04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

25. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. vildi fá skýringu á því, hvað ég ætti við með krókaleið. Með krókaleið meina ég leið, sem er hlykkjótt. T. d. kalla ég það krókaleið, ef ræða er flutt fyrst — við skulum segja t. d. á einhverju stéttaþingi og kemur síðan þaðan í útvarpið. Þetta kalla ég krókaleið, af því að þetta er hlykkjótt leið, en ekki farið beint. Á hinn bóginn átti ekki að skilja þetta svo, að í þessu væri sérstök aðdróttun til ráðh., af því að ég býst við, að þetta mundi hafa orðið svona með alla ráðh., að þegar þeir uppgötvuðu, að vænar flygsur voru teknar úr ræðum þeirra hingað og þangað og settar inn í útvarpið og það jafnvel þó að þær flygsur væru pólitískar, þá hafa þeir, eins og ekki er nema alveg eðlilegt og sem hyggnir málafylgjumenn, sett meira og meira af pólitísku efni inn í ræður sínar, farið síðan með þær í þessar stofnanir. Þetta hefur færzt óðfluga í aukana, og það situr náttúrlega ekki á mér að ásaka ráðh. fyrir þetta, því að ég býst við, að ég hefði fallið fyrir freistingunni á nákvæmlega sama hátt, að setja meira og meira af þessu efni, þegar ég fann, að það komst eftir þessari leið inn í útvarpið. En þetta hefur færzt í aukana upp á síðkastið, að farið er að ræða á ýmsum slíkum fundum af ráðh. hendi um hápólitísk málefni, sem eru algerlega óviðkomandi þeirri stofnun eða samtökum, sem þeir tala í. Þannig hefur þetta þróazt. Ég er ekki að deila á ráðh. með þessu. Þeir hafa brugðizt við þessu á mannlegan hátt, svipað og ég og aðrir hefðum gert, ef við hefðum verið í þeirra sporum. Við hefðum sett meira og meira inn af þessu pólitíska efni, sem við vildum gjarnan koma á framfæri. Við viljum koma á framfæri okkar pólitísku viðhorfum og því, sem við erum að fást við.

En þetta eru að mínu viti ekki réttar starfsaðferðir hjá ríkisútvarpinu, nánar tiltekið hljóðvarpinu. Þarna er ekki nógu vel að unnið, og það var það, sem ég átti við.