04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

25. mál, þingsköp Alþingis

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér sýnist það nú tilhlýðilegt, að fleiri þm., auk frsm., en flokkaformenn einir taki þátt í þessum umræðum, því að mála sannast er það, að þingsköpin og gerð þeirra varða ekki eingöngu þingflokkana, heldur hvern einasta þingmann í þessum sölum. Það varðar hvern þm. miklu, hvaða möguleika þingsköpin ákveða varðandi þingstörf.

Ég ætla ekki að taka þátt í þeim deilum, sem virðast vera hér uppi um einstök atriði í því frv., sem fyrir liggur, sem vera má að séu ekki heldur stórvægilegar. Aðeins vil ég segja það út af ræðu hæstv. forsrh., að ég fæ ekki séð, að það, sem hann sagði áðan um fyrirkomulag kosningaumræðna í öðrum löndum, t. d. í Svíþjóð, varði í raun og veru þetta mál, sem hér liggur fyrir. Hér er verið að ræða um þingsköp Alþingis. En þó að ekkert sé í þingsköpum Alþingis um slíkar umræður, sem hann var að minnast á í kosningum erlendis, er það vitanlega hverju sinni á valdi útvarps og þátttakenda í kosningum að taka upp það fyrirkomulag t. d. á kosningaumræðum, sem þeim sýnist hverju sinni, og vafamál, að slíkt eigi heima í þingsköpum.

Þáltill., sem samþykkt var 29. apríl 1966, er um það, að Alþ. kjósi mþn. og að þeirri mþn. skuli falin endurskoðun gildandi l. um þingsköp Alþingis. Í þessari ályktun er ekki vikið að neinu sérstöku, sem n. sé ætlað að endurskoða, ekki bent á neitt sérstakt, sem þingið, þegar það gerði þessa ályktun, telji ástæðu til að sé sérstaklega fjallað um í þessari n., heldur fjallar ályktunin um almenna endurskoðun þingskapa, en þingsköpin eru, eins og hv. þm. er kunnugt, allmikill lagabálkur í 6 köflum og 64 gr. Nú veiti ég því athygli í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, að till. n. virðast aðallega fjalla um afmarkaða kafla eða mjög fáar greinar þingskapanna. Þær fjalla um fyrirspurnir á Alþ. og um útvarpsumræður, þ. e. a. s. um það, hvernig þingið skuli snúa ásjónu sinni að þjóðinni við sérstök tækifæri. En um önnur atriði þingskapanna er yfirleitt lítið fjallað í þessu frv. Nú langar mig til að spyrjast fyrir hjá formanni og frsm. n., sem mér virðist raunar að sé ekki hér í salnum, en hæstv. forseti gæti kannske séð um það, að hann væri hér. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann um að nota tíma þingsins, en frsm. vék sér úr salnum og kemur eftir örskamma stund aftur.) Já, það er sjálfsagt að verða við tilmælum forseta um það, en ég hafði ætlað að beina fyrirspurn til hv. frsm. mþn., og ég sé nú, að hann er kominn í salinn. Þess vegna vil ég nú, af því að hann var ekki hér áðan, þegar ég hóf mál mitt, endurtaka það, að ég rifjaði það upp, að mþn. hefði á sínum tíma, 29. apríl 1966, verið falin endurskoðun gildandi laga um þingsköp Alþingis. En ég sagðist hafa veitt því athygli, að brtt. n. fjölluðu um tiltölulega afmarkaðan hluta þingskapanna og þá aðallega um útvarpsumræður frá Alþ. og um fsp. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það hjá formanninum, hvort þessi almenna endurskoðun allra þingskapanna hafi farið fram í n. Og í því sambandi vil ég einnig spyrja um annað. Það má skilja á frv. og hefur enda komið fram hér í umræðum, að frv. sé ekki annað en það, sem allir nm. hafi orðið sammála um. Því vil ég spyrja, hvort ekki hafi komið fleiri till. fram í n. en þær, sem n. varð sammála um, og hvort slíkar till., ef þær hafa komið fram, séu ekki aðgengilegar fyrir þm. eða þá n., sem fær þetta mál til meðferðar, t. d. í nál. eða í fundargerðum n. Það gefur mér sérstakt tilefni til þess að spyrja um þetta, hvort þingsköpin í heild hafi ekki verið endurskoðuð í n., að ég hef fyrir löngu tekið eftir dálítið áberandi vansmíði á þingsköpunum, sem hefur ef til vill ekki í upphafi verið vansmíði, heldur orðið það vegna málsmeðferðar, sem tíðkazt hefur í þinginu. Ég nefni þetta sem dæmi, en það er í því fólgið, að í sameinuðu þingi starfa nefndir, sem ekki eru nefndir sameinaðs þings skv. þingsköpum, heldur deildanefndir, og þessar deildanefndir gefa út í tilteknu máli nál., sem er þskj. í Sþ. Ég á hér við samgmn. d., sem gefa út við meðferð fjárlaganna nál. í Sþ. Mér sýnist, að það hefði verið alveg sjálfsagt, um leið og þingsköpin í heild voru endurskoðuð, að þessu atriði væri gefinn gaumur og ráðin þar bót á, þannig að veruleikinn stangist ekki á við ákvæði þingskapanna, því að það er óþarfi að láta það vera svo til frambúðar, þegar þingsköpin eru endurskoðuð. Ég nefni þetta dæmi því til skýringar, hvers vegna ég ber fram þessa fsp. um það, hvort þingsköpin í heild hafi verið endurskoðuð, en að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta mál fleiri orð.