18.12.1968
Neðri deild: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir því, að hæstv. viðskmrh. hafi ánægju af því að ræða við hv. þm., sem var að ljúka máli sínu hér, þegar hann hefur tíma til, og þess vegna er nú svo, að ég þarf í rauninni ekki mjög langan tíma að þessu sinni. Kemur það sér vitanlega vel, þar sem þetta er á síðustu dögum þingsins fyrir jólin. Ég vil þó í tilefni af því, að hv. þm. sneri sér öðru hverju til mín í sínum málflutningi, segja hérna nokkur orð.

Hv. þm. talar mikið um samdráttarstefnu í landbúnaðinum, og hann segir, að það sé stefna Alþfl., sem ræður í landbúnaðarmálum, og þess vegna hljóti að verða samdráttur. Og hann spyr: Hvað verður um kauptúnin, og hvað verður um suma kaupstaðina, ef þessi stefna fær að ráða, þessi stefna Alþfl. í landbúnaðarmálum, samdráttarstefnan? Ég held, að stefnan í landbúnaðarmálum sé alveg augljós, og ef hv. þm. vill segja, að það sé stefna Alþfl., þá er ekkert við því að segja. Sú stefna, sem hefur verið fylgt í landbúnaðinum síðustu 9 árin, er enn þá ráðandi í dag, og um það, hvort hún hefur leitt til samdráttar eða ekki, þurfum við ekki að eyða löngum tíma hér í hv. Alþ. Við getum lesið opinberar skýrslur um það, hvort þetta hefur verið samdráttarstefna, sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur fylgt undanfarin ár. Og við getum farið í fleiri skýrslur og athugað það, hvort þessi stefna Sjálfstfl. og Alþfl. á undanförnum árum hefur leitt til þess að gera aðstöðu bænda lakari í þjóðfélaginu heldur en var.

Hv. þm. talar um, að það sé auðséð, að ég hafi látið undan einhverri þvingun með því að skipa n. til þess að endurskoða landbúnaðarmálin. Ef Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu viljað taka upp einhverja nýja stefnu, samdráttarstefnu, þá hefði ekki verið farið að skipa n. í góðu samkomulagi við Stéttarsamband bænda, við forustumenn bænda, sem vilja vera ábyrgir og skynsamir, þegar um er að ræða hagsmuni bændastéttarinnar. En það er rétt, það hefur verið skipuð n. í góðu samkomulagi við fulltrúa Stéttarsambands bænda, og í n. eiga sæti 3 fulltrúar bænda í 6 manna nefnd. Þar eiga einnig sæti 3 fulltrúar frá neytendum, það eru 3 hv. alþm., og sjöundi maður í n. er Jónas Haralz forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar. Og hvernig er svo erindisbréfið, sem þessi n. hefur fengið? Er lagt fyrir hana að stuðla að samdrætti í landbúnaði? Er lagt fyrir hana að taka af bændunum eitthvað af því, sem þeir hafa fengið, t. d. útflutningsuppbæturnar eða annað slíkt?

Hv. þm. Stefán Valgeirsson talar hér af ábyrgðarleysi, án þess að hafa kynnt sér það mál, sem hann er að ræða um, án þess að finna orðum sínum stað, og talar þannig, að það er útilokað, að þeir, sem eitthvað þekkja til þessara mála, taki nokkurt mark á því, sem þessi hv. þm. hefur sagt. Samdráttarstefnan, sem hann segir, að hafi verið fylgt, er það, að þegar þessi ríkisstjórn tók við, höfðu verið ræktaðir í landinu um 60 þús. ha. Túnastærðin var um 60 þús. ha. En við þessi áramót munu vera 110 þús. ha. lands ræktaðir. Þetta hefur verið gert í tíð núv. ríkisstj. og þetta var ekki gert af því, að núv. ríkisstj. vildi hefja samdráttarstefnu í framleiðslunni, ekki af því heldur, að hún vildi fækka bændum sérstaklega. Þetta var gert vegna þess, að ræktunin leiðir til framfara og til betri aðstöðu bændastéttarinnar, leiðir til þess, að allir þjóðfélagsþegnarnir njóta þess að búa í betra landi, sem hefur meiri ræktun og meiri möguleika. Og í krafti þessarar ræktunar hefur framleiðslan ekki dregizt saman, hún hefur aukizt. Fyrir 9 árum var mjólkurframleiðslan 70 millj. lítra á ári, sem komu í mjólkurbúin, en á s. l. ári var hún, að mig minnir, 110 millj. lítrar. Þetta kallar hv. þm. samdráttarstefnu. Og sama máli gegnir um kjötframleiðsluna: um 9 millj. kg fyrir 9 árum, en á s. l. ári um 12 millj. kg. Það er rétt, að framteljendum í landbúnaði hefur fækkað nokkuð síðustu árin, ekki vegna þess, að það hafi verið stefna núv. ríkisstj. endilega að fækka bændum, heldur hefur þróunin verið sú af eðlilegum ástæðum, þar sem atvinnuástandið er gott í landinu, eða var gott, að það var ljóst, að þeir bændur, sem höfðu lélegar jarðir til ábúðar og lélegt land, þeir gátu aldrei búizt við því að fá sambærilegar tekjur og aðrir þjóðfélagsþegnar. Þess vegna er það, að framteljendum í landbúnaði hefur fækkað og að ýmsar jarðir, kotjarðir, sem áður voru í ábúð, hafa farið í eyði og verið lagðar undir aðrar jarðir, þannig að með sameiningunni hefur tekizt að gera tvær lélegar jarðir að einni góðri ábýlisjörð. Þannig hefur meðalbúið stækkað vegna ræktunar, vélvæðingar og bættra skilyrða úr 315 ærgildum á þessum 9 árum í 400 ærgildi. Þetta leiðir til þess, að bændurnir hafa fengið auknar meðaltekjur frá því, sem áður var.

Hv. þm. talaði um, að það hafi verið breytt um landbúnaðarstefnu, þegar núv. ríkisstj. kom til valda. Það er rétt. Það var breytt um stefnu á þann veg að reyna að skapa þeim, sem landbúnað stunda, ekki lakari lífskjör en öðrum vinnandi stéttum, og stærsta sporið í þá átt var það að taka upp útflutningsuppbæturnar, sem voru ekki áður fyrir hendi, — útflutningsuppbæturnar, sem miðast við það, að ríkissjóður greiði, ef með þarf, í útflutningsuppbætur allt að 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Og þetta hefur oftast nægt til þess, að bændur hafa fengið fullt verð fyrir alla framleiðsluna. En þetta var ekki svona áður en núv. ríkisstj. kom til valda. Þá urðu bændur sjálfir að bera hallann af því, sem út var flutt. Og hv. þm. Stefán Valgeirsson kannske man ekki eftir þessu. Hann var ekki þá kominn á Alþing. En hann var búandi maður, og hann hefði átt að taka eftir því, að oft vantaði á það, að grundvallarverðið fengist, áður en útflutningsuppbæturnar voru upp teknar, og hann hefði átt að hafa heiðarleika til þess hér í hv. Alþ. að viðurkenna það, að með því að breyta um stefnu árið 1960 og tryggja bændum fullt grundvallarverð fyrir alla framleiðsluna, þá var verið að bæta hag bænda frá því, sem þeir áður höfðu búið við. En hv. þm. viðurkenndi ekki þetta, heldur tók hann það ráð að gaspra og koma með órökstuddar fullyrðingar.

Ég vil einnig minna á, að verðlagning landbúnaðarvara hefur í mörgum tilfellum farið fram með öðrum hætti, eftir að núv. ríkisstj. kom til valda, heldur en áður var, og að bændur í gegnum verðlagninguna hafa náð betri árangri síðan en oft áður. Ég vil minna á það, að 1966, um vorið, var viðurkennt, enda staðfest í Árbók landbúnaðarins, að bændur höfðu fengið á sex árum hlut sinn leiðréttan, þannig að kaupgjaldsliður bóndans í verðlagsgrundvellinum hafði hækkað um 144%, þegar kaupgjald verkamanna hafði aðeins hækkað innan við 100%. En af hverju gerðist þetta? Gerðist það vegna þess, að ríkisstj. vildi gera hlut bænda betri, miklu betri en verkamanna eða launþega? Nei, það gerðist ekki af því. Það gerðist af því, að ríkisstj. vildi ekki, að hlutur bænda væri lakari en hlutur annarra vinnandi stétta. Þess vegna varð þessi leiðrétting til að koma. Þessi leiðrétting varð til að koma vegna þess, að framsóknarmenn, á meðan þeir fóru með völd, höfðu vanrækt að stuðla að því, að bændur fengju það verð í grundvellinum, sem þeim bar til þess að fá hliðstæð kjör við aðrar vinnandi stéttir, að þeir fengju fullt grundvallarverð. Það var ekkert gert til þess að tryggja útflutninginn á þessum tíma, og það var látið líðast, að bændur fengju lægra verð skrásett en svo, að þeir gætu nokkurn tíma náð hliðstæðu kaupi út úr framleiðslunni við það, sem verkamenn og aðrir launþegar höfðu fengið. Þess vegna varð að hækka kaup bóndans við verðlagninguna á þessum árum miklu meira en laun verkamanna og annarra vinnandi stétta hafði hækkað. Getur það verið, að hv. þm. Stefán Valgeirsson hafi ekki vitað um þetta, þegar hann var að semja þá ræðu, sem hann var að flytja hér áðan? Er leyfilegt að hugsa sér það, að þm. sé svo illa að sér, að hann hafi ekki vitað um þetta? Ég veit ekki, hvort er betra fyrir hann að vera álitinn svo fáfróður um þessi mál, sem hann talar svo títt um, að hann hafi ekki vitað um þetta, eða hitt, að hann hafi vitað um það og að hann hafi ekki verið nógu heiðarlegur til þess að viðurkenna staðreyndir í þessu efni, — heldur kosið að koma hér með fullyrðingar í trausti þess, að því yrði ekki andmælt, og að menn hefðu gleymt því, sem skeði fyrir örfáum árum.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hvað menn vilja álíta í þessu efni, en hvort sem verður ofan á, þá verður hlutur hv. þm. í þessu tilfelli alls ekki góður. Það held ég, að sé alveg útilokað. En ég vil minna hv. þm. á það, að þegar hann hneykslast á nefndarskipuninni, þá hafa bændur sjálfir á sínum stéttarþingum talað um það, að það þyrfti að endurskoða framleiðsluráðslögin. Þeir hafa — bændurnir sjálfir — óskað eftir því að gera verðlagningarkerfið einfaldara. Þeir hafa jafnvel sumir, sem lengst hafa gengið, óskað eftir því að leggja 6 manna nefndina niður. Þeir hafa óskað eftir því, síðan núv. ríkisstj. kom til valda, að semja beint við ríkisstj. Skyldi það vera vegna þess, að þeir vantreysta ríkisstj.? Ég hef oft sagt það við bændur, sem hafa borið þessa till. fram á stéttarsambandsfundum og annars staðar, að ég gæti út af fyrir sig verið stoltur af því, að þeir óskuðu eftir því að taka upp beina samninga við ríkisstj. um verðlagningu búvöru. Ég hef hins vegar ekki óskað eftir því að taka við þeim heiðri og framkvæma það. Ég hef talið, að það væri eðlilegt að stuðla að því, ef mögulegt væri, að hafa samkomulag við neytendur um verðlagninguna, eins og hefur verið síðan 1943. Og það er enginn vafi á því, að ef það tekst að ná samkomulagi þannig, þá tryggir það miklu frekar heldur en nokkuð annað frið á milli stéttanna, og það er ákaflega mikils virði fyrir bændur, ef hægt er að halda friði við neytendur, sem kaupa vöruna. Ég skal viðurkenna, að þann frið má ekki kaupa það dýrt, að hagsmunir bænda séu fyrir borð bornir. Nú hefur það verið svo s. l. 2 ár, síðan framleiðsluráðslögunum var breytt, að þá hefur Alþýðusamband Íslands ekki viljað tilnefna mann í 6 manna nefnd, þessi fjölmennu stéttarsamtök, neytendasamtök, og þess vegna hefur félmrh. orðið að skipa mann í nefndina, til þess að hún yrði fullskipuð. Einn punkturinn af fimm í erindisbréfi þessarar umræddu nefndar er sá, að gerð verði tilraun til að fá neytendur til að taka fullan þátt í verðlagningunni. Ef sú tilraun fer út um þúfur, nær það ekki lengra. Það er þá aldrei verra en svo, að það yrði e. t. v. reynt að búa við lögin eins og þau eru úr garði gerð. Og það eru 4 punktar aðrir, sem ég kann ekki utan að, en ég get huggað hv. þm. Stefán Valgeirsson með því, að ég samdi þetta erindisbréf í samráði við fulltrúa bænda og fulltrúa neytenda. A. m. k. sumir af þeim vissu nákvæmlega um það, hvernig þessir punktar voru. Og fulltrúar bænda í 6 manna nefnd og stjórn Stéttarsambandsins, sem tekur ábyrga afstöðu til málanna, þeir gera sér alveg grein fyrir því, að það getur verið vinningur að því að athuga ýmislegt, sem við kemur þessum málum. Það getur t. d. verið vel athugandi, hvort það er heppilegt að nota þær fjárhæðir, sem bændur fá nú í útflutningsuppbætur og notaðar eru í niðurgreiðslur, öðruvísi en nú er gert, hvort það gæti komið bændum að betra gagni, að þessir peningar væru notaðir öðruvísi .en nú er gert, og þjóðinni í heild að eins miklu eða betra gagni, t. d. með því að greiða niður á öðrum stigum og lækka framleiðslukostnaðinn. Þetta er reikningsdæmi, og ég vil ekki fyrir fram fullyrða neitt um það, hvernig útkoman verður, ef þessu væri breytt. En ég hlustaði á formann Stéttarsambands bænda halda ræðu einu sinni í sumar, þar sem margt var saman komið af bændum og reyndar fleira fólki, og þá hafði hann einmitt orð á þessu, að það gæti vel komið til greina, að þessar fjárhæðir allar, niðurgreiðslurnar og útflutningsuppbæturnar, gætu komið að meira gagni fyrir bændastéttina og verið notadrýgra fyrir þjóðarheildina að nota þetta með öðrum hætti í þágu bænda. Og menn skyldu aldrei fyrir fram vera lokaðir fyrir því að skoða málið. Það er einnig ákveðið í þessu bréfi, að það skuli athugað, með hverjum hætti væri hugsanlegt að draga úr framleiðslukostnaðinum, m. a. til þess að gera framleiðsluna samkeppnisfærari á erlendum markaði, til þess að gera hana ódýrari fyrir neytendur, en þó þannig, að bændur bíði alls ekki tjón þar af. Þá býst ég við, að n. athugi það einnig, hvort heppilegt er að stuðla að sérframleiðslu búvara á einstökum svæðum eða hvort eðlilegt er að ýta sérstaklega undir mjólkurframleiðslu t. d. í námunda við þéttbýli, en kjötframleiðslu, þar sem lengri eru flutningar á innlendan markað. Allt þetta mun n. skoða. En erindisbréf n. hljóðar ekki upp á það að fara að stefna aftur á bak í íslenzkum landbúnaði, heldur er meiningin miklu frekar sú að finna leiðir til þess að stefna fram á við, til þess að kjör bændanna megi vera betri en þau hafa verið, til þess að framleiðslan geti orðið hagnýtari. Og áreiðanlega mun n. taka einnig til athugunar, hvort ekki er ráðlegt að taka upp enn meiri fjölbreytni í framleiðslunni, þannig að hún fullnægi enn betur en fyrr öllum þörfum og kröfum, sanngjörnum kröfum neytenda.

Það hefði verið gott fyrir hv. þm. að ræða við flokksbræður sína um þessa nefndarskipun og innihald þessa bréfs, áður en hann kemur hér upp í ræðustólinn og fullyrðir, að með þessari nefndarskipun hafi verið ákveðið að hopa eitthvað í framfarasókn íslenzks landbúnaðar og fyrir hönd íslenzkra bænda. Hv. þm. á vonandi eftir að læra það, að það er betra að kynna sér þau mál, sem rætt er um, áður en hann fer upp í ræðustólinn til þess að fullyrða það, sem menn sín á milli segja um á eftir: Þetta var tóm vitleysa, sem maðurinn sagði.

Satt að segja talaði hv. þm. lítið um þetta frv., sem hann er þó 1. flm, að og dagskráin segir, að sé hér til umr. Hann lauk máli sínu með því að segja eitthvað á þá leið, að frv. væri flutt í þeim tilgangi að reyna að fá því til vegar komið, að lausaskuldum bænda verði breytt í föst lán með það fyrir augum að bæta kjör þeirra og gera þeim kleift að standa undir skuldabagganum.

Árið 1962 var lausaskuldum bænda breytt í föst lán til 20 ára með 8% vöxtum. En af einhverjum ástæðum notuðu ekki nærri allir bændur sér þetta tækifæri þá. Það má segja, að nú eftir 6 ár sé ástæða til þess að gera þetta í annað sinn. En lausaskuldir voru hjá bændum fyrir 1962 og áður en núv. ríkisstj. komst til valda, en það bar aldrei á því, að flokksmenn hv. þm. sæju ástæðu til þess þá að gera ráðstafanir til þess að breyta lausaskuldum í föst lán.

Hv. þm. flytur nú þetta frv., við skulum segja af miklum áhuga á framförum og velgengni bænda, og hann hefur fengið með sér mæta menn á þetta frv., en enginn af þeim hefur viljað vera 1. flm., m. a. vegna þess, að sams konar eða líkt frv. hafa flokksbræður þessa þm. flutt í Ed. á þessu þingi og einnig áður, og einnig vegna þess, að bæði 1. flm. og allir hinir vita það, að ríkisstj. hefur í undirbúningi ýmislegt þessu skylt. Á s. l. vori voru ráðnir menn til þess að gera athugun á efnahag og rekstraraðstöðu bænda á harðindasvæðunum. Það skyldu teknar upp eignir og skuldir bænda á harðindasvæðunum. Það skyldi fengin glögg mynd og góð grg. um það, hvernig efnahagur bænda á þessu svæði væri, áður en ríkisstj. gerði till. um, hvað gera skyldi bændastéttinni á þessu svæði til hjálpar. Þegar leið á sumarið og komið var fram í ágústmánuð, var ákveðið, að þessi athugun skyldi ekki bundin aðeins við harðindasvæðið, heldur skyldi athugunin ná yfir landið allt. Það skyldi dregin upp glögg og skýr mynd af afkomu og rekstrarafkomu bændastéttarinnar um land allt. Og tveir ágætismenn hafa unnið í þessu. Annar þeirra er Árni Jónasson, fyrrv. bústjóri. Hinn var Kristján Karlsson, sem nú er nýlega látinn. Og störfin hafa tafizt nokkuð, vegna þess að hann féll frá. En ég vænti þess, að þessi mynd, sem á að vera skýr og gefa gott yfirlit um efnahag bænda um land allt og rekstraraðstöðu, hún liggi fyrir í janúarmánuði. Þetta vissu allir nú á haustmánuðum, að ríkisstj. var að láta vinna. Þessi vinna er harla yfirgripsmikil, hún kostar talsvert fé, og menn geta spurt: Hvers vegna var ríkisstj. að láta gera þetta? Hvað meinar hún með þessu? En er það ekki augljóst, að ríkisstj. lætur gera þetta af því, að hún vill laga og bæta aðstöðu þeirra, sem verst eru settir? Og það er ekki talið fært að gera það nema hafa séð grunninn og séð, hvernig efnahagur bændanna er og rekstraraðstaða öll. Þess vegna hefði verið nægilegt að flytja eitt frv. líkt þessu, sem hér er um að ræða. Það hefði verið nægilegt að endurflytja það frv., sem hv. framsóknarmenn hafa flutt á mörgum undanförnum þingum, þótt ekki hefði komið annað frv. því líkt hér í hv. Nd.

En út af fyrir sig skiptir þetta ekki verulegu máli, og það er ekki þetta, sem bændurnir spyrja um að lokum. Þeir spyrja ekkert um það, hvernig ræðu hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti hér í kvöld. Það kemur málinu ekkert við. Það, sem kemur bændunum við, og það, sem spurt verður um, er það, hvað verður gert í þessu máli. Það er það, sem skiptir máli. Þegar þessi athugun hefur farið fram, liggur það fyrir, hversu margir bændur eru svo illa settir sem hv. þm., sem talaði hér áðan, lýsti, því að hann lýsti því þannig, að það væri algert kreppuástand, ekki aðeins hjá bændum, heldur í atvinnulífinu öllu og hjá öllum stéttum þjóðfélagsins. Og þess vegna er það, þegar slíkar fullyrðingar eru í frammi hafðar dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, — þess vegna er það mikils virði, að athugun, eins og ég nú var að lýsa, fari fram og menn fái sanna mynd af þessu. En ég ætla, sem betur fer, að fullyrðingar hv. þm. hafi ekki við rök að styðjast, og sem betur fer er meiri hluti bændastéttarinnar allvel settur og alls ekki hjálparþurfi. Hitt er svo annað mál, að í öllum héruðum munu finnast menn, sem hafa lélegan efnahag, miklar skuldir, of lítil bú og sitja á þannig jörðum, að það er ekki að búast við sæmilegum lífsskilyrðum með því að búa á þeim jörðum. Þess vegna er það, að það þarf enn að sameina fleiri jarðir, sem eru of litlar, til þess að skapa lífvænleg skilyrði, og það er ekki til afturfarar fyrir landbúnaðinn, þó að tvö eða þrjú kot verði sameinuð í eina góða bújörð, og hvaða þm. er það, sem vill með sanni halda því fram, að það út af fyrir sig sé röng stefna? Hver vill segja, að það hafi verið röng stefna að stækka meðalbúið, eins og hefur verið gert síðustu 9 árin og ég lýsti áðan? Vitanlega enginn.

Það er enginn vafi á því, að aðstaðan til búrekstrar hefur versnað síðustu þrjú árin. Hún hefur versnað vegna þess, að tíðarfarið hefur gerbreytzt. Ég lýsti því áðan, að bændur hefðu fengið mikla leiðréttingu til ársins 1966 á verðlaginu, með því að kaup bænda í verðgrundvellinum var hækkað miklu meira en kaup launþeganna, og að á árinu 1965 munu bændur hafa verið komnir fyllilega upp að hlið launþeganna og fengið fyllilega hliðstæðar tekjur og aðrar vinnandi stéttir, viðmiðunarstéttirnar. Kannske hefur það verið í fyrsta sinn, eftir að löggjöfin var sett, — kannske hefur það verið í fyrsta sinn 1965, að bændur hafa náð því takmarki að hafa nokkurn veginn sambærilegar tekjur. En þegar árferðið versnar og tíðarfarið kólnar, þegar við fáum þessi köldu vor eins og hafa verið núna undanfarið, hafa bændur vitanlega orðið að eyða bæði meiri heyjum og fóðurbæti en reiknað var með og normalt er, og það hefur leitt til þess, að þeir hafa fengið minni afurðir, en stóraukinn tilkostnað. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Stefán Valgeirsson vill kenna ríkisstj. um þetta. En á orðum hans áðan mátti raunverulega skilja, að það væri raunverulega ríkisstj. að kenna. Og lítið gerði hann úr verðlagningu búvöru 1966, en þá var samkomulag í 6 manna n. um verðið, og ég hygg, að verðlagningin 1966 hafi alls ekki verið ámælisverð, það sé alls ekki réttlátt að ámæla fulltrúum bænda, sem sömdu þá um verðið við neytendur. Verðlagningin 1967 fór fram með öðrum hætti, vegna þess að það varð ekki samkomulag. Hv. þm. vill láta í það skína, þó að hann segi það ekki berum orðum, að ríkisstj. hafi staðið á bak við þá verðlagningu, þann úrskurð, sem þá var felldur. Ég mun ekki eyða tíma í að ræða slíkt, það vita allir, að verðlagningin 1967 fór fram samkv. lögum, og hvernig dómurinn féll, var ekki mál ríkisstj. Verðlagningin á s. l. hausti fór einnig fram samkv. lögum til 2 ára. Þá féll úrskurður, og enginn vafi er á því, að sá úrskurður var hagstæðari fyrir bændur en úrskurðurinn fyrir ári. Ég ætla ekki heldur að fara út í það, en áreiðanlega geta menn enn bent á ýmislegt, sem mætti leiðrétta betur, en ég hygg líka, að það séu margir, sem efast um, að það sé rétti tíminn einmitt núna til þess að heimta það, sem mætti kalla fullar leiðréttingar.

Hv. þm. talaði mikið um gengisbreytinguna og annað slíkt, og það mátti skilja á honum, að það væri sök ríkisstj., þessi gengisbreyting og gengisbreytingarnar bæði nú og fyrr. Ég held, að það verði að fresta því fram yfir hátíðar að ræða nánar um gengisbreytinguna og orsakir þess, en ég hygg, að þeir séu orðnir margír flokksbræður þessa hv. þm., sem hafa gert sér grein fyrir því, hvers vegna gengisbreytingin var gerð. Ég held, að það séu fleiri en formaður þingflokks Framsfl., sem gerðu sér grein fyrir því, að það varð annaðhvort að fella krónuna eða taka upp útflutningsuppbætur í miklu stærri stíl, vegna þess að þjóðin hafði misst nærri helming af sínum útflutningstekjum. Og jafnvel þótt hv. þm. vilji láta í það skína, að þetta sé allt sök ríkisstj., þá trúir því enginn, að það sé á valdi ríkisstj. að stjórna síldargöngum, það sé á valdi ríkisstj., hvað mikið veiðist hér af þorski, eftir að allt hefur verið gert til þess að auka veiðitæknina með kaupum nýrra skipa, að það sé á valdi ríkisstj. að ráða markaðsverði á síldar- og fiskafurðum í heiminum. Þessu trúir enginn, og vegna þess að það trúir því enginn, dettur engum í hug að deila um það í alvöru, að gengisfellingin sé ríkisstj. að kenna. Hitt er svo vitað mál, að vegna þess að búið var að undirbyggja ýmislegt hér, auka atvinnutæknina, hefur ekki enn skollið á raunveruleg kreppa hér á landi, og samkvæmt útreikningum þurfa lífskjörin ekki að ganga lengra til baka en svo, að það miðist við árin 1962 og 1963. Ég vil vona, að hv. þm. geri sér grein fyrir því nú um jólahátíðina, því að þá er tími til þess að hugsa og þá er líka tími til þess að tala minna, — hann geri sér grein fyrir því, í hverju það liggur, að við Íslendingar þurfum nú um sinn að breyta nokkuð til frá því, sem var, þegar bezt lét, og að hann geti huggað sig með því á jólunum, að ef hann vilji ganga í lið með þeim, sem vilja byggja raunverulega upp og efla frið í þjóðfélaginu í staðinn fyrir ófrið, muni fljótt aftur koma bati í íslenzku atvinnu- og efnahagslífi.