28.11.1968
Neðri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

79. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Haraldur Henrýsson):

Herra forseti. Í frv. því á þskj. 99, um breyt. á l. nr. 50 31. júlí 1959, um eftirlit með skipum, sem ég flyt ásamt hv. 4. landsk. þm., er lagt til, að varðskipum ríkisins verði beitt til eftirlits og löggæzlu að því er varðar öryggisbúnað skipa. Eins og nú er háttað lögum, geta einungis sérstakir eftirlitsmenn Skipaskoðunar ríkisins framkvæmt skoðanir á skipum og búnaði þeirra. Hér er sem sé lagt til, að skipverjum varðskipanna verði falið að framkvæma skoðanir á hafi úti á öryggisbúnaði og siglingatækjum og geti þeir framkvæmt þær skoðanir hvenær og hvar sem er.

Það hefur lengi skort töluvert á það hjá okkur, að fyrirmælum laga og reglugerða um öryggi skipa væri hlýtt. Talið er, að vanræksla á þessu sviði hafi leitt til slysa og skiptapa, og það ætti því að vera okkur kappsmál að hindra slíkt, eftir því sem við bezt getum. Hér eigum við svo mikið í húfi, að einskis má láta ófreistað, sem stuðlað geti að auknu öryggi. Aðstæður hér við land eru þannig, að nauðsynlegt er, að skip séu vel og sterklega byggð og jafnframt útbúin beztu tækjum, sem gera þau hæfari til að ná höfn við allar aðstæður, svo og til að bjarga áhöfn, ef illa fer fyrir skipi. Hér eru gerðar allstrangar kröfur í þessum efnum um frágang og búnað skipa, en það eitt nægir ekki. Reynslan hefur, sem fyrr segir, sýnt, að ætíð er viss hætta á vanrækslu og kæruleysi, e. t. v. vegna þess, að aðhald hefur ekki verið nógu mikið eða stöðugt. Þær skoðanir, sem nú eru framkvæmdar í höfnum, oftast aðeins einu sinni á ári, hafa ekki reynzt nægilegt aðhald, og hefur oft komið í ljós, að mikilvæg tæki vantar eða eru í ólagi, þegar til þarf að taka.

Þá er í frv. þessu og lagt til, að varðskipsmenn geti beint löggæzluaðgerðum að skipum, sem augsýnilega eru ofhlaðin eða haffærni þeirra raskað á annan hátt. Hefur það hvað eftir annað skeð á undanförnum árum, að skipum hefur hvolft og þau sokkið bersýnilega vegna ofhleðslu. Ég tel, að í þessum málum eigi hið sama að gilda og um skoðun bifreiða. Þær eru skoðaðar reglulega einu sinni á ári af skoðunarmönnum bifreiðaeftirlitsins, en alla aðra daga ársins geta bifreiðaeigendur átt von á því, að lögreglumenn stöðvi þá í akstri til athugunar á ástandi bifreiðar. Enn ríkari ástæða sýnist mér til að lögbinda slíka löggæzlu og eftirlit með skipum, þar sem þar er oftast bæði um fleiri mannslíf og meiri verðmæti að tefla.

Ég held, að varðskipsmenn eða yfirmenn varðskipanna, sem mundu hafa yfirumsjón með þeim skoðunum, sem framkvæmdar yrðu, séu nú þegar fullfærir um að inna þetta verkefni af hendi. Þessir menn eru bezt að sér og lærðastir íslenzkra sjómanna um þau tæki, sem hér um ræðir, og meðferð þeirra. Það er hins vegar nauðsynlegt, að náið samráð verði á milli landhelgisgæzlu og skipaskoðunar um framkvæmd þessara mála og settar yrðu nánari reglur um framkvæmd þessa eftirlits og ef ástæða þætti til haldið námskeið fyrir áhafnir varðskipanna til að gera þær hæfari til að sinna þessu verkefni.

Að lokum vil ég benda á, að slíkt eftirlit og löggæzla á hafi úti er ekkert einsdæmi, og má í því sambandi t. d. benda á bandarísku strandgæzluna, sem mér er tjáð, að hafi sig töluvert í frammi við eftirlit með öryggisútbúnaði skipa.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.