19.11.1968
Neðri deild: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (2578)

61. mál, smíði fiskiskipa innanlands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að deila við hv. 1. flm. um þetta mál, og það má segja, að það sé raunverulega lítil deila, sem á milli okkar hefur staðið, önnur en sú, sem skilur á milli feigs og ófeigs, að hann vill ríkisforsjána og ríkisvaldið og ég hef trú á einstaklingunum og áræði þeirra og framtaki í þessum málum og ég hef trú á því, að íslenzkar skipasmíðastöðvar muni eflast hér á landi með þeim hætti, sem þær hafa orðið til, og þær hafa orðið til ekki sízt vegna dugnaðar og framtaks og áræðis og bjartsýni sérstakra afbragðs atorkumanna, sem hafa komið þeim upp og staðið í því að búa þær þeim tækjum, sem þær þegar eru búnar. Ég skal svo ekki segja fleiri orð um það. En ég minni bara á það, að þegar hv. þm. hafði valdið, þá urðu ekki nein þessi stórmerki til. Það var engin stór veiðarfæragerð til. Og þegar hann talar um 12 fiskiskip, sem keypt voru í Austur-Þýzkalandi, hafði hann lofað 12 togurum af stórri gerð. En þetta allt saman minnkaði í höndum ríkisvaldsins og varð að litlum bátum þá í staðinn fyrir stóra togara, sem hátíðlega var lofað, þegar stjórn hans var mynduð.

Ég álít, að það eigi ekki að gera lítið úr þeirri tilraun, sem nú stendur yfir um að gera till. um stöðlun skipa. En það er bezt að segja sem minnst um það. Ég mun leggja áherzlu á, að sú n. skili störfum og að réttum aðilum og þá þm. sem öðrum verði gerð grein fyrir því, menn fái aðstöðu til þess að kynna sér, hvað þar hefur verið unnið að, og ég sagði áðan, að mér fyndist, að starf þessarar n. hefði dregizt of lengi. En ég hef nú fengið þá skýringu frá henni, að það væri m. a. vegna þess, að hún hefur talið, að starfið væri vandasamt, og vildi leysa það vel af hendi, og það út af fyrir sig er virðingarvert, og ég vona, að það taki nú bráðlega enda.

Það var svo aðeins eitt atriði, sem hv. þm. sagði, að það hefði verið alveg útilokað að fá að smíða skip án þess að hafa fastan kaupanda og hann hafi fengið upplýsingar um það hjá fiskveiðasjóði. En ég hafði tjáð mig um annað í minni fyrri ræðu, og það vil ég endurtaka nú skýrar en þá, að skipasmíðastöð hér hefur verið gefinn kostur á því, að henni gæti staðið til boða fjármagn til þess að hefja smíði á tveimur skipum án þess að hafa fastan kaupanda, og það mál var rætt sérstaklega í ríkisstj., og ég hafði forgöngu um það við Seðlabankann að ræða um fjáröflun til þessa atriðis. Hitt er svo alveg rétt, að það var ekki rætt við fiskveiðasjóð, og fiskveiðasjóður hefur kannske af mjög skiljanlegum ástæðum vegna sinnar aðstöðu verið öndverður slíku fram að þessu. En mér er það ljóst, að bæði ríkisstj. og þá ég sem iðnmrh. og Seðlabankinn, sem gekkst í málið fyrir minn tilverknað, tókum nokkra áhættu á okkur með þessu, en engu að síður lá hún fyrir og var tekin, svo að það hefur ekki staðið að þessu leyti á öðru en því, að sjálf skipasmíðastöðin kæmi þessu í framkvæmd.