegt ástand, og þess vegna verði að beita tímabundnum verðlagshömlum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv„ og þó sérstaklega í tillögum meiri hl.

Ég álít, að tímatakmarkið, sem sett var í brtt. minni hl., sé of stutt, það megi ekki vera öllu styttra en það, sem er ákveðið í till. meiri hl., og þess vegna mun ég greiða till. meiri hl. atkv.