26.11.1968
Neðri deild: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

73. mál, verkfall opinberra starfsmanna

Haraldur Henrýsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að lýsa stuðningi mínum við frv. það, sem hér er til umr., og jafnframt vil ég taka undir þær röksemdir, sem fram komu í ræðu hv. 1. flm. þess. Ég tel, að með framkomu þessa frv. fái hið háa Alþ. tækifæri til að þvo blett af lýðræðisframkvæmd hér á landi, og vona ég, að hv. þm. sameinist í því verki.

Við Íslendingar tölum oft um það, að við séum lýðræðisþjóð, og oftast heyrist sú fullyrðing í ræðum hæstv. ráðh. og annarra fyrirmanna á tyllidögum. Víst er það rétt, að stjórnarskrá okkar mótast af lýðræðishugsjónum, og það er vissulega dýrmætt, en samt sem áður er það nú svo, að við eigum margt ógert, áður en við getum hnarreistir lýst því yfir, að hér ríki lýðræði. Það er ekki ætlun mín að rekja hér þá annmarka, sem ég tel þar á, enda er það fyrir utan ramma þess máls, sem hér er til umr. En það er óneitanlega einn bletturinn á okkar lýðræðisframkvæmd, að opinberir starfsmenn skuli ekki hafa þann rétt, sem nú er talinn einn grundvallarréttur í lýðræðisríki, fullan samningsrétt. Ef við ætlum okkur að þróa lýðræði okkar í átt til fullkomnunar, hljótum við að kappkosta að sníða af því svo augljósa agnúa sem þennan. Það er sannarlega mótsögn í því, að menn, sem mjög halda á lofti ágæti lýðræðis í ræðum sínum, skuli hér á hinu háa Alþ. og annars staðar berjast gegn jafnsjálfsögðum mannréttindum og hér um ræðir.

Ég veit, að helzta röksemdin gegn því, að opinberir starfsmenn fái óheftan samningsrétt og verkfallsrétt, er sú, að hagsmunir almennings og ríkisins séu svo ríkir, að þeir réttlæti skorður hér á. Ég tel, að opinberir starfsmenn geri sér fyllilega grein fyrir mikilvægi starfa sinna og hafi það ríka ábyrgðartilfinningu, að þeim sé ljóst, hvað í húfi er. Ég hygg, að treysta mætti því, að þeir notfærðu sér ekki sinn ýtrasta rétt, fyrr en allt annað þryti. En þennan rétt eiga þeir ótvírætt að hafa eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins, því að ella eru þeir mesta ójöfnuði beittir.

Ég er þess fullviss, að við frjálsa samninga um þessi mál yrðu opinberir starfsmenn fúsir til með tilliti til sérstöðu sinnar að ganga svo frá hnútum, að dregið væri stórlega úr hættu á verkföllum. Það er vissulega unnt með samningum milli aðila að koma málum þannig fyrir, að þessi hætta verði hverfandi. Þetta á reyndar við um alla samninga milli atvinnurekenda og launþega. Viðræður þessara aðila eru nú allt of stopular og handahófskenndar og hefjast sjaldnast fyrr en á síðustu stundu, þegar allt er komið í eindaga og verkfall yfirvofandi. Vinna þarf að því, að aðdragandinn að samningum sé lengri, og helzt, að fulltrúar aðilanna komi saman reglulega allt samningstímabilið og fjalli um hugsanlegar breytingar á samningum. Ég held, að með slíkum vinnubrögðum væri mikið unnt að gera í því að draga úr ófriði á vinnumarkaðinum og auk þess stuðla að því, að fulltrúar aðila gætu ætíð fylgzt með sjónarmiðum hver annars og haft betri yfirsýn yfir vandamálin. Það er rétt, að verkföll og verkbönn eru hverju þjóðfélagi skaðleg og dýr, en okkur ber fyrst og fremst að koma í veg fyrir þessi fyrirbæri með frjálsum samningum, en ekki með boðum og bönnum.

En úr því að hér er rætt um málefni opinberra starfsmanna og réttindi þeirra, þá vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að réttindum þeirra er einnig ábótavant á ýmsum öðrum sviðum. Vil ég hér t. d. minnast á það öryggisleysi, sem þeir hafa búið við að því er varðar skipanir í embætti hins opinbera, þar sem hvað eftir annað eru fótum troðin þau sanngirnis- og réttlætissjónarmið, sem eiga að ríkja við slíkar skipanir. Hvað eftir annað er starfstími, reynsla eða hæfni manna einskis metin, ef pólitískir eða einkahagsmunir veitingarvaldshafa krefjast annars. Þarna hafa hæstv. ráðh. hvað eftir annað gert sig stórlega seka og sett með því ljótan blett á það lýðræði, sem þeir keppast við að lofa.

Annað mál, sem ég vildi vekja hér athygli á, þegar rætt er um samningsrétt, er sú réttlætiskrafa Bandalags háskólamanna, að það fái samningsaðild og rétt fyrir sín aðildarfélög. Háskólamenntaðir menn í þjónustu hins opinbera telja a. m. k. margir hverjir, að við ákvörðun launa þeirra hafi ekki verið tekið nægjanlega mikið tillit til menntunar þeirra, þess tíma og kostnaðar, sem þeir hafi lagt í til að öðlast hana. Sumir segja af þessu tilefni, að við eigum að forðast það að skapa hér einhvers konar menntaaðal með því að hleypa langskólamenntuðum mönnum langt fram yfir aðra í launum. Á þessu stigi er þó ekki um neitt slíkt að ræða, heldur aðeins það, að þessir menn verði ekki látnir gjalda þess að hafa lagt á sig langt og oftast dýrt nám og verði þess vegna að standa höllum fæti gagnvart jafnöldrum sínum, sem hafa ekki lagt á sig slíkt nám. Það er oft talað um það, að þjóðinni sé brýn þörf á því að mennta sem flesta til sérfræðistarfa, og það er áreiðanlega rétt, sem oft er sagt, að sú fjárfesting, sem til þess er varið, skilar sér. Það er allt of áberandi sjónarmið meðal okkar, að langskólamenn séu baggar á þjóðfélaginu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að enda þótt þjóðfélagið styðji og styrki menn til mennta á margan hátt, er langt nám einnig fórn af hálfu þeirra, sem leggja það á sig. Menn, sem eru í námi langt fram á þrítugsaldur og koma þá fyrst inn á vinnumarkaðinn, standa yfirleitt miklu verr að vígi en jafnaldrar þeirra, sem hafa ekki farið í langskólanám. Þá eiga þeir m. a. í flestum tilfellum eftir að koma sér þaki yfir höfuð og leggja í annan stofnkostnað, auk þess sem þeir þurfa að greiða skuldir, sem þeir hafa stofnað til á námsárum sínum. Staðreyndin er sú, að þeir hafa flestir goldið síns langa náms og þjóðfélagið hefur ekki viðurkennt mikilvægi þess. Ef okkur er alvara með tali okkar um nauðsyn menntunar, verður að leiðrétta þetta og viðurkenna það, sem hér er á sig lagt, og meta það við ákvörðun launa.

Ég held, að háskólamenntaðir menn geri sér fyllilega grein fyrir okkar séraðstæðum og ætlist ekki til þess, að þeir séu gerðir að neinni yfirstétt í þjóðfélaginu, heldur vilja þeir fyrst og fremst fá viðurkennt það framlag, sem þeir leggja til þjóðfélagsins með námi sínu. Það verður að teljast eðlileg og sanngjörn krafa, að samtök þeirra fái að semja um þessi mál fyrir þeirra hönd.

En þegar rætt er um þessi mál og m. a. um nauðsyn þess, að ekki skapist hrópandi misræmi í launamálum í þjóðfélagi okkar, get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á því, að svo virðist sem þetta hafi ekki ætíð verið haft í huga við launaákvarðanir og ótrúlegt misræmi hafi myndazt, sem telja verður skaðlegt. Hér á hinu háa Alþ. kom það t. d. fram nú í vetur, að læknar við sjúkrahús úti á landi hefðu á 2. hundrað þús. kr. á mánuði í laun og auk þess ókeypis húsnæði og dygði þó ekki til að halda þeim þar, þar eð þeir teldu sig bera meira úr býtum í Reykjavík, að því er manni skildist. Ekki veit ég, hvort hér er rétt með farið að öllu, en ekki hef ég séð þessu mótmælt, og mér er einnig ljóst, að læknar hafa náð hér sérkjörum. Það er engan veginn ætlun mín að draga úr því, að læknar eigi skilið góð laun, jafnvel hærri en flestir aðrir langskólamenntaðir menn. En ég hlýt að láta í ljós þá skoðun mína, að hér hafi verið farið inn á hættulega braut, og ég sé ekki, á hvaða grundvelli það hefur verið gert. Ég tel, að slíkt himinhrópandi misræmi í launamálum sé okkur hættulegt og stuðli fremur en flest annað að óánægju og ófriði á vinnumarkaði. Ég ítreka þá skoðun mína, að viðurkenna eigi í verki það, sem langskólamenn leggja á sig við nám, en að ein stétt eða fáar fái rétt á því að taka til sín margföld laun á við aðra á þennan hátt, er tvímælalaust röng stefna. Það er rangt að magna þannig sérréttindi einstakra stétta, á sama tíma og þorra launþega er beinlínis haldið niðri og þeim sagt, að fórna sé þörf.

Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi á valdaferli sínum stuðlað mjög að slíkum sérréttindum, sem hafa skapað geysimiklar andstæður í launa- og kjaramálum, og hafi hún þannig sleppt af sjálfri sér því beizli, sem hún brýnir svo ákaft fyrir almenningi að hann þurfi að hafa á sér í kröfum sínum. Sérstaklega á þetta við um verzlunina, einkum innflutningsverzlunina, sem virðist hafa getað tekið til sín nær ótakmarkaðan hlut án raunhæfs eftirlits eða hlutfallslegra skila til sameiginlegra þarfa. En sem fyrr segir, hefur nú einnig borið á slíkri sérréttindastefnu innan kerfis opinberra starfsmanna. Enn fremur má nefna í þessu sambandi óeðlilegt og ósanngjarnt misræmi, sem myndazt hefur í verkalýðsstéttunum, t. d. milli ýmissa greina iðnaðarmanna annars vegar og annarra stétta, svo sem ófaglærðra verkamanna og margra opinberra starfsmanna hins vegar, svo og milli iðnaðarmanna innbyrðis. Við þurfum að stefna að því hið fyrsta að koma þessum málum í eðlilegri farveg, koma á meira jafnvægi og hindra, að einstakar stéttir geti í skjóli óeðlilegs tímabundins ástands í þjóðfélaginu náð til sín hlut, sem er sýnilega í ósamræmi við almennt ástand kjaramála. Við viljum vinna að bættum kjörum, en þær kjarabætur þurfa að miðast við það, að allir geti notið þeirra og fengið laun eftir réttu mati á störfum sínum.

Ég hef hér e. t. v. farið nokkuð út fyrir það efni, sem er til umr. En ég tel hér um mikilvæg réttindamál að ræða, sem þessu efni séu skyld, enda mundi lausn þeirra stuðla að auknum friði á vinnumarkaðinum. Ég ítreka að lokum stuðning minn við fyrirliggjandi frv. og skora á hv. þd. að afgreiða það á jákvæðan hátt.