04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

25. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breytingar á þingsköpum var hér til meðferðar í fyrra og einnig annað mál, sem snertir þessi efni óbeint, og það var breyting á kosningalögum. Í sambandi við umr. um það mál tók ég nokkurn þátt í því að ræða um starfshætti Alþ. og ýmislegt, sem mér fannst að þyrfti að breyta. Ég ætla ekki að endurtaka það nú og allra sízt vegna þess, að ég hef á sérstöku þskj. leyft mér að flytja till. til þál. um, að starfshættir Alþ. verði endurskoðaðir með þeim hætti, sem þar er nánar tilgreint. Ég vona, að ég komist bráðlega að í Sþ. til þess að gera grein fyrir þeim viðhorfum, sem liggja að baki þeirri þáltill. Ég ætla því ekki að ræða hér um öll þau atriði í sambandi við störf Alþ., sem mér finnst nauðsynlegt að ræða hreinskilnislega um og kryfja til mergjar. En margt af því er að mínu viti mjög aðkallandi.

Ég ætla aðeins að segja hér örfá orð út af þessu frv. um þingsköp Alþingis og halda mig algerlega við efni þess. Það, sem ég segi, verður að sumu leyti endurtekning á því, sem ég tók fram í fyrra við sama tækifæri, en það varðar fsp. og útvarpsumr., eiginlega sömu atriðin og hæstv. forsrh. ræddi hér áðan.

Ég vil fyrst segja um fsp., að það hefur illa mistekizt með þær. Þær áttu að verða góður liður í starfsemi Alþ., en það hefur mjög mistekizt. Ég álít, að það sé hæstv. ráðh. mest að kenna, að svo hefur farið, því að sá háttur hefur verið upp tekinn, að í stað þess að svara fsp. í stuttu máli og skorinort, sem oftast væri hægt, eru haldnar hér í sambandi við fsp.-svörin langar ræður, mjög langar ræður, langar skýrslur oft úr embættiskerfinu, eins og við vitum. Það er í sjálfu sér engin ástæða til þess að deila á ráðh. fyrir það, þó að þeir styðjist við upplýsingar úr embættiskerfinu, ef sett er í sómasamlegt form. En úr þessu hafa orðið langir fyrirlestrar af hendi hæstv. ráðh.

Það er alveg auðfundið, að ráðh. hafa fallið fyrir þeirri freistingu að nota nálega hverja einustu fsp. til þess að reyna að koma inn í þingfréttirnar svo og svo miklu af áróðri um þau efni, sem þeir eru að fást við. Það er auðvitað ekki nema mannlegt, að við reynum allir og alls staðar að koma við því, sem kalla mætti áróður, þ. e. a. s. ýtni fyrir okkar málstað og því, sem við erum að glíma við. En það verður að reyna að setja þessu eðlileg og skynsamleg takmörk, og það er mjög ömurlegt, að svona hefur farið með þessar fsp.-viðræður, vegna þess að í öðrum blóðþingum skilst mér, að þetta sé þýðingarmikill þáttur, þ. e. að spyrja stutt og fá stutt svör.

Þá er annað, sem hefur skemmt þennan þátt, og það er, að við höfum tekið upp á því, þm., að nota fsp. til þess að efna til almennra umr., en slíkt á alls ekki að eiga sér stað, og við höfum því ekki haldið okkur innan eðlilegra takmarka fremur en ráðh., að mínum dómi.

Ég mundi helzt vilja benda á að gera alls ekki ráð fyrir því, að aðrir þm. taki til máls í sambandi við fsp. en þeir, sem fsp. gera. Ég veit ekki, hvort hægt er að koma því við að taka þetta beint fram í þingsköpum, en a. m. k. að þetta yrði fastur siður, að einungis sá, sem fsp. gerir, taki þátt í umr. og ráðh. fyrir sitt leyti svari stutt. Og ef þeir treysta sér ekki til að svara beint, þá geta þeir líka svarað stutt út úr, eins og þar stendur, ef þeir telja sig endilega þurfa þess. Það er náttúrlega stundum, sem ráðh. eiga erfitt með að svara alveg beint, eins og maður veit, en þá er að svara stutt samt. Ég skal sem sagt ekki segja, hvort hægt væri að bæta úr þessu með þingskapaákvæðum, en þetta er orðið alveg óþolandi, og þetta er búið að eyðileggja gersamlega eða a. m. k. stórskemma fundina í Sþ. og verða til þess, að forsetar í Sþ. og aðrir eiga mjög erfitt með að koma málum að. Bókstaflega allur venjulegur fundartími í Sþ. fer í þetta þras fram og aftur um fsp. og þessar löngu skýrslur, sem ráðh. láta koma fram í sambandi við þær. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, eins og kunnugt er, af þessum sífelldu kappræðum í sambandi við fsp., að þáltill. og önnur málefni, sem eru lögð fyrir Sþ., komast ekki að mánuðum saman.

Ég beini því til manna að reyna að finna betri hátt á þessu, annaðhvort með því að gera ákvæði þingskapanna skýrari um þetta eða þá að reyna að skapa einhverjar skynsamlegar starfsvenjur. Við hljótum að geta það, ef við tölum hreinskilnislega um þetta og einsetjum okkur að bæta okkur í þessu. Við skulum gera okkur það ljóst, að við höfum allir brotið af okkur í þessu sambandi og fsp. eru orðnar allt annað en við vonuðum í upphafi að þær yrðu.

Þá vil ég víkja hér að útvarpsumr. og segja það sem mína skoðun, að mér finnst hæstv. forsrh. ekki sanngjarn, þegar hann ræðir um útvarpsumr. Við skulum gera okkur það ljóst, að útvarpsumr. eru eins konar þingmálafundir. Á bak við þær liggur sú hugsun, að menn komi fram í útvarpi og leggi málstað sinn fram og standi fyrir máli sínu í áheyrn alþjóðar og þetta sé gert af og til á þinginu. Útvarpsumr. eru settar upp eins og þingmálafundir voru áður, nokkuð svipað. Það er talað fyrir hvern flokk og síðan koma svör o. s. frv. Þessir þingmálafundir voru ákaflega nytsamleg fyrirtæki.

Útvarpsumr. eru settar upp eins og kappræður hér á Alþ., fara gjarnan fram, þegar eitthvað er sérstakt um að vera. Þær eru alls ekkert ólíkar því, sem hér gerist, t. d. þegar stór deilumál koma fram eða menn taka sig til og gera upp. Í sambandi við útvarpsumr. var náttúrlega mjög haft í huga, hvernig tíðkazt hafði að haga sér við gömlu eldhúsumr. hér í þinginu, sem við höldum enn, og þær eru útvarpsumr. Það var sem sé þetta, að stjórnarandstaðan deildi á ríkisstj. og stjórnin svaraði fyrir sig, og þetta vildu menn gjarnan láta þjóðina heyra.

Ég vil ekki segja, að útvarpsumr. hér á Alþ. hafi yfirleitt tekizt sérstaklega vel eða jafnvel eins og þær hefðu þurft að takast. T. d. er það ákaflega áberandi í útvarpsumr., og þar er enginn undanskilinn, að menn eru nálega hættir að svara. Upphaflega voru útvarpsumr. hérna þannig, að menn svöruðu gjarnan næsta ræðumanni á undan og svo koll af kolli, eins og gerist á góðum fundi, en nú er þetta meira orðið þannig, að menn semja nálega allar ræður heima hjá sér fyrir fram, og satt að segja kemur sumt af því, sem sagt er, nálega eins og skrattinn úr sauðarleggnum fyrir bragðið. Á þessu verður ekki það kappræðu- eða fundarsnið, sem ætti að vera og þyrfti að vera. En þetta er okkur sjálfum að kenna, en ekki vegna þess, að þetta fyrirkomulag, þessar kappræður í útvarp ættu að þurfa að kalla á þennan starfshátt. Það ætti að vera hægt að hafa á þessu svipaðan hátt og öðrum umr. hér í þinginu, að þetta væru raunverulega rökræður fram og aftur um málin.

Þetta eru oft eldhúsumr., sem þarna eiga sér stað, og kæmu fram svör og andsvör með eðlilegri hætti en tíðkazt hefur æðilengi, þá hygg ég, að við stæðum betur í þessu og mundu þá fleiri hlusta á útvarpsumr. en nú. Enn fremur hafa þessar umr. oftast staðið of lengi, hafa verið tvö kvöld, sem er óþarflega fyrirferðarmikið og leiðigjarnt og venur menn á endurtekningar. Það er alveg vorkunnarlaust fyrir menn að láta öll aðalatriði koma fram á einu kvöldi.

Ég tel mjög mikla áhættu í því fyrir Alþ. og þjóðmálalíf í landinu að láta þessar umr. falla alveg niður, því að satt að segja er það nú orðið mjög fágætt, að þjóðin hafi tækifæri til þess að koma á reglulegan þingmálafund eða hlýða á kappræður, eins og áður var mjög algengt, þar sem slíkir fundir voru haldnir víðs vegar um allt landið með tiltölulega stuttu millibili. En nú potar hver orðið nálega í sínu horni og kallar á sína menn til þess að hlusta á sig. Þetta er í raun og veru hin mesta afturför frá því, sem áður var, og ég held, að útvarpsumr. hér frá Alþ. séu þó til þess, að menn eigi kost á því, þótt mjög sjaldan sé, að heyra þjóðmálin kapprædd, og það ætti að vera í svipuðum stíl og tíðkaðist á hinum almennu þingmálafundum áður og tíðkast í hinum almennu kappræðum í þinginu, sem hér fara fram, þegar stórmál eru á döfinni.

Ég tel að vísu, að forsrh. hafi dálítið fyrir sér í því, að þessar útvarpsumr. hafa orðið í meðförunum hjá okkur hálfgerðar gerviumræður að þessu leyti til, að það er allt of mikið fyrir fram smíðað í þeim og þetta verða ekki svör og andsvör, eins og þyrfti að vera, ef nógu vel væri á þessu haldið. Og það sama má kannske segja um þingræður hér nú orðið yfir höfuð, að það er allt of mikið af þeim orðið skrifað fyrir fram og undirbúið, en of lítið um raunverulegar kappræður eða „diskution“, og það má vera, að útvarpsumr. séu að þessu leyti ekki alveg eins röng mynd af þeim ræðuhöldum, sem hér eru orðin, eins og hér hefur komið fram frá forsrh. Menn ættu að reyna að færa útvarpsumr. í betra horf, en ekki leggja þær niður.

Ég tel mjög mikið til bóta það, sem hér er ákveðið í frv., að þær umr. skuli aldrei standa lengur en eitt kvöld. Ég held, að það mundi hafa afar góð áhrif á umr. og skynsamlegt að takmarka þær á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í frv. Ég er ekki talsmaður þess, að þær verði lagðar niður.

Við skulum segja, að menn hefðu mikla tilhneigingu til þess að taka rök forsrh. til greina um þetta og reyna að fá á þetta skemmtilegra snið og það, sem hann kallar eðlilegra snið. Þá kemur þessi spurning: Hvernig á að koma því fyrir, að slíkar umr. verði teknar í sjónvarp og útvarp með eðlilegum hætti og það sé þá með fullu jafnræði? Ég hef aldrei séð neinar till. um það, sem mér finnast vera sérstaklega traustvekjandi, að út úr því kæmi jafnrétti, sem þarf að hafa góða gát á í þessu sambandi.

Ég hef lesið nokkuð um það, sem n. upplýsir um það, hvernig þetta er haft annars staðar, og mér finnst það ekki reglulega traustvekjandi. Væri t. d. hægt að eiga það algerlega undir öðrum, án þess að nokkrar reglur væru á Alþ. sjálfu um það, hvernig umr. væru teknar upp á Alþ. í útvarp og sjónvarp? Ég er ekki reiðubúinn til þess að fallast á það, en álít, að þetta sé skref í rétta átt, sem hér kemur fram í frv. um útvarpsumr.

Loks vildi ég mjög óska eftir því, að nm. gerðu sér grein fyrir því, hvernig þeir vilja láta sjónvarp koma inn í þingstarfið, að þeir vildu ganga nánar í það en kemur fram enn sem komið er í sambandi við málið. Ég álít, að það þurfi að leggja talsvert mikla vinnu í það mál og að fulltrúar frá forsetum og flokkum beri ráð sín saman um það, hvernig þeir telja eðlilegt, að sjónvarpið komi inn á Alþingi. Það er nokkuð vikið að þessu í sambandi við málið, en ekki nægilega.