02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

86. mál, söluskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 106 hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Sunnl. flutt frv. til laga um breyt. á l. um söluskatt. Eins og fram kemur í grg. frv., var lögð á það áherzla af hálfu Framsfl., að því leyti sem málefnalegar umr. fóru fram á milli stjórnmálaflokkanna á s. l. hausti, að úrræðin m. a. til þess að leysa þann vanda, sem í efnahagsmálum þjóðarinnar væri, væru þau að draga úr kostnaði við atvinnureksturinn, við heimilishaldið í landinu, það sem af okkar hálfu var kallað að minnka vandann. Þetta vildum við gera með því m. a. að lækka skatta á atvinnurekstrinum, lækka vexti o. fl., sem hér hefur oft verið til umr. En að þessu sinni ætla ég aðeins að víkja að því, sem við leggjum til með þessu frv., en það er að fella niður söluskatt af allra nauðsynlegustu vörutegundum, þ. e. af innlendum matvælum, svo og af heitu vatni og rafmagni frá rafmagnsveitum og hitaveitum, enn fremur af kaffi, sykri og kornvöru og olíu. Í grg. frv. er vitnað til þess, að 1966 þótti ástæða til að greiða vöruverð í landinu niður mjög verulega. Á s. l. ári var því svo breytt aftur og sú niðurgreiðsla, sem upp var tekin 1966, var að mestu leyti þá felld niður. En verðhækkanir hafa á þessu tímabili orðið verulegar, og sem dæmi um það hef ég fengið upp gefnar hækkanir á nokkrum vörutegundum. Olía mun hafa hækkað um 100% frá 1966, hitaveitugjöld um 24% og rafmagnsgjöld um 13.6%, nýmjólk um 18.5%, þ. e. án þess að niðurgreiðslan hafi áhrif á það, dilkakjöt um 23.5% og smjör, þegar tekið er tillit til niðurgreiðslunnar, sem var á því 1966 og er nú, um 100%. Á sama tíma hefur almennt kaupgjald í landinu, miðað við Dagsbrúnartaxta, hækkað um 15%.

Eins og ég gat um áðan, hefur niðurgreiðsla á vöruverði lækkað verulega og verið felld niður, eins og af smjörlíki, en á árinu 1966 var niðurgreiðsla á dilkakjöti 33.6% af heildarverðinu, af nýmjólk var hún 66.5% og smjöri 93.9. Nú er hins vegar niðurgreiðslan 17.7% af heildarverði dilkakjötsins, 51.7% af heildarverði nýmjólkur og 63.9% af smjörverðinu. Þegar þessi þróun er höfð í huga, er öllum ljóst, hvað kjör hins almenna borgara hafa versnað á þessu tímabili. Inn í þetta eru að litlu eða engu leyti komnar þær verðhækkanir, sem nú eru framundan.

Það verður því ekki annað sagt um þetta frv. okkar en það sé farið hófsamlega í hlutina og aðeins leitað eftir því að leiðrétta smávegis það, sem kemur við hvern einasta borgara í landinu og enginn getur án verið. Það verður ekki heldur hægt með rökum að halda því fram, að það mundi vera ofraun ríkissjóði, þó að hann sæi af þessum tekjum. Þetta eru ekki þær fjárhæðir í ríkisrekstrinum í heild, að það væri ekki hægt með öðru móti að leysa þann vanda, enda vonast ég til, að ef frv. það, sem ég talaði fyrir hér áðan, yrði að lögum, mundi það bæta ríkissjóði verulega upp þann tekjumissi, sem hér ætti sér stað. Ég vil enn fremur minna á það, að fram til 1960 komst ríkissjóður af án þess að þurfa að leggja söluskatt á fisk, kjöt, smjör og smjörlíki. Þess vegna er ég sannfærður um það, að hér er um sanngirni að ræða, og þetta er svo einfalt í framkvæmdinni, að það er ekki heldur hægt að halda því fram, að það mundi bjóða heim svindli í söluskatti.

Ég treysti því og við flm. þessa frv., að hv. Alþ. sjái sér fært að verða við því að samþykkja þetta frv., enda erum við sannfærðir um, að það mundi verða til þess að leysa á ódýrari, en farsælan hátt vandamál, sem mundi reynast ríkissjóði erfiðara að leysa en hér er lagt til, og það mundi verða til þess að draga aðeins sárasta broddinn hjá hinum almenna borgara úr þeim efnahagsráðstöfunum, sem nú er verið að gera, en öllum er ljóst, að þeir, sem minnstar tekjurnar hafa í þessu þjóðfélagi, hafa ekkert til að fórna í þær efnahagsaðgerðir og þess vegna verður að mæta þeim með skynsamlegum ráðstöfunum.

Þetta frv. er einn þáttur í því að taka á málinu á hagkvæman og skynsamlegan hátt, og því treysti ég því, að hv. d. verði við því að samþykkja þetta frv. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn. og 2. umr.