18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

115. mál, verðlagsmál

Menntmrh.(Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. þdm. án efa er kunnugt, gerði síðasta Alþ. þá breyt. á verðlagslögum að skipun verðlagsnefndar skyldi breytt. Var þá ákveðið til eins árs, að verðlagsnefnd skyldi skipuð 9 mönnum, þrír skyldu skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, tveir samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Verzlunarráðs Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga. Níundi maðurinn skyldi vera ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., og skyldi hann vera form. nefndarinnar. Þessi nýja skipan er ákveðin til eins árs, þ.e.a.s. til ársloka 1968, og falla því þessi ákvæði úr gildi um næstu áramót. Engin ósk hefur komið fram um það að breyta þessu skipulagi frá neinum þeim aðila, sem nú á fulltrúa í verðlagsnefnd. Þess vegna þótti ríkisstj. einsýnt að gera ráð fyrir því, að þessi skipun yrði framlengd. Upphaflega lagði ríkisstj. fram frv. um það í Nd., að þessi skipun skyldi framlengd til fjögurra ára, en ég lýsti yfir í framsögu, að ef hv. Alþ. eða þn. sýndist eðlilegra að hafa bráðabirgðaskipun enn um sinn á þessum málum, þ.e.a.s. framlengja þessa skipun til eins árs aðeins, þá gæti ríkisstj. samþykkt það fyrir sitt leyti. Sú var niðurstaðan í hv. Nd., að hún óskaði þess, að frv. yrði framlengt aðeins til næstu áramóta, og var það samþykkt með shlj. atkv. Þess vegna er frv. þannig breytt komið til hv. Ed., og vildi ég leyfa mér að mælast til þess, að d. afgreiddi það áður en jólafri hefst, til þess að lögin falli ekki úr gildi um næstu áramót.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.