25.11.1968
Neðri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

56. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v, kom hér og nefndi nokkur dæmi í sambandi við þetta frv. og bar þá mjög fyrir brjósti, að mér skildist, atvinnufyrirtækin í landinu og aðstöðugjöld þeirra og nauðsyn á að lækka skatta á atvinnufyrirtækjum. Hann kom inn á það í leiðinni, að þetta frv. mundi ekki vera til björgunar lægst launuðu mönnunum, heldur verða nokkuð til hagsbóta og aðallega, að því er hann taldi, hátekjumönnum í þessu þjóðfélagi. Hann nefndi nokkur dæmi og nokkuð, verð ég að segja, áróðurskennd. Hann sleppti t. d. alveg að nefna tölur í sambandi við útsvörin, en ég get bent hv. þm. á það, að þetta kemur nokkuð til tekna líka hinum lægst launuðu einmitt í sambandi við útsvörin, þó að þeir séu tekjuskattslausir, eins og hann benti hér á.

Starfsmaður með tekjur í 5. flokki ríkisstarfsmanna, t. d. eins og byrjunarlaunin eru þar, tæplega 105 þús. kr., mundi losna algerlega við skatt, en hefur á annað þús. kr. í skatt eftir núgildandi reglum. Það er að vísu ekki mikið hjá manninum, sem hefur byrjunarlaunin, eða tæp 105 þús. kr., hann mundi losna við að borga 1310 kr. í skatt, hjón með 2 börn. Verkamaðurinn hjá ríkinu, sem kominn er í hámarkslaun eftir 12 ár, hefur 129312 kr. og borgar nú 4160 kr. í útsvar, og þó að þetta sé ekki há tala, þá finnst mér full ástæða til þess að taka það til athugunar að afnema þennan skatt á honum. Starfsmaður t. d. í 15. launaflokki hefur í byrjunarlaun 148752 kr. og útsvarið á honum núna er 7280 kr. Sá, sem kominn er í hámarkslaun í þessum flokki, hefur tæpar 180 þús. kr., og útsvarið á honum er nú 12220 kr., ef miðað er við hjón með 2 börn. Ég get ekki verið sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um það, að það sé engin ástæða að gera neitt fyrir þetta fólk. Starfsmaður í 20. flokki hefur 184500 kr. í byrjunarlaun og útsvar hans er 12680 kr. Hámarkslaun þessa manns væru 223 þús. kr. og tekjuskattur 3372 kr., og útsvar 20640 kr. Ég held, að varla geti hér verið um hálaunamenn að ræða að dómi flestra manna, en e. t. v. álítur hv. 1. þm. Norðurl. v., að sá maður, sem hefur núna í byrjunarlaun 184 þús. og 223 þús. kr. í hámarkslaun, sé í hópi hátekjumanna. Hann var það fyrir stríð, maður, sem var með þessar tekjur að tölu. Hann hefur verið hátekjumaður fyrir stríð, en síðan eru liðnir nokkrir áratugir, og ég vildi benda hv. þm. á, að þróunin hefur orðið nokkuð ör í sambandi við verðbólguna, og ég vildi benda honum á, að það er nauðsynlegt að taka tillit til hinna háu talna, sem eru á ferðinni í þjóðfélaginu í dag. Það er ekki nóg að einblína á tölurnar.

Til styrktar þessu vil ég benda á framfærsluvísitöluna og tekjur vísitölufjölskyldunnar, hvernig þetta kemur út með samanburði við vísitölufjölskylduna, en það er fjögurra manna fjölskylda, sem þar er reiknað með. Í dag með vísitölunni, sem verður 1. des., og miðað við þann vísitölugrundvöll, sem tekinn var í gildi 1. jan. s. l., má reikna með, að vísitölufjölskyldan þurfi 290 þús. kr. til þess að framfæra sig. Þessar tölur, sem þarna er miðað við, eru ekki neinar tilbúnar tölur, heldur er hér byggt á búreikningum, sem hagstofan fékk yfir 100 manns til að halda á árunum 1964 og 1965, og það er þess vegna reynslan af útgjöldum fjölskyldunnar, sem þarna talar, en ekki tilbúningur. Og þarna er ekki reiknað með húsaleigu, sem er reiknuð í vísitölunni eins og hún er 40 þús., en allir vita, að er a. m. k. helmingi hærri. Mér finnst það ákaflega einkennilegt, að þm. skuli koma hér og halda ræðu, sem gæti bent til þess, að verið væri hér að tala máli hátekjumanna, þegar launakjör t. d. opinberra starfsmanna eru þannig, sem ég hef bent á, miðað við vísitöluna. Það er sjálfsagt góðra gjalda vert hjá þessum hv. þm. að vilja styðja atvinnurekendur í sínu heimahéraði og annars staðar, en ég held, að hann ætti að endurskoða sínar tölur í sambandi við launamenn og reyna að rumska við og lifa í nútímanum heldur en koma eins og maður, sem ekki hefur lifað í nokkra áratugi.