04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2541)

25. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af sjálfu frv., sem hér er til umr., þingskapafrv., þar sem rætt hefur verið öðru fremur um fsp. og útvarpsumr. Vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel alveg brýna nauðsyn á að endurskoða fsp.-tímann, og er sammála því, sem fram hefur komið yfirleitt hjá þm., að með fsp.-tímana og framkvæmd þeirra hefur mistekizt. Ég skal ekki efnislega fara meira út í það, en í öðru lagi segja það, að ég er hæstv. forsrh. einnig mjög sammála um, að það skiptir miklu máli og mestu máli fyrir þingið sjálft að gera verulegar breytingar á útvarpsumr. frá Alþ. frá því, sem verið hefur, og sé að því stefnt að gefa landsfólkinu frekari spegilmynd af sjálfu þinginu en útvarpsumr. hafa raunverulega verið. Ég tel það beinlínis hættulegt fyrir Alþ., ef við höldum áfram í sama fari og verið hefur og sumir virðast vilja að haldi áfram að stefna varðandi þessar útvarpsumr. frá Alþ.

Það var svo ekki meira um þetta. En síðasta aths. hv. 1. þm. Austf. gaf mér tilefni til þess að kveðja mér hljóðs einnig vegna þess að aths. hans kynnu að orka tvímælis eða misskiljast. Hann gagnrýndi töluvert hljóðvarpið, fremur en sjónvarpið, fyrir ýmiss konar fréttaflutning eða frásagnir í fréttum, og ég skal ekkert fara út í það frekar. En hann talaði m. a. um krókaleiðir ráðh. til þess að koma máli sínu á framfæri í hljóðvarpinu, sérstaklega í frásögnum frá stéttasamtökum og þingum og öðru slíku, sem haldin eru hér hjá sérgreinafélögum og landssamtökum o. s. frv. Þetta gæti gefið tilefni til þess að halda, að við ráðh. legðum okkur í líma við það að komast inn í hljóðvarpið með áróður að einhverjum krókaleiðum. Þess vegna vil ég taka það fram hvað mig snertir, að það hefur fallið í minn hlut að koma á nokkrar slíkar samkomur, sem ég hygg, að hv. þm. hafi átt við, eins og t. d. iðnþing og aðalfund Félags ísl. iðnrekenda og heilbrigðismálaráðstefnur og annað slíkt, en þar er fjallað um málefni, sem tilheyra eða eru í tengslum að einhverju leyti við þau rn., sem ég sýsla með. Í framkvæmdinni hefur það verið svo, að mér hefur yfirleitt aldrei verið ljóst eða ég haft neina hugmynd um, hvort það ætti að útvarpa eða ekki frá því, sem þarna hefur verið sagt, og það hefur aldrei komið fyrir, að ég hafi sent handrit af slíkum ræðum, og það m. a. vegna þess, að ég hef yfirleitt aldrei verið með handrit, heldur komið og flutt nokkur ávarpsorð án blaða. Stundum hefur það komið fyrir, að ég hef sjálfur frétt af því fyrst þegar ég hef hlustað á það í hljóðvarpi eða útvarpi, að það hefur verið fréttamaður frá þessum aðilum. Þetta segi ég eingöngu til að fyrirbyggja það, að það valdi misskilningi, að við eða ég í þessu tilfelli hafi notað aðstöðu mína til þess að koma á framfæri pólitískum áróðri í útvarpinu, sem óeðlilegur væri og hallaði á sérstaklega gagnvart stjórnarandstöðunni. Þetta vil ég aðeins að sé ljóst. Hitt er svo annað mál, að ef þetta kemur fram í hljóðvarpinu að mestu leyti sem langlokur, eins og hv. þm. sagði, þá ætti það náttúrlega ekki að vera til neinna leiðinda fyrir stjórnarandstæðinga, heldur leiðinlegast fyrir okkur sjálfa, að slíkt skuli vera borið á borð fyrir hlustendur frá okkur. En aðalatriðið er það að fyrirbyggja misskilning og það getur verið, að það hafi ekki vakað fyrir hv. þm. að bera neinar sakir á ráðh. að þessu leyti, en ég vildi reyna að taka af öll tvímæli eða misskilning um það, ef svo væri.