25.11.1968
Neðri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

56. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með löngu máli. Frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 55 frá 1964, að við 13. gr. bætist nýr liður um, að draga skuli frá launatekjum 15%, áður en skattur er á þær lagður. Þessi frádráttur mundi einnig ná til útsvarsálagningar, þar sem lagaákvæði um útsvör gera ráð fyrir því, að þau séu lögð á hreinar tekjur.

Tilgangurinn með þessu frv. er, að launþegar fái sérstakan skattfrádrátt, er jafni nokkuð metin vegna þess, hve misvel tekjur koma til skila. Það er sama reynslan alls staðar, að erfitt er að varna því, að undan sé skotið tekjum við skattlagninguna. Fyrirmyndina að þeirri breytingu, sem hér er lagt til, að gerð verði á skattal., er að finna í danskri skattalöggjöf, sem gerir ráð fyrir, að launþegar megi draga tiltekna fjárhæð, sem nú er 800 danskar kr., frá tekjum, áður en skattur er á þær lagður, og var sá frádráttur rökstuddur með því, að rétt væri að jafna aðstöðu launþega og annarra gjaldenda með þessum hætti þar. Skattundandráttur hefur löngum verið landlægur hér á landi, og skal ég ekki um það segja, hvort ástandið nú er betra eða verra í þessum efnum en oft áður. En ég hygg, að enginn neiti þeirri staðreynd, að þetta vandamál er mikið og veldur því, að opinber gjöld koma óeðlilega þungt niður á þeim, sem minni möguleika hafa en aðrir til þess að draga tekjur sínar undan sköttum. Vissulega eru í öllum stéttum og starfsgreinum til menn, sem alls ekki kemur til hugar að nota sér möguleika, sem þeir hafa til undandráttar frá sköttum, og engan veginn skal felldur dómur um siðferði manna eftir stéttum í skattamálum. En aðstæðurnar eru einfaldlega þær, að sérstaða launþega er sú, að ekki einasta hann sjálfur telur fram tckjur sínar til skatts, heldur ber vinnuveitandanum einnig að tíunda launagreiðslurnar til skattyfirvalda, og þegar á heildina er litið, koma því launatekjur vel til skila við skattlagningu.

Í skattal. er að finna ákvæði, sem eðlileg verða að teljast við frádrátt á ýmsum kostnaðarliðum í sambandi við atvinnurekstur o. fl., ef rétt væri fram talið, sem áreiðanlega eru mjög misnotuð til þess að ná fram hærri frádrætti og þar með lægri skattheimtum tekjum en ella. Það eru þannig vafalaust margar leiðir, sem notaðar eru til skattundandráttar, aðrar en sú að telja beinlínis fram lægri tekjur en til hafa fallið.

Ég er ekki í vafa um, að það er vilji mjög margra, að unnt sé að ná sem beztum árangri í eftirliti með skattframtölum, og í raun réttri sé það einnig svo með velflesta menn, að þeir telji það eins konar nauðvörn gegn ofsköttun að nota sér allar tiltækar aðferðir til þess að komast hjá greiðslu lögboðinna gjalda. Samt sem áður tekst ekki að uppræta þetta, og afleiðingin er sú, að aðrir verða að greiða þann hluta gjaldanna, sem þeim ber að greiða, sem undan drógu.

Hér sem í öðrum efnum þýðir ekki annað en horfast í augu við staðreyndirnar, og með tilliti til reynslu annarra þjóða er þess varla að vænta, að við náum fullum árangri í eftirliti með framtölum og innheimtu skatta. Þess vegna finnst mér sanngjarnt að fara inn á þá braut, sem Danir hafa farið í þessum efnum, og veita launþegum sérstakan frádrátt til að jafna hér nokkuð metin. Frádráttarupphæðin er matsatriði. Í Danmörku hefur þetta verið ákveðin föst tala, en með frv. þessu hef ég lagt til, að ákveðinn hundraðshluti verði dreginn sérstaklega frá launatekjum, áður en skattur er á þær lagður. Og með tilliti til þess, að ætla má, að undandráttur sé hér verulegur, legg ég til, að þessi frádráttur verði ákveðinn 15%.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.