04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

25. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það til laga um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi af sömu flm. og nú flytja það að beiðni allra forseta þingsins. Var það ekki útrætt og er því flutt hér að nýju. Þegar það upphaflega var lagt fram, gerði ég allýtarlega grein fyrir efni þess og þeim breytingum, sem það felur í sér frá gildandi þingsköpum. Ég sé því ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. nú.

Rétt þykir þó að ítreka, að frv. er byggt á áliti mþn., sem kjörin var á Alþingi 5. maí 1966 til þess að endurskoða þingsköpin, en hún var kjörin í samræmi við þáltill., er samþ. var á Alþ. 29. apríl sama ár. Í n. þessari áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Stóð n. sameinuð að till. sínum. En í henni voru rædd ýmis önnur atriði en þau, sem felast í frv. Um þau náðist ekki fullkomin samstaða. N. taldi hins vegar, að mikilvægt væri, að þær till., er hún léti frá sér fara, kæmu frá henni óskiptri. Var það álit hennar, að æskilegt væri, að sem mest samstaða ríkti á Alþ. um breytingar á þingsköpum.

Þegar frv. þetta var rætt hér í hv. Nd. á síðasta þingi, kom fyrst og fremst fram ágreiningur um eitt atriði till. n. Það er um útvarpsumr. frá Alþ. N. hafði lagt til, að útvarpsumr. yrðu styttar mjög verulega frá því, sem tíðkazt hefur. Raddir voru einnig uppi um það í mþn., að stytta bæri útvarpsumr. enn meira en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Í umr. um frv. á síðasta þingi kom fram sú skoðun, að fella bæri útvarpsumr. frá Alþ. í núverandi formi að mestu eða öllu leyti niður. Þær gæfu ranga mynd af þingstörfum og hefðu oft verið þinginu til vansæmdar.

Það kemur nú til kasta hv. Alþ. að taka afstöðu til þessara sjónarmiða.

Mþn. aflaði sér ýtarlegra upplýsinga um útvarp frá þjóðþingum margra landa. Fylgir sú skýrsla grg. frv. Af henni kemur það fram, að mjög mismunandi reglur gilda um þetta í hinum ýmsu þjóðþingum. Frá sumum þingum er útvarpað öllu, sem þar fer fram, frá öðrum er útvarpað umr. um einstök meiri háttar mál, og frá enn öðrum er alls ekki útvarpað. Víða eru fréttir frá þingstörfum í útvarpi og sjónvarpi mjög fullkomnar. Yfirleitt hafa t. d. ríkisútvörpin á Norðurlöndum mjög rúma heimild til þess að taka upp umr. í þingunum og útvarpa þeim að vild. Sjónvarp hefur einnig farið mjög í vöxt á síðustu árum frá þjóðþingum Norðurlanda. Í till. mþn. er einnig lagt til, að slík heimild verði fengin ríkisútvarpinu að höfðu samráði við forseta og formenn þingflokka. Útvarp eða sjónvarp samkv. þessari heimild færi að sjálfsögðu fyrst og fremst eftir fréttagildi umr. og atburða.

Það er skoðun flm. þessa frv., að þær breytingar, sem í frv. felast, séu allar til bóta. En það er auðvitað á valdi þingsins sjálfs að gera ýmsar aðrar og róttækari breytingar á þingsköpum sínum. Miklu máli skiptir, að starfsreglur þingsins tryggi sem hagkvæmust og greiðust vinnubrögð þess. Um það getur naumast ríkt ágreiningur. En þá kemur einnig til greina, að starfsaðstaða þm. sé sem skaplegust. Á það brestur hins vegar mjög, að hún sé það. Nokkuð hefur að vísu verið gert til umbóta í þeim efnum á síðustu árum. En hér þarf fleira að koma til. Sjálfstæði Alþ. gagnvart stjórnvaldi og framkvæmdavaldi þarf að efla. Það er frumskilyrði þess, að þessi elzta og sögufrægasta stofnun þjóðarinnar haldi trausti og virðingu.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.