26.11.1968
Neðri deild: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

73. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Nú eru 30 ár liðin síðan lögin um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett, þar sem verkfallsréttur verkalýðsfélaganna var viðurkenndur og settar ákveðnar reglur í sambandi við vinnudeilur og verkföll. Síðan Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var stofnað á árinu 1942, hefur það barizt fyrir því, að opinberum starfsmönnum verði veittur samningsréttur og fullur verkfallsréttur til jafns við aðrar launastéttir í landinu. Það má segja, að þegar eftir stofnun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafi það verið viðurkennt sem viðræðuaðili fyrir hönd opinberra starfsmanna um kjaramál. Ný launalög voru sett á árinu 1945. Þágildandi launalög voru frá árinu 1919. Við undirbúning launalaganna 1945 starfaði 7 manna n., og voru tveir nm. tilnefndir af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Í launalögin 1945 var sett svofellt ákvæði:

„Við samningu reglugerða samkv. lögum þessum, svo og endurskoðun þeirra, skal jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau, sem upp kunna að koma.“

Sams konar ákvæði er í lögum frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og í framkvæmd var þetta svo frá árinu 1943 til 1962, þegar núgildandi lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna komu til, að viðræður fóru fram milli BSRB og fulltrúa ríkisins um kjaramálin, og á sama hátt ræddu félög bæjarstarfsmanna víðs vegar um landið við sveitarstjórnirnar um kjör bæjarstarfsmanna. En langt var frá því, að þetta væri neitt sambærilegur réttur og verkalýðsfélögin höfðu fyrir sína meðlimi, enda var það svo, að þótt verkalýðsfélögin næðu samningum um bætt kjör, leið oft langur tími, áður en kjörum opinberra starfsmanna var breytt, enda drógust þeir sífellt aftur úr í starfskjörum á hinum frjálsa vinnumarkaði.

Næsta skrefið, sem ríkisvaldið steig í þessum málum, var, að sett var á laggirnar nefnd á árinu 1958, skipuð fulltrúum ríkisins og BSRB, en nefnd þessi skyldi fylgjast með launabreytingum hjá starfsmönnum á frjálsa vinnumarkaðinum og gera tillögur um breytingar á kjörum opinberra starfsmanna, þegar henni sýndist ástæða til. En þrátt fyrir miklar úrbætur, frá því að opinberir starfsmenn höfðu engin heildarsamtök til að berjast fyrir sínum kjörum, varð reyndin sú, að kjör þeirra voru í ósamræmi við launakjör á frjálsum vinnumarkaði, þar sem fullur samningsréttur gilti. Á árinu 1962 var ástandið orðið svo slæmt í þessum efnum, að segja mátti, að það væri orðið óviðunandi fyrir báða aðila, bæði fyrir starfsmennina og ríki og sveitarfélög. Á þessum tíma var misræmið orðið svo mikið á kjörum opinberra starfsmanna annars vegar og annarra stétta hins vegar, að flótti var hafinn úr opinberum störfum. Nefnd hafði verið skipuð á árinu 1959 til þess að athuga um samningsrétt opinberra starfsmanna. Þessi nefnd skilaði áliti í nóv. 1961, en varð ekki sammála. Fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í nefndinni lögðu til, að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt með svipuðum hætti og ákveðið var í Noregi með lögum frá 1958. En fulltrúar ríkisins í nefndinni vildu ekki samþykkja verkfallsrétt í neinni mynd. Snemma árs 1962 höfðu kennarar við barnaskóla og gagnfræðaskóla samtök um að segja upp stöðum sínum til þess að herða á kröfum um bætt kjör. Munu hafa legið fyrir skriflegar uppsagnir frá um 90% allra kennaranna. Varð þetta til þess að herða á því, að eitthvað væri raunhæft gert til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem skapazt hafði vegna úreltra kjara opinberra starfsmanna, sem voru í engu samræmi við kjör annarra stétta í þjóðfélaginu. Upp úr þessu komu lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem við nú búum við.

Kjarasamningalögin frá 1962 veita opinberum starfsmönnum, bæði ríkisstarfsmönnum og starfsmönnum hjá bæjarfélögunum, samningsrétt án verkfallsréttar, og enn er þessum starfsmönnum bannað að gera verkfall að viðlagðri refsingu. Samkvæmt l. frá 1962 er samningstímabilið tvö ár. En ef almennar og verulegar breytingar verða á launakjörum annarra stétta á samningstímabilinu, getur hvor aðili um sig, samtökin eða ríkið og bæjarfélögin, óskað endurskoðunar á samningi. Ákveðin er sáttameðferð í kjaradeilum á sama hátt og hjá öðrum stéttarfélögum, og ákvæði um félagsdóm gilda einnig um úrskurð í ágreiningsmálum um skilning á samningi og brot á lögunum og samningnum. Allt er þetta gott og blessað. En ef samningar takast ekki, skal gerðardómur skera úr ágreiningi. Og það er einmitt þetta ákvæði ásamt verkfallsbanninu, sem hefur verið opinberum starfsmönnum þungt í skauti, og ég leyfi mér að fullyrða, að það sé ekki heldur heppilegt fyrir þjóðfélagið að skipa kjörum opinberra starfsmanna með þessum hætti.

Áður en frv. um kjarasamninga opinberra starfsmanna var lagt fyrir Alþ. 1962, var leitað álits stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það var álit stjórnar BSRB þá, að slík lagasetning væri skref fram á við og vel þess vert að reyna þetta fyrirkomulag. Samþykkti bandalagsstjórnin svofellda ályktun um málið, þegar verið var að leggja síðustu hönd á frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með leyfi hæstv. forseta:

„Enda þótt ríkisstj. hafi ekki fallizt á, að opinberir starfsmenn fái fullan samningsrétt til jafns við aðra launþega, eins og bandalagsstjórnin hefur barizt fyrir í samræmi við stefnu bandalagsþinga, telur stjórnin, að bandalagið hafi með frv. náð svo mikilsverðum áfanga, að fulltrúum þess beri að samþykkja það, þó að hún viðurkenni ekki réttmæti þess, að kjör launþega séu ákveðin með lög­ skipuðum gerðardómi. Jafnframt telur stjórn BSRB sjálfsagt, að unnið verði áfram að því lokamarki, að opinberir starfsmenn njóti sama samningsréttar og aðrir launþegar búa við.“

Fyrstu heildarsamningar samkvæmt hinum nýju lögum áttu að taka gildi 1. júlí 1963. Samningar tókust í fyrsta skipti að nokkru, þ. e. a. s. um skipan starfsmanna í launaflokka, en kjaradómur úrskurðaði um launaupphæðir og vinnutímaákvæði, yfirvinnukaup o. fl.

Þegar á heildina er litið, þótti fyrsta framkvæmd kjarasamningalaganna takast allvel og lofa góðu um það fyrirkomulag, sem hér var tekið upp. En framkvæmdin eftir það hefur orðið til mikilla vonbrigða fyrir opinbera starfsmenn og samtök þeirra, þannig að meiri samstaða ríkir nú en nokkru sinni meðal opinberra starfsmanna um að berjast fyrir fullum samningsrétti til handa samtökum þeirra, þ. e. sama samningsrétti og önnur stéttarfélög hafa samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938.

Eins og ég sagði áðan, hefur það verið stefna samtaka opinberra starfsmanna frá stofnun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að vinna að því, að opinberir starfsmenn fengju verkfallsrétt. Um þetta hafa verið samþykktar ályktanir á mörgum þingum samtakanna, og nú hefur áhuginn á þessu máli margfaldazt. Á þingi BSRB, sem haldið var í byrjun síðasta mánaðar, var samþykkt svofelld ályktun um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið felur stjórn bandalagsins að hefja undirbúning að samningu lagafrv., sem feli í sér fullan samningsrétt opinberra starfsmanna og þar með talinn verkfallsrétt. Þó skal þess gætt, að sá verkfallsréttur stofni ekki öryggisþjónustu hins opinbera í hættu.“

Í þessari ályktun kemur glöggt fram sú margyfirlýsta stefna samtaka opinberra starfsmanna, að þess verði gætt með sérstökum ákvæðum, að verkfallsréttur, sem þeim verði veittur, stofni ekki öryggisþjónustu þjóðfélagsins í hættu. Um þetta er einnig rætt í grg. fyrir því frv., sem við flytjum hér og nú er til umræðu.

Ég tel, að það hafi sýnt sig við framkvæmd kjarasamningalaganna, að höfuðókosturinn við ríkjandi fyrirkomulag er tilhneiging ríkisvaldsins og forsvarsmanna sveitarfélaga til þess að vilja fremur skjóta ágreiningsmálum til dómstóla en semja um þau. Ég hygg, að þetta eigi ekki bara við um ágreining í kjaramálum, heldur ágreining um fjárkröfur á hendur ríki og sveitarfélögum yfirleitt. Af þessum ástæðum tel ég, að varla verði reiknað með því, að kjarasamningalögin verði nokkurn tíma annað í framkvæmd en réttur til viðræðna við stjórnarvöld um kjaramálin og réttur til málflutnings fyrir gerðardómi. Eftir slíku fyrirkomulagi hafa samtök opinberra starfsmanna aldrei óskað, og þau voru frá byrjun uggandi vegna gerðardómsákvæðis laganna, eins og fram kemur í ályktun stjórnar BSRB frá 1962, sem ég las hér áðan.

Ég skal ekki fara langt út í að rekja hér ágalla, sem verið hafa á framkvæmd l., sem samtök opinberra starfsmanna telja mjög marga og alvarlega, bæði af hálfu stjórnarvalda og kjaradóms. En ég vil nefna hér stærsta og alvarlegasta atriðið í því efni.

Seint á árinu 1963 var samið um 15% launahækkun til annarra stétta en opinberra starfsmanna, og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gerði kröfu um sömu hækkun launa opinberra starfsmanna með skírskotun til þeirra ákvæða í kjarasamningalögunum, að hliðsjón skuli hafa af kjörum launþega, er vinna sambærileg störf hjá öðrum en hinu opinbera. Ríkisstj. synjaði um þessa réttmætu kröfu, og meiri hl. kjaradóms, 3 af 5 dómendum, neitaði einnig að verða við hækkunarkröfunni. En í forsendum fyrir þeirri synjun færir meiri hl. kjaradóms ekki þau rök fyrir synjun sinni, að opinberir starfsmenn hafi ekki átt rétt til hækkunar launa til samræmis við aðrar stéttir, heldur var þetta rökstutt með því, að synjunin væri liður í tilraun til að stöðva verðbólguþróunina. Auðvitað hélt verðbólgan sitt strik þrátt fyrir það, að rétti opinberra starfsmanna væri þarna fórnað á altari hennar. En þetta varð til þess, að starfsmenn ríkis og bæja drógust stórkostlega aftur úr öðrum stéttum á ný í launakjörum og eru nú margir hverjir mjög illa settir fjárhagslega að taka við þeim efnahagsörðugleikum, sem yfir dynja þessa dagana.

Mikið af íslenzkri löggjöf hefur mótazt af löggjöf annarra Norðurlanda og mér sýnist eðlilegt, að litið sé til þeirrar þróunar, sem átt hefur sér stað hjá þessum frændþjóðum okkar um samningsrétt opinberra starfsmanna. Í Finnlandi og Danmörku eru engin lagaákvæði, sem banna opinberum starfsmönnum að gera verkföll. Í Danmörku hefur ekki á þetta reynt. Afstaða ríkisvaldsins hefur verið þar tiltölulega góð í kjaramálum starfsmanna hins opinbera og ekki leitt til svo stórfelldra átaka sem verkfall er. En í Finnlandi hefur hins vegar komið til verkfalla opinberra starfsmanna, og er þar skemmst að minnast verkfalls hjúkrunarkvenna fyrir skömmu. Í Noregi var sett löggjöf árið 1958, þar sem opinberum starfsmönnum var veittur verkfallsréttur. Þar hefur aldrei til þess komið, að samtök opinberra starfsmanna notuðu þennan rétt, þó að liðin séu 10 ár frá lagasetningunni. Í Svíþjóð gengu í gildi lög 1. jan. 1966, sem ákváðu, að opinberir starfsmenn skyldu hafa verkfallsrétt. Þar í landi gerðu háskólamenntaðir menn allvíðtækt verkfall á s. l. ári, og heimurinn stendur enn og meira að segja situr Erlander enn í forsætisráðherrastóli þar, þótt stjórn hans veitti opinberum starfsmönnum verkfallsrétt og þótt forsætisráðherrafrúin, sem er kennari, tæki þátt í fyrsta verkfallinu, sem háð var samkv. þessum lögum.

Menn verða að átta sig á þeirri stórfelldu breytingu, sem átt hefur sér stað hér á landi síðan lögin um bann við verkföllum opinberra starfsmanna voru sett á árinu 1915. Á þeim tíma voru örfáir starfsmenn í þjónustu ríkis og bæja. Nú starfa hjá ríki og bæjarfélögum milli 8 og 3 þús. starfsmenn, sem taka laun, sem ákveðin eru samkv. kjarasamningalögunum frá 1962, og af þessum starfsmannahópi eru rétt innan við 7 þús. meðlimir í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Um flesta þessa starfsmenn gildir það, að engin ástæða er til, að þeir búi við annan rétt en aðrir launamenn, að því er tekur til verkfallsréttar. Um hina, sem gegna öryggisþjónustu, telja samtök opinberra starfsmanna rétt að setja sérákvæði, er tryggi, að öryggisþjónustan sé ekki sett í hættu.

Mér er það ljóst, að afnám laganna frá 1915 fellir ekki úr gildi það lagaákvæði, að opinberir starfsmenn búa við gerðardóm um kjaramál sín, og það þarf samþykkt annars frv. til að ráða þar bót á, og væntanlega verður slíkt frv. samið á vegum heildarsamtaka opinherra starfsmanna og komið á framfæri við hv. Alþingi. En opinberir starfsmenn mundu meta það mikils, ef hv. alþm. samþykktu að afnema lögin frá 1915 um verkfall opinberra starfsmanna, sem löngum hafa verið mikill þyrnir í þeirra augum.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr- og félmn.