02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

37. mál, siglingalög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér frv. ásamt hv. 4. landsk. þm., Jónasi Árnasyni, um breytingar á siglingalögum. Frv. þetta fjallar um aukinn bótarétt sjómanna í slysatilfellum. Það hefur komið í ljós, að réttur sá, sem íslenzkir sjómenn eiga til bóta vegna slysa, sem þeir verða fyrir á skipum, er allmiklu minni réttur en ýmsar hliðstæðar vinnustéttir eiga á hendur sínum vinnuveitendum í landi. Ef t. d. er gerður samanburður á rétti sjómanna á fiskiskipum í þessum efnum og rétti verkamanna eða annarra manna, sem vinna við verksmiðjurekstur eða á stórvirkum vinnuvélum í landi, kemur í ljós, að bótaréttur sjómanna er talsvert miklu minni í reynd, eins og lagavenjur eru orðnar í þessum efnum, en þeirra, sem vinna í verksmiðjum eða við vinnuvélar í landi. Sú regla hefur verið gildandi í þessum tilfellum, að því aðeins eigi sjómaður rétt á fullum bótum í slíkum slysatilfellum af hálfu útgerðarmanns, að útgerðarmaður eða einhver, sem starfar beint á hans vegum, skipstjóri eða stýrimaður, sé sannur að sök fyrir gáleysi eða ófullnægjandi útbúnað, og í slíkum slysatilfellum nýtur sjómaðurinn fulls bótaréttar. En í þeim tilvikum, þar sem um er að ræða tilviljunarkennt slys, þar sem ekki er auðvelt að halda því fram, að einn eða neinn beri sérstaka ábyrgð á því, að slysið varð, eins og t. d. mundi vera í slíku tilfelli, ef sjór ríður á skip og ekki þykir rétt að sakfella skipstjóra eða stjórnanda skipsins fyrir handvömm, en í slíku tilfelli hefur orðið slys á skipverja, er orðin dómvenja sú, að sjómaðurinn á í slíku tilfelli ekki kröfur á bótum á hendur útgerðarmanni. En þegar slys eiga sér stað, t. d. í verksmiðjum í landi, er sá, sem rekur verksmiðjufyrirtækið, í öllum tilfellum bótaskyldur, þegar um slík slys er að ræða, ef ekki verður sönnuð bein sök á þann, sem fyrir slysinu verður.

Við, sem flytjum þetta frv., teljum, að það sé þörf á því að breyta þessum lagaákvæðum, sem hér er farið eftir í þessum efnum, og gera rétt sjómanna a. m. k. jafnmikinn í þessum tilvikum eins og þeirra, sem vinna við hættuleg störf í landi. En á því leikur auðvitað enginn vafi, að í þessum tilfellum vinna sjómenn við sérstaklega hættumikil störf. Við álítum, að það sé rétt að taka það alveg skýrt fram, að bótaskylda útgerðarmanns í þessu tilfelli sé hin sama eða alveg hliðstæð og bótaskylda annarra vinnuveitenda. En til þess að svo megi verða í framkvæmd, þarf að breyta siglingalögunum á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. okkar.

Ég vil vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, kynni sér þetta mál vel og ýtarlega, og þá hygg ég, að hún komist að þeirri niðurstöðu, sem við höfum komizt að og íslenzkir sjómenn hafa gert samþykktir um og óskað eftir breytingum á, og geti þá fallizt á, að það sé réttmætt að breyta siglingalögunum á þá lund, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Síðari mgr. 1. gr. frv. gerir þó ráð fyrir því, að það geti verið um slík atvik að ræða, að tjónþoli sjálfur verði sakfelldur fyrir vítavert gáleysi eða vanrækslu í sambandi við tjónið og þá sé ekki skylt að bæta slík tjón. Þetta ákvæði tókum við upp í frv. vegna þess, að hliðstæð ákvæði er að finna í þeim l., sem gilda um menn, sem vinna í verksmiðjum í landi. En ég vil þó geta þess og vænti þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, athugi það við rannsókn á málinu, að ég tel fyrir mitt leyti mjög vafasamt að hafa þetta ákvæði í lögum, bæði í þessu tilfelli gagnvart sjómönnum og eins gagnvart öðrum starfsmönnum. Það er auðvitað alltaf mjög teygjanlegt, hvenær hefur verið um að ræða gáleysi og ekki gáleysi af hálfu þess, sem verður fyrir tjóni, og það hefur sýnt sig, að túlkun á þessu atriði hefur verið á þá leið, að í mjög mörgum tilfellum fær tjón þoli ekki fullar bætur, vegna þess að talið er, að hann eigi nokkra sök á tjóninu. En það vil ég þó ætla, að það tilheyri algerum undantekningum, að búast megi við því, að sá, sem verður fyrir slysi eða tjónum, eigi raunverulega sök á tjóninu.

Hitt skiptir þó hér mestu máli, að sjómenn fái hér a. m. k. tilsvarandi rétt í slysatilfellum eins og þeir hafa, sem t. d. vinna í verksmiðjum í landi eða við önnur áhættusöm störf þar. Ég tel, að það sé með öllu óeðlilegt, að þeir búi hér við lakari rétt en aðrir. En á því leikur enginn vafi, að þannig er þessu þó varið í dag.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð hér að þessu sinni, en að lokinni þessari umr. óska ég þess, að frv. gangi til hv. sjútvn.