11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það voru þrír menn í eftirleit einu sinni á Auðkúluheiði, ég á þar upprekstur. Það var logndrífa og jörð orðin hvít. Þeir tóku stefnu á eða ætluðu að taka stefnu á skála, sem þeir ætluðu að gista í, gengu stundarkorn, en þá kom sá, sem hafði forystu fyrir þeim, á slóðina sína aftur. Hann horfði um stund á slóðina, en sagði svo við félaga sinn: „Takt þú hæsta hring.“ En sá, sem á eftir gekk, hafði séð þegar hann beygði og tók ekki næsta hring, heldur tók stefnuna á skálann og náði áfanga.

Nú er það, sem skeð hefur í efnahagslífi okkar, dálítið hliðstætt þessari villu. Það er alltaf farinn sami hringurinn. Þetta er búið að gera jafnvel svo áratugum skiptir. Það er byrjað að greiða uppbætur á útflutningsafurðirnar. Þegar það er búið að ganga nokkurn tíma, þá er farið í gengislækkun. En mönnunum dettur aldrei í hug, að þeir hafi ekki stefnt í rétta átt, þeim, sem stjórna. Þetta var ekki lærður maður, sem var þarna í eftirleitinni, hann hafði aldrei tekið háskólapróf, var ekki hagfræðingur eða lögfræðingur, en hann hafði þó vit á því, þegar hann var búinn að fara hringinn, að segja við félaga sinn, að hann skyldi taka næsta hring, hann hafði sjálfsgagnrýni. Ég sé ekki annað en að það sé komin nokkurn veginn reynsla á, að þessi aðferð dugar ekki, við stefnum ekki í rétta átt. Það er alveg öruggt einkenni á efnahagslega sjúku þjóðfélagi að vera alltaf að lækka gengi. Gegnum mannkynssöguna finnum við, að einstaka fjármálaglópur hefur gripið til þess að þynna út verðgildi peninga. Það komst ofan í 2% hjá Rómverjum á þriðju öld. Þá voru eitthvað þrír og fjórir keisarar í ríkinu í einu, og við vitum, hvernig það hefur gengið stundum eftir stríðin, og alls staðar hefur þetta haft hrun og erfiðleika í för með sér. Þetta er eitt öruggasta sjúkdómseinkenni, sem til er í efnahagslífi einnar þjóðar, og alveg öruggt, að þeir, sem sitja við stjórn, þegar það gerist og endurtekur sig, hafa ekki vald á fjármálunum. Það er öruggt einkenni. Þess vegna furða ég mig á, að þeim ráðh., sem nú sitja, skuli ekki detta í hug að reyna að leita að öðrum leiðum. Ég skal játa, að hér er mikið alvörumál á ferðinni. Það má segja, að það sé ekki til neins að vera að koma með þessar reglur til okkar. Því hafa þeir þetta ekki allt uppi í Seðlabanka, allar ráðstafanir viðvíkjandi gengislækkun, fyrst gengislækkun er ákveðin þar? Það er til lítils að koma til okkar og fara að tala um þetta mál, þegar búið er að ákveða það. Það er eiginlega furðuleg ráðstöfun að taka alveg ákvörðunarvaldið um vexti og gengi af Alþ. og flytja það í aðra stofnun. Vitanlega ræður ríkisstj. þessu, en valdið er tekið af þinginu. Við vitum, að Seðlabankinn framkvæmir ekkert án þess að hafa samþykki ríkisstj. Þetta er í raun og veru furðulegt, þegar þetta eru þýðingarmestu málin, sem við höfum með að gera, og ég held, að það sé komin dálítil reynd á, að þetta séu ekki neinir spekingar, sem ávallt hafi rétt fyrir sér, ég held, að það sé komin nokkurn veginn reynsla á það. En í árferði eins og í ár er stórhættulegt að lækka gengið, og það er þungamiðja málsins. Það er einfaldlega af því, að atvinnuvegirnir eru reknir með tapi, og við verðum að koma í veg fyrir það tap, og það gerum við ekki með gengislækkun, eins og nú horfir. Fiskibátarnir í ár hafa ekki getað borgað vexti og afborganir, það vitum við, og þar að auki eru þeir reknir með allmiklu tapi, þeir stórsafna skuldum sumir. Ég átti tal við vanan útgerðarmann, og hann sagði, að sumir sinna báta mundu hafa tapað allt að milljón í ár. Læknast þetta við gengislækkun? Ég segi nei. Það er aðeins það, að hann þarf þriðjungi fleiri krónur til þess að borga þetta tap. Hvar á hann að taka þær krónur? Bankarnir eru tæmdir af fé, því að það fylgir alltaf gengislækkun. að fólk eyðir peningunum. Það trúir ekki ríkinu fyrir þeim. Við vitum hvernig það hefur gengið hér. Í allan vetur hefur fólkið verið að reyna að festa peninga sína í einhverju. Þið getið spurt Ásbjörn Ólafsson, hvernig honum hafi gengið að selja ísskápana sína, frystikisturnar o.s.frv. Bankarnir eru orðnir peningalausir. Við vissum, hvernig það gekk í fyrravetur, þegar fólkið vissi af gengislækkuninni. Mér hefur verið sagt, að það hafi verið rifnar 200 milljónir út úr bönkunum og eytt, og hvar eiga atvinnuvegirnir að fá rekstrarféð? Hæstv. bankamrh. kom hér upp og hélt stutta ræðu, sagðist ætla að gæta hagsmuna fyrir flokk sinn, skildist mér, láglaunafólk og bótaþega. Hæstv. forsrh. lét liggja að því, að það ættu að ganga um 150 milljónir til trygginga, ef ég hef tekið rétt eftir. En hvað þýðir þetta? Það eru minnkaðar krónur. Ég hef hlustað hér á ræður fulltrúa jafnaðarmanna í öll skiptin eftir gengislækkanirnar. Þeir hafa komið brosandi upp í ræðustól og tilkynnt, hvað mikið hærri upphæð þessir bótaþegar fengju. En þetta þýðir ekkert annað en lækkað verðgildi hverrar krónu, þetta eru ekki raunveruleg verðmæti, sem fólkið fær, og að láglaunafólkið græði á gengislækkun, það er nýtt fyrirbrigði. Og mér skilst nú, að það hafi verið látið liggja að því, að þetta væri gagnslaus gengislækkun, ef kaupið ætti að hækka hliðstætt, sem og satt er. Vænlegasta leiðin til að auka atvinnu, sagði þessi hæstv. ráðh. Ég hélt, að það væri svo þrengt að atvinnuvegunum með rekstrarfjárskorti nú, að það mundi ekki verða til bóta, að þeir þyrftu þriðjungi fleiri krónur til að geta rekið sína atvinnu, bæði verzlunarfyrirtæki og yfirleitt öll fyrirtæki í landinu, sem hafa einhvern rekstur. Hvar eiga fyrirtækin að taka peningana? Ekki er hægt að fá fyrirgreiðslu í nokkrum banka.

Það er þannig, að ég hef ekki skýrslur um tap bátanna, og ég efast um, að við fáum þær, en ég f ullyrði, — þó að við reiknum með, að bátur, sem getur borgað vexti og afborganir — við reiknum það 100%, og við skulum reikna vexti og afborganir og það, sem ekki tilheyrir gengi, sem svarar 20%. Við skulum reikna vinnulaun 50%, og við skulum reikna aðra gjaldeyriseyðslu um 30%, olían hækkar, veiðarfærin hækka, vélahlutar hækka og kaupið hækkar við viðgerðirnar. En nú hafa þessi 20% ekki verið greidd í ár og þar að auki er stórtap á bátunum, þannig að ég fullyrði, að bátarnir að meðaltali fiskuðu ekki nema 60–70% af því, sem þeir þurfa til þess að geta borið sig, og þetta þýðir þá það, að útgerðin tapar fleiri krónum við gengislækkunina. Eru nokkrar líkur til, að hlutirnir breytist sérstaklega til hagræðis fyrir útveginn, þó að gengið sé lækkað? Ég álít, að það sé ekki. Sannleikurinn er sá með venjulega daglaunamenn og háseta, að það þýðir ekkert að tala um kauplækkun við þá. Þeir þurfa þessa peninga til þess að svelta ekki. Við vitum það ósköp vel. Þetta vita allir, sem hafa haldið heimili nú. Það þýðir ekki að tala um það. Eina leiðin til þess að fá hagstæðari hlutaskipti er því að lækka aukahlutina. Nú er það þannig t.d. á dragnót, að þeir munu hafa upp í 60%, þegar aukahlutirnir koma, því að af 5 manna áhöfn hafa allir aukahlut, og kaupið er 50% af aflaverðmæti. Á togveiðum er það 32%, það hafa allir aukahlut á 5 manna bát, þeir eru 16°l0, þá eru komin 48%, við það bætist orlof og allar aukagreiðslur, öll tillög til sjóða og allt slíkt, og ef hlutirnir fara upp í 50–60%, er vonlaust að láta bát bera sig. Það þarf því að gera allt aðrar ráðstafanir en að lækka gengi til þess að bjarga útvegi, sem er rekinn með tapi. Ætlar ríkisstj. að binda með lögum að lækka hlutaskiptin? Ég fyrir mitt leyti er algerlega á móti því að lækka við háseta, ég álít, að það sé ekki hægt. En ég álít, að það sé hægt fyrir yfirmennina að lækka sína hluti. Ætlar ríkisstj. að gera það með lögum, eða ætlar hún ekki að gera það? Og ég er sannfærður um það, að ef ríkisstjórnin hefði ekki farið í að lækka gengið nú, hefði margur verið fús til að hjálpa henni. Þjóðinni er það alveg ljóst, að við höfum orðið fyrir stóráfalli hvað síldveiðar snertir og að útflutningurinn er mikið minni en vanalega. Við getum gert okkur það alveg ljóst, að við getum ekki leyft okkur það sama og undanfarin ár, og fólkið skilur það, en það er ekki hægt að lækka nauðþurftir fólks, það verður að lifa. Við verðum að fara inn á aðra leið til þess. Ég skrifaði grein um þetta fyrir fáum dögum, ég vildi setja fram mínar skoðanir, jafnvel þótt ég vissi, að það yrði ekki farið eftir þeim, gat ekki betur gert. Það, sem við þurfum að gera, er að búa þannig í haginn fyrir útveginn, að hann geti nálgast það að bera sig, en það hefur ekki þessi hæstv. ríkisstj. gert. Vextirnir hafa verið hækkaðir um þriðjung, það var hlaðið ótal aukasköttum á útveginn; launaskatti, aðstöðugjaldi á tap, þeir fundu það nú út að fara að leggja á tapið, og fjölda marga aðra skatta. Ég hef sagt hvað eftir annað úr þessum ræðustól, að þetta yrði til þess, að útgerðarmenn gæfust upp. Ég hef líkt þessu við hest, sem eru lagðir of þungir baggar á. Og þetta hefur rætzt. Þeir eru lagztir. Útgerðarmenn reyna ekki að borga vexti og afborganir af lánum, þeir geta það ekki, þess vegna er óhjákvæmilegt, og það er byrjað á því, að taka vissa prósentu af útflutningsverðmætunum, ríkið leggi fram á móti, sjóður sé stofnaður og annist um vaxta- og afborganagreiðslur. Það er búið að hlaða svo byrðum á útgerðina, að hún hefur gefizt upp við að borga vexti og afborganir. Það á að létta öllum aukaútgjöldum af útveginum, sem mögulegt er. Ég álít ekki, að það eigi að afnema tryggingasjóðinn. Þessar hliðarráðstafanir þurfum við fyrst að gera og þrýsta kostnaðinum á þennan hátt eins niður og mögulegt er. Þetta gengur svo fáránlega langt, að það var lagður 71/2% söluskattur á tryggingagjöld bátanna, sem eru ef til vill 1/2 milljón. Þessi upphæð nemur þá um 40 þús. Þetta átti þátt í því að hækka tryggingagjöldin. Þetta verða menn að borga sjálfir, ef tryggingagjöldin hækka vegna tjóna. Ég sagði við einhvern, að það væri ómögulegt að vera reiður út af þessu, því að mennirnir vissu ekkert, hvað þeir væru að gera, þegar þeir væru með slíkar álögur. Í fyrra var fyrst létt af þessum skatti af tryggingagjöldunum. Það er ekki nóg að ætla sér að sópa fé í ríkissjóð, það verða að vera einhverjir möguleikar til að greiða þetta fé. Þegar búið er að gera þessar hliðarráðstafanir, átti ekki að fella gengið, heldur átti að segja við útgerðarmenn og sjómenn: Þið verðið að skipta aflanum á milli ykkar, eftir því sem sanngjarnast er. Þið fáið ekki frekari aðstoð nema í gegnum Aflatryggingasjóð, sem yrði þá að taka verstu áföllin, ef veiði brygðist fyrir bátana, eins og hann hefur gert, og þá er það mál út af fyrir sig að efla hann á einhvern hátt. En lengra var ekki hægt að ganga. Og þá urðu menn að gera þetta upp við sig, sjómennirnir urðu að hafa vinnu, útgerðarmennirnir að reka sína báta, og segja svo við útgerðarmennina: Ef þið getið ekki rekið bátana, þegar búið er að búa þannig í haginn fyrir ykkur, þá verður að taka af ykkur skipin. Það yrði vitanlega að losa útgerðarmenn við lausaskuldir — og segja svo við þá: Nú verðið þið að bjarga ykkur sjálfir, og þeir hefðu reynt það, ég er sannfærður um það. Ef skerða varð kjör skipshafna þá varð að lækka aukahlutina en ekki við háseta, því að þeir hafa ekki meira en þeir þurfa til að lifa á. En nú er þannig með reksturinn á þessum blessuðum skipum, að þau fá eitthvað 300 þús. kr. í rekstrarfé — þrjú til fjögur hundruð þús. kr. fá bátarnir nú, og þetta er lítið meira í krónutölu heldur en þeir fengu áður en allar þessar mörgu gengislækkanir voru gerðar. Og það er þannig með öll lán, að það þarf að greiða þau, þannig að þau eru vafasöm hlunnindi. En þegar talað er um það, að þetta sé til að auka atvinnu, gera atvinnuvegunum auðveldara fyrir, að fella gengið, þá er það út í loftið. Þetta svo að segja stöðvar fjölda fyrirtækja. Rekstrarfé er ekki fyrir hendi. Verzlunin þarf þriðjungi fleiri krónur fyrir sama verðmæti. Það er því um grundvallarmisskilning að ræða að halda, að þeir geti bætt útgerð, sem er rekin með tapi, með gengislækkun. Þetta er alveg ámóta og ætla að fara að slökkva eld með því að hella í hann olíu í staðinn fyrir vatn, það er alveg hliðstætt. Enda eigið þið eftir að sjá, hvers konar endemis öngþveiti verður út af svona ráðstöfunum. Það er ekki gaman, þegar þeir, sem ráða, skilja ekki þessi grundvallaratriði atvinnurekstrarins. Og ef útgerðin væri rekin með gróða, græddi hún fleiri krónur, en ekkert meira verðmæti. Þetta er ekkert nema fals og blekkingar. Það verður að taka á meinsemdinni á réttan hátt. Eins og atvinnuástandið er í landinu nú, er óhjákvæmilegt að hafa skuldaskil hjá skuldugum bændum, ef til vill einhverjum iðnaðarmönnum, einhverjum hluta af þeim og útgerðarmönnum. Það er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til þess, að það sé ekki gengið að þessum mönnum. Þeir hafa varla frið fyrir rukkurum og kröfum, og víxlarnir hlaðast upp, sem eru ógreiddir. Og ætla svo að lækna þetta með gengislækkun, það er eins og hver önnur vitleysa. Við verðum að gera okkur það alveg ljóst, að við getum ekki veitt okkur það, sem við höfum gert, og viðreisnarstefnan er gjaldþrota. Það þýðir ekkert fyrir menn að reyna að blekkja sig.

Það var rétt hjá manninum, sem fór hringinn í snjómuggunni. Hann var ekki að blekkja sig á því að hann hefði ekki farið í hring. Það er ekki hægt að fara eins með gjaldeyrismálin og gert hefur verið. Fyrsta skilyrði fyrir því að rétta við fjárhag okkar er að koma á greiðslujöfnuði við útlönd. Við getum það ekki nema að fara á annan hátt með gjaldeyri okkar en við höfum gert undanfarin ár. Við eigum ekki að gera það með því að fara til verkamannsins, sem vinnur fyrir börnum sínum, eða hásetans, sem rétt berst í bökkum til þess að geta lifað, og segja: Þú átt að lækka kaupið þitt. Við eigum að draga úr eyðslunni. Mér var sagt af kunnugum manni, að það mundi hafa farið í Spánarferðalög um 300 millj. á ári undanfarið, þar í reiknuð fargjöld. Þetta er sennilega hvergi gefið upp. Þessi maður þóttist vera kunnugur þessu. Menn eru að ferðast út um allan heim og ráðherrarnir ekkert síður en aðrir og eyða miklum peningum frá gjaldeyrislausri þjóð. Það er ekkert vit í öðru en taka fyrir þetta. Við eigum að takmarka innflutninginn við það, sem nauðsynlegt er. Það þýðir ekki að ætla að neita um varahluti í vélar, hvorki í skip eða landbúnaðarvélar, iðnaðarvélar né annað. Við verðum að takmarka eyðsluna á öðrum sviðum meðan við erum að komast yfir þessa erfiðleika, sem við erum í nú. Við getum ýmislegt takmarkað, við getum takmarkað ferðalög, sem ekki eru nauðsynleg, við getum vel komizt af án þess að kaupa bifreiðar í tvö ár, við getum notað þær bifreiðar, sem við eigum, og væri til sóma fyrir marga opinbera starfsmenn, ef þeir hættu að láta ríkið eiga bifreiðarnar og ættu þær sjálfir, fengju einhvern styrk til þess að reka þær, ef þeir þyrftu mikið að nota bifreiðar í þágu þess opinbera. Það eiga allir að búa við svipuð kjör í okkar þjóðfélagi og engin ástæða að fá einum embættismanni bifreið og öðrum ekki. Bændur gætu vel komizt af næstu 2–3 árin, án þess að kaupa mikið af heyvinnuvélum, það eru margir búnir að birgja sig upp af þeim. Þannig má spara á ótal mörgu. Ef við þurfum að byggja skip, getum við byggt þau innanlands. Sannleikurinn er sá, að skip okkar eru ekki nærri því fullnýtt fyrir rekstrarfjárskort. Jafnvel þó að skip smíðuð innanlands séu eitthvað dýrari, þá mundi það draga úr atvinnuleysi og borga sig fyrir þjóðfélagsheildina. Við gætum einnig minnkað fóðurvörukaup okkar um 2/3. Við gætum tekið fyrir ýmsan iðnaðarvarning, sem er fluttur inn í landið og er óþarfur að nokkru leyti. Að ganga í efnahagsbandalag nú og flytja inn iðnaðarvörur frá háþróuðum iðnaðarþjóðum án allra verndartolla, það væri til að eyðileggja mikið af okkar iðnaði og auka atvinnuleysið. Það þýðir ekki að vera að tala um, að við getum flutt út iðnaðarvörur, félausir menn og engan veginn tæknilega þróaðir á við hinar þjóðirnar. Ég nefni bara þessa liði, en það má spara á ýmsan hátt, ef þjóðin er samtaka um það. Og þarna eigum við að spara en ekki svo að segja að taka brauðið frá börnum fátæka mannsins. Það er ekki hægt. Að sjálfsögðu mundu útgjöld ríkisins lækka, ef innflutningur drægist saman, og þá væri ekki um annað að tala en draga úr útgjöldum ríkisins. Við höfum margvarað við þessari endalausu þenslu. Það skal raunar viðurkennt, að núverandi fjmrh. hefur reynt að draga úr henni, og það er honum til sóma, en hækkanirnar voru ca. 500 millj. á ári.

Hv. bankamálarh. var nú mælskari, þegar hann var að tala um að fjölga prófessorum við Háskólann, heldur en þegar var verið að leysa erfiðleika efnahagslífsins, í ræðu þeirri, sem hann hélt nú. Ég held satt að segja, að það hefði ekkert sakað okkar afkomu, þótt minna væri gert að því að fjölga prófessorum. Við þurfum fyrst og fremst að lifa. Ég álít, að við eigum að ganga að því hlífðarlaust að lækka útgjöld ríkisins. Það er ekki vinsælt, og það kemur við einhverja, en það er ekki hægt að innheimta þessi gjöld. Ef við getum lækkað framlög til atvinnuveganna, og það getum við, ef rétt er á haldið, þá á það sinn þátt í að lækka útgjöld ríkisins. Sannleikurinn er sá, að gengislækkunin síðasta var gerð ríkissjóðsins vegna en ekki útvegsins. Það var hirt af útveginum allur gengishagnaðurinn 1967, ca. 400 millj., sem hann átti. Ég skal játa, að það var ekki gengið að bátunum, en það var miklu betra að láta þetta ganga upp í vexti og afborganir fyrir bátaeigendur og hjálpa frystihúsunum heldur en hirða það í ýmislegt annað. Ætli eigi ekki að leika sama leikinn nú? Sannleikurinn er sá, að útvegurinn hefur aldrei verið jafnhörmulega staddur og eftir síðustu gengislækkun. Rekstrarfjárlausir bankar og búið að taka gengishagnaðinn, hirða hann. Á ekki að leika sama leikinn nú? Ég efast ekkert um, að það verði gert. Og þá verður það sama sagan, sem endurtekur sig. Hásetarnir vilja hafa sama kaup, yfirmennirnir á skipunum líka. Enginn trúir því, að þetta lagist með þessu áframhaldi, sem ekki er von. Og ekki minnkar erl. kostnaðurinn. Þetta hefur ekkert í för með sér nema aukna erfiðleika. Þetta er hryggileg ráðstöfun. Þjóðin hefði verið fús til þess að leggja ýmislegt á sig nú, ef það hefði verið skynsamlega tekið á hlutunum. Það þarf að gera allt, sem unnt er, til þess að láta atvinnuvegina bera sig, fyrst og fremst lækkun á ríkisútgjöldunum til að þurfa ekki að íþyngja fólkinu með of háum sköttum, og að því fengnu að gera allt til að treysta gengið. Og þegar við erum búnir að treysta gengið, þá ættum við að hækka verðgildi krónunnar, en ekki lækka það. Ætli við séum ekki komin ofan í 21/2 gulleyri með hverja krónu? Þegar Rómverjar voru vitlausastir, þá voru þeir komnir ofan í tvö %, við erum í 21/2. Þetta heldur prýðilega áfram, alveg prýðilega. Þegar menn villast, þá þrengist alltaf hringurinn, og síðast snúast menn bara um sjálfa sig. Það er ekki nema tæpt ár á milli þess, sem hringurinn er tekinn. Nei, þetta er alvarlegur hlutur, þegar menn, sem eiga að ráða í þjóðfélögunum, skilja ekki undirstöðuatriðin. Áð skella gengislækkun ofan á taprekstur atvinnuveganna er eins og að hella olíu í eld. Þetta er voðalegur hlutur. Það er ekki nóg, að menn hafi háskólapróf. Þeir verða að skilja hlutina. Það er engin tilviljun, að aumingja fólkið hérna í húsunum er farið að tala um það, að það þyrfti að taka þessa hagfræðinga og lögfræðinga úr þinginu og flytja bændur og sjóara þangað. Það er farið að spjalla um þetta. Það er búið að gefa upp alla von um, að það verði gert nokkuð af viti. Ég satt að segja er búinn að gefa upp alla von líka, ég verð að segja það. Hitt er svo annað mál, að ef við gætum komið okkar atvinnuvegum í heilbrigðara ástand, þá er það mál út af fyrir sig, við gætum þá samræmt betur greiðslugetu þjóðfélagsins og greiðslugetu atvinnuveganna og kaup launþegans. Mér datt í hug, að sú leið væri athugandi, hvort ekki væri hægt að miða kaupgjaldsvísitölur við verðmæti útflutnings, verðlag á útflutningsafurðunum. og miða kaupgjaldsvísitöluna við það yfir allt launakerfið, jafnt opinbera starfsmenn sem aðra, og þá myndaðist þarna samræmi á milli þess, sem atvinnuvegirnir gætu borgað og milli þess, sem fólkið fengi. Ef til vill mætti taka tillit til magnsins líka, og þá þyrfti ekki sífellt að vera að deila um þetta, og þetta mundi styrkja gengið. Það þýðir ekki að taka á þessu neinum vettlingatökum, það verður okkur að vera ljóst. Við verðum að færa fórnir, og fólkið er fúst til þess, ef það trúir að það komi að gagni, en þeir geta ekki fært fórnir, sem tæpast hafa að borða.

Ég hef kynnt mér það hjá matvörukaupmönnum hér í bænum, sem selja kjöt og smjör og vörur, sem eru tiltölulega dýrar, að það er minna keypt en vanalega, eingöngu af því að geta fólks er minni. Það þýðir þess vegna ekki að ætla að nota þá aðferð að fella gengið til þess að lækka kaup þessara manna, það er ekki hægt. Þeir þurfa þetta til þess að lifa á. Við verðum að taka þetta allt öðrum tökum. Við verðum að spara óþarfann, og við verðum að stjórna, það er engin stjórn á fjárfestingarmálum og hefur aldrei verið hjá þessari stjórn. Það er ekki til þess að bæta hag atvinnulífsins að hækka vexti um þriðjung, eins og gert var, hrúga sköttum á atvinnuvegina og stytta afborgunartíma lána. Þetta miðar allt að því að gera þeim erfiðara fyrir. Ekki græða bændur á gengislækkuninni, þeir tapa vitanlega á henni, þeir þurfa að kaupa áburð og fóðurvörur. Hverjir græða á gengislækkun? Það var gert fyrir ríkissjóðinn í fyrra, það var eini aðilinn, sem græddi. Nú á aftur að fella gengið, ég sé ekki að það muni neinn aðili græða á því nema ríkissjóðurinn. Það er bezt að vera ekki að blekkja sig á því, að útgerðarmaður, sem rekur útgerð sína með tapi, þarf þriðjungi fleiri krónur til þess að borga þetta tap, og það er ekki hægt að fá þær. Og afleiðingin af þessari ráðstöfun verður sú, að fleiri og færri fyrirtæki lenda í algjöru öngþveiti með rekstur sinn. Það er stefnt í öfuga átt. Í staðinn fyrir að átta sig á, að það er búið að fara í hring og villast, og í stað þess að taka stefnu í rétta átt, þá á bara að þrengja hringinn, villan á að halda áfram.