04.11.1968
Neðri deild: 9. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

25. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að það kom fram hjá hæstv. forsrh., sem ég hafði ekki orðið var við áður, að hann gerði ráð fyrir því, að ef breytt yrði um og meira af annars konar útvarpsumr. frá Alþ. en þeim hefðbundnu, þá fylgdist Alþingi með því, að jafnræðisreglur yrðu settar. Þetta er út af fyrir sig þýðingarmikið að heyra, að hæstv. ráðh. finnst þetta. En þá þarf að koma með praktískar till. um það, hvernig þessu geti orðið fyrir komið, hvernig þá skuli skipta ræðutíma, og annað slíkt.

Ég ætla ekki að fara að karpa hér fram og aftur um fréttaflutninginn. Ég taldi skynsamlegt að koma á framfæri sjónarmiðum mínum varðandi það við þessar umr., og ég vil lýsa alveg sérstakri ánægju minni yfir því, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði, því að ég er honum alveg sammála. Ég hef aldrei látið mér detta í hug, að það verði snúið til baka yfir í gamla lagið og stórminnkaðar fréttir af því pólitíska sviði, heldur álít ég, að lausnin eigi að vera fólgin einmitt í því, sem hann tók fram, þ. e. a. s. að taka upp samstarf um að leita að leiðum til þess að sjónarmið stjórnarandstöðunnar geti einnig komið fram, því að vandinn, sem við er að fást í þessu, eins og ég tók fram, þegar ég minntist á þetta hér fyrst í dag, er einmitt þessi, að fréttamönnum finnst, og það er eðlilegt, það meira fréttakyns, sem ráðh. hafa að segja, þegar þeir eru að greina frá framkvæmdum. Svo kemur hitt einnig, að inn í fréttaflutninginn, eins og hann hefur verið hér undanfarið, hefur komið geysilega mikið af því, sem ég mundi kalla áróður, og svo frásagnir um afstöðu, en þar vantar jafnræðið. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vesturl. um þetta, því að það er áreiðanlega rétta leiðin og það ætti að setjast niður við að reyna að finna fyrir þessu heppilegt form.