12.12.1968
Neðri deild: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

74. mál, almannatryggingar

Flm. (Kristján Thorlacius):

Herra forseti. Lögin um almannatryggingar gera ráð fyrir greiðslu sjúkradagpeninga, ef samlagsmaður í sjúkrasamlagi verður óvinnufær. Í 50. gr. l. eru reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Þar er ákvæði um, að sjúkradagpeningar megi ekki vera hærri en sem nemur 3/4 þeirra vinnutekna, sem hlutaðeigandi hefur misst vegna veikinda sinna. Þá skal samkv. l. hafa hliðsjón af tekjum manns síðustu tvo mánuðina, áður en veikindi hófust. Um tekjur húsmæðra í þessu efni segir í 50. gr. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjur húsmóður vegna fullrar vinnu á heimili skulu í þessu sambandi metnar jafnar lífeyri samkv. 13. gr.

En í umræddri 13. gr. er skilgreining á því, hverjir eigi rétt á örorkulífeyri. Samkv. lagagr. eru það þeir menn á aldrinum 16–67 ára, sem eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi, að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess, er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn. Þarna er húsmóðurstarfið beinlínis metið til jafns við öryrkja með 1/4 hluta starfsorku.

Það ber að virða, að ákvæði hafa verið tekin í almannatryggingalögin um sjúkradagpeninga til handa húsmæðrum. En í sambandi við þessa dagpeninga er matið á störfum húsmæðra alveg fráleitt og þarf leiðréttingar við. Um það fjallar frv. þetta, sem hér er til umr., en í 1. gr. frv. er lagt til, að þegar húsmóður eru ákveðnir sjúkradagpeningar, séu tekjur hennar metnar jafnar hámarkslaunum barnakennara, eins og þau eru á hverjum tíma. Þetta er með tilliti til uppeldisstarfs húsmóðurinnar og þess, að hún er annar af forstöðumönnum heimilisins og stundum eini forstöðumaður þess. Það ákvæði, sem nú gildir um þetta, að meta starf húsmóðurinnar til jafns við starf manns, er glatað hefur 3/4 starfsorku sinnar vegna sjúkdóms eða annars, er fráleitt og hugsunarhátturinn, sem liggur að baki slíku ákvæði, er greinilega leifar frá þeim tíma, að konur höfðu ekki í orði, hvað þá heldur á borði, jafnrétti í launamálum.

Fyrir utan það, að hér er um að ræða fjárhagslegt hagsmunamál heimilanna í landinu, mega menn ekki una því nú á dögum, að slík mistök sem hér hafa orðið í lagasetningu séu látin haldast að því er varðar mat á húsmóðurstarfinu. Flestir viðurkenna, að heimilið og uppeldisstarfið, sem þar fer fram, sé það, sem þjóðfélagið á hvað mest undir. Er því ranglátt og hættulegt að vanmeta svo starf þess forstöðumanns heimilisins, sem oft og tíðum hvílir mest ábyrgð á, en það er einmitt húsmóðirin.

Eftir að það frv., sem hér liggur fyrir, var lagt fram, kom til mín kona og sagði m. a. við mig, að hún minntist þess að hafa fyrir skömmu lesið auglýsingu í blaði, þar sem óskað var eftir starfsmanni til skrifstofustarfa. Starfið væri ekki erfitt, stóð í auglýsingunni, og íslenzkukunnátta ekki nauðsynleg. Húsmæðrum var bent á, að starfið hentaði þeim. Sem vonlegt er, var þessi kona hneyksluð á auglýsingunni og bætti því við, að ekki virtust allir vera þess minnugir, að við nefndum íslenzkt mál móðurmálið. En vissulega var þarna um einstakling að ræða, sem svo klaufalega komst að orði í auglýsingu og vafalítið í fljótfærni. Hv. Alþ. má ekki leyfa sér slíka fljótfærni, og ég leyfi mér að vona, að það samþykki þetta frv. og leiðrétti þar með það ákvæði almannatryggingalaganna um mat á starfi íslenzkra húsmæðra, sem hér er lagt til, að leiðrétt verði.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.