05.11.1968
Neðri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

28. mál, vinnuvernd

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. með frv. því, er hér um ræðir, frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar, þá eru breytingar allmargar og sumar gagngerðar. Skal hér reynt að gera grein fyrir þeim helztu í stuttu máli.

Í fyrsta lagi er lagt til, að hætt sé að skipta tekjum atvinnuleysistryggingasjóðs eftir sérstökum reglum niður á milli stéttafélaga í A. S. Í., heldur verði hér um einn sameiginlegan sjóð að ræða. Er hvort tveggja, að þetta sparar skattstofum og fleiri aðilum mikla vinnu, en hitt skiptir þó meginmáli, að sjóðurinn verður betri trygging gegn atvinnuleysi, hvar sem er á landinu, heldur en skorinn niður á fjölmörg félög með lagaheimild til að hætta greiðslum atvinnuleysisbóta til meðlima félaga, sem lenda í þrot með sinn sérsjóð. Er augljóst, að þetta kemur harðast við smáfélög, ef beitt er, og þá vísast helzt þar sem þörfin er sárust.

Í öðru lagi er lagt til, að fækkað sé í sjóðsstjórn og vali í hana breytt. Það þykir kannske ekki góð latína að leggja til á Alþingi að rýra vald þess í þessu tilliti. En hér er litið svo á, að annaðhvort ætti Alþingi eitt að velja sjóðsstjórnina eða þeir einir, sem mestra hagsmuna hafa að gæta um sjóðinn, svo sem hér er lagt til, en ekki blanda saman tveim valreglum, eins og nú er. Alls óeðlilegt virðist mér, að sveitarfélögin, sem hafa lagt fram 1/4 hluta árlegra tekna atvinnuleysissjóðs, eigi engan fulltrúa í stjórn hans, svo sem nú er, og ég tel óheppilegra að fjölga í stjórninni. Fjölmennar sjóðsnefndir eða stjórnarnefndir eru þungar í vöfum.

Í þriðja lagi er hér lagt til, að allir atvinnurekendur nema bændur verði gjaldskyldir til atvinnuleysistryggingasjóðs, en ekki eins og nú einvörðungu þeir, sem búa í kaupstað eða kauptúnum með 300 íbúa og þar yfir. Í samhengi við þetta er svo auðvitað lagt til, að bótaréttur færist út til launþega, hvar sem er á landinu, en sé ekki bundinn við kaupstaðabúa og kauptúnabúa í 300 manna þorpi og yfir. Sama verði og um gjaldskyldu sveitarfélaga, að þau verði öll gjaldskyld móti atvinnurekendagjöldum, jafnt í strjálbýli og þéttbýli.

Í fjórða lagi er lagt til, að gjöld atvinnurekenda og sveitarfélaga lækki nokkuð til sjóðsins frá því, sem nú er. Er þá allt haft í huga: Í fyrsta lagi, að samkv. frv. verða fleiri atvinnurekendur og sveitarfélög gjaldskyld til atvinnuleysistryggingasjóðs en nú er. Í öðru lagi, að álögur á atvinnuvegi og sveitarfélög eru slíkar, að undan er stunið. Og í þriðja lagi, að sjóðurinn vex hröðum skrefum, enda hefur hann um 12 ára starfsskeið sitt aldrei þurft að eyða nema broti af ársvöxtum sínum til árlegra bótagreiðslna. T. d. s. l. ár var það um 1/4 af vaxtatekjum ársins.

Í fimmta lagi er lagt til, að atvinnuleysisbætur hækki verulega frá því, sem nú er, og miðist við ákveðinn hluta dagkaups Dagsbrúnarverkamanns samkv. tilgreindum útreikningi. Nú eru dagbætur atvinnuleysistrygginga um 146 kr. til einhleypra, en 165 kr. til giftra. Sjá allir, að þetta er óburðug hjálp jafnöflugs sjóðs og atvinnuleysistryggingasjóður er, til þeirra, er á henni þurfa raunverulega að halda. Hér er lagt til, að dagbætur verði um 285 kr. fyrir einhleypa, en um 315 kr. fyrir gifta, sem að vísu er umtalsverð hækkun, en þó engum létt að lifa einvörðungu á. Á móti hækkuðum daggreiðslum kemur hins vegar, að frv. leggur til, að tekjuákvæði verði strangari en nú eru til að hljóta bætur, þ. e. að tekjur maka komi inn í dæmið, en nú er svo ekki.

Í sjötta lagi er hér lagt til, að bætur almannatrygginga hafi ekki áhrif á rétt atvinnulausra til atvinnuleysisbóta, ef vinnuskortur og tekjumark hamla ekki. Virðist harðleikið að neita ellilífeyrisþega, sem enn stundar vinnu, en missir hana sökum vinnuskorts, um atvinnuleysisbætur, þegar hér er um tvö óskyld bótakerfi að ræða.

Í sjöunda lagi er hér lagt til, að umboðsmenn almannatrygginga, hvar sem er á landinu, annist ásamt fulltrúum launþega og atvinnurekenda úthlutun bóta. Gerði þetta úthlutunina fastari í sniðum og samræmdari, en reynslan hefur sýnt, að víða er erfitt að hafa úthlutun bóta í lagi vegna skorts á hæfum mönnum til að annast verkið, sem krefst nákvæmni og verulegs tíma.

Loks er svo kveðið skýrara á um greiðslu barnadagpeninga en í núgildandi lögum, þ. e. að þeir séu greiddir til þeirra, sem eru fyrirvinna barnanna, hafa þau sannanlega á fullu framfæri sínu.

Þetta eru þær aðalbreytingar, sem hér eru lagðar til, og fer ég ekki fleiri orðum um þær að sinni, en legg til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.