10.12.1968
Neðri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um tímabundinn greiðslufrest á skuldum bænda og vinnslustöðva landbúnaðarins. Flm. með mér eru hv. 5. þm. Austf., hv. 2. þm. Sunnl. og hv. 5. þm. Norðurl. v. Ég mun nú lesa frv., það er örstutt, og grg., með leyfi forseta:

„1. gr. Bændur og vinnslustöðvar landbúnaðarafurða skulu hafa greiðslufrest til 1. maí 1969 á öllum afborgunum og vöxtum af þeim skuldum, sem þessir aðilar hafa stofnað til fyrir 1. sept. 1968 vegna framkvæmda eða framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða. Tímabilið frá gildistöku þessara laga til 1. maí 1969 telst ekki með fyrningartíma skulda, sem greiðslufrestur er veittur á, víxilréttar né neinna réttargerða.

2. gr. Í reglugerð, sem ráðh. setur, skal kveða nánar á um framkvæmd á ákvæðum 1. gr.

Grg. er svo hljóðandi:

„Bændur og vinnslustöðvar landbúnaðarafurða hafa aukið skuldir sínar stórkostlega á undanförnum árum. Ýmsar ástæður valda þessu. Árferði hefur verið mjög óhagstætt landbúnaði í sumum landshlutum að undanförnu, m. a. stórfelldur grasbrestur í sumum sveltum vegna kals í túnum. Af því leiddi, að óhjákvæmilegt var fyrir allmarga bændur að verja miklu fé til fóðurkaupa til þess að skerða bústofninn ekki um of. Á sama tíma hafa orðið miklar verðhækkanir á rekstrarvörum landbúnaðarins, m. a. af völdum gengisbreytinga.

Um þessar mundir er gerð athugun á því, hve skuldir bænda eru miklar. Þessi athugun fer fram á vegum nefndar þeirrar, sem hefur fengið það verkefni að kynna sér hag og aðstöðu bænda og gera till. um ráðstafanir vegna harðæris.

Flm. þessa frv. telja það óhjákvæmilegt að ákveða með 1. tímabundinn greiðslufrest á afborgunum og vöxtum af þeim skuldum, sem bændur og vinnslustöðvar landbúnaðarins hafa stofnað til fyrir 1. sept. 1968 vegna framkvæmda eða framleiðslu og vinnslu landbúnaðarafurða. Slíkan tímabundinn greiðslufrest ber að veita, meðan unnið er að athugun og yfirliti um skuldir bændastéttarinnar og meðan á Alþ. er fjallað um frv. um breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán.“

Herra forseti. Þar sem ég mun nú beina máli mínu fyrst og fremst til hæstv. viðskmrh. og hæstv. landbrh. og ég sé, að þeir eru ekki hér í salnum, þykir mér það ekki viðeigandi, að ég flytji mál mitt að þeim fjarverandi, og óska eftir því, að það verði gerðar ráðstafanir til þess, að þeir komi hér í salinn, og mun gera hlé á máli mínu, þar til þeir koma í salinn. (Forseti: Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að hafa samband við þá tvo hæstv. ráðh., sem þm. óskaði eftir, að viðstaddir væru. Ef þm. vill gera hlé á ræðu sinni, þá er það velkomið, en ég vonast til þess, að þeir komi hér innan skamms, og væri þess vegna óhætt að halda áfram ræðunni. Það er upplýst, að báðir hæstv. ráðh. eru í húsinu, og er verið að gera könnun á því, hvort þeir geti mætt hér til fundar. Þar sem hér eru viðstaddir tveir ráðh. úr ríkisstj., sem sjálfsagt mundu flytja skilaboð til beggja hæstv. ráðh., sem þm. minntist á áðan, þá spyr ég þm., hvort hann vilji ekki halda sinni ræðu áfram á meðan.) Ég endurtek ósk mína, að þeir verði hér viðstaddir. (Forseti: Það er upplýst, að báðir hæstv. ráðh., sem þm. óskaði eftir, að væru hér viðstaddir, eru bundnir við önnur störf. Vill þm. ekki halda áfram sinni ræðu, þar sem hér eru viðstaddir tveir aðrir hæstv. ráðh., eða óskar hann eftir því að gera hlé á sínu máli, þannig að umr. verði frestað?) Ja, það er ekki um annað að gera. [Frh.]