11.02.1969
Neðri deild: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (2640)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var á dagskrá í des. s. l., hélt hv. 1. flm. þess, hv. 5. þm. Norðurl. e., skörulega ræðu, þar sem hann gerði grein fyrir frv. á glöggan hátt og tók um leið stefnu ríkisstj. og frammistöðu allri rösklegt tak. Hæstv. landbrh. þoldi ekki mátið, sem varla var nú von, og flutti þá hérna langa ræðu. Fannst mér, þegar ég var að hlusta á þá ræðu, að þar væri sumt ofsagt, en annað ýmislegt með þeim hætti, að varla hæfði, því að ráðh. brá frsm. bæði um vanþekkingu og að hann vantaði heiðarleika í málflutningi.

Ég hef stundum áður orðið þess var, að þessi hæstv. ráðh. bregður slíkum rökum fyrir sig, þegar hann telur sig eiga í vök að verjast. Mér finnst það ekki vel viðeigandi. Auðvitað ræður hann sinni venju í þessu, og ég mun láta það afskiptalaust. En mér finnst vegur Alþ. ekki vaxa af því, þegar þm. og ekki síður ráðh. bregða hverjir öðrum um óheiðarleika í málflutningi, þegar slíku er ekki til að dreifa, eins og ég tel, að ekki hafi verið í áminnztri ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e.

Ég ber virðingu fyrir því, þegar menn sýna karlmennskuhug og reyna að verja sig, og það má segja um hæstv. landbrh., að hann er bardagamaður og beitir kröftum í bardaganum. En hv. 5. þm. Norðurl. e. er líka nokkuð sterkur. Og það er dálítið gaman að því að sjá þá eigast við. Ég býst nú við, að þeir eigi eftir að takast hér á og þeirra atgangur verði e. t. v. nokkuð harður, eins og hann var fyrir jólin. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að fara í neina glímu í sambandi við þetta frv., ég er ekki neinn bardagamaður eins og þeir, en ég taldi rétt, þar sem ég er einn af flm. þessa frv., að ég kæmi hér í ræðustólinn og segði nokkur orð.

Ég veit, að bændastéttin á nú í miklum erfiðleikum með að standa í skilum við sína lánardrottna, og það mun líka hafa verið svo, að margir bændur munu eiga óuppgerðar sínar sakir núna, sem áttu þó að vera á hreinu um s. l. áramót. Ég veit, að mörgum bónda líður nú illa út af slíku. En bændurnir eru ekki vanir að bregða loforð sín. Það vita þeir, sem vanir eru því að eiga viðskipti við þá. En núna er svo komið högum þeirra margra, að þeir hafa ekki getað greitt af skuldum sínum. Þeim ríður þess vegna ekki á neinu meira núna í bili heldur en því, að greiðslufrestur verði gefinn á skuldum, þar til athugun er lokið á þeirra efnahag, og það verði teknar ákvarðanir um að breyta lausaskuldum þeirra í föst lán með þolanlegum kjörum, eins og frv. okkar framsóknarmanna í Ed. gerir ráð fyrir. Hæstv. landbrh. hefur sjálfur skipað rannsóknarnefnd til þess að athuga hag bænda. Þetta hefði hann varla gert, ef hann teldi hag þeirra almennt góðan, eins og hann lætur þó við flest tækifæri í ljós, að hann sé. Ég hef aldrei satt að segja skilið þá röksemdafærslu hjá hæstv. landbrh., þegar það er haft í huga, að hvað eftir annað er það staðfest í opinberum skýrslum hagstofunnar, og ég hef ekki heyrt neinn treysta sér til þess að mótmæla hennar niðurstöðum og hennar skýrslum, að bændur eru tekjulægsta starfsstétt landsins, búin að vera það nú um nokkuð mörg ár. Það munaði t. d. á tekjum þeirra og viðmiðunarstéttanna árið 1967 um 130 þús. kr., að bændur voru þá tekjulægri en viðmiðunarstéttirnar.

Þá er ég ekki síður hissa á upphrópunum og fullyrðingum hæstv. landbrh. um góðan hag bænda, þegar það er haft í huga, að árið 1962 neyddist hann sjálfur til þess að beita sér fyrir lögum um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. En gengisfellingarnar, sem núv. hæstv. ríkisstj. gerði 1960 og aftur 1961, gengu svo nærri afkomu bænda og fleiri ráðstafanir, sem þá voru gerðar, eins og t. d. stytting lánstímans, hækkaðir vextir um 50% a. m. k., skattur lagður á söluvörur bændanna o. fl., að þeir gátu þá ekki staðið í skilum margir hverjir. Slíkt hafði þá ekki skeð síðan í heimskreppunni eftir 1930. Dýrtíðin og hinar stóru gengisfellingar í fyrra og aftur nú í vetur hafa sannað það enn á ný, að nú er ekki minni þörf en 1962 á því að gera ráðstafanir í skuldamálum bænda, því að það er vitað, að skuldasöfnun hefur verið mjög mikil hjá þeim síðustu árin. Þetta veit hæstv. landbrh. Þess vegna hefur hann sett n. til þess að rannsaka þessi mál, eins og ég sagði áðan.

Ráðh. vill aldrei viðurkenna, að ríkisstj. vilji samdrátt í landbúnaði. Það getur vel verið, að hann sjálfur kæri sig ekki um samdrátt, en ég held, að það sé opinbert mál, að ríkisstj. hefur viljað samdrátt í landbúnaði, ekki sízt hæstv. viðskmrh., sem hvað eftir annað hefur látið það í ljós, að hann vildi fækka bændum og vildi draga saman framleiðsluna í landbúnaðinum. Hins vegar vill, eins og ég sagði, hæstv. landbrh. ekki viðurkenna þetta, og í því sambandi skírskotar hann venjulega til talna, sem hann hefur þá á reiðum höndum um aukna ræktun, sem átt hefur sér stað á síðustu árum í landinu. En hann nefnir þá ekki heldur, sem hann ætti þó að gera, — hann nefnir ekki allar þær jarðir, sem á þessum árum hafa farið í eyði, og alla þá ræktun á þessum jörðum, sem í eyði eru komnar, sem nú er komin í órækt og ekki að neinum nytjum. Það eru í skýrslu, sem ég hef í höndum frá landnámsstjóra, taldar í eyði fardagaárið 1966–1967 527 jarðir. Ef gert er ráð fyrir t. d., að meðaltúnstærð á þessum eyðijörðum sé 5 hektarar á hverri, sem ég hygg að fyllilega megi gera ráð fyrir, og e. t. v. meira, en ég ætla ekki að gera ráð fyrir nema 5 hekturum að jafnaði á þessum jörðum, þá hafa þar fallið í niðurníðslu 2600 hektarar af ræktuðu landi á undanförnum árum og eru nú á þeim flestum þessi tún komin í órækt.

Ráðh. sagði í ræðu sinni hér fyrir jólin um þetta mál, að meðalbúið hefði stækkað á s. l. 9 árum úr 315 ærgildum í 400 ærgildi. Þetta mun vera rétt hjá honum. En þessi bústærðaraukning hefur ekki nægt, og það veit ráðh. sjálfur, til að mæta auknum tilkostnaði bæði við búreksturinn og til aukinnar neyzluþarfar vegna dýrtíðarinnar og gengisfellinganna. Sem dæmi skal ég nefna það, að dráttarvél, sem kostaði árið 1958 eitthvað rúmar 50 þús. kr., kostar núna af sömu stærð um eða yfir 200 þús. kr. og önnur tæki eftir þessu. Allir vita um byggingarkostnaðinn, hver risaskref hann hefur tekið á s. l. 9 árum, þar sem byggingarvísitalan hafði hækkað í júlí s. l. um 232 stig frá því, sem hún var árið 1960. Þá má nefna áburðarverðið. Ég hef ekki athugað, hvað verð tilbúins áburðar hefur hækkað mikið síðan 1958 eða 1959. En verðhækkunin á s. l. vori var 19.53% fyrir allar áburðartegundir, þ. e. a. s. vegið meðaltal allra áburðartegundanna, hækkun 19.53% á því eina ári. Ég er ákaflega hræddur um, að sú fjölgun ærgilda á meðalbúinu, sem hér hefur verið nefnd og er úr 315 í 400, hafi hjá mörgum bændum náð allt of skammt til þess að vega á móti þeirri gífurlegu dýrtíð og ráðstöfunum, sem m. a. hafa verið gerðar af hálfu stjórnarvalda til þess einmitt að koma á samdrætti í landbúnaðinum, enda má sjá þess merki í greiðsluerfiðleikunum og skuldasöfnun bændanna, sem ég hef verið að tala um, í því, að þeim hefur fækkað á 9 árum um hátt á sjöunda hundrað, og í því, að nú dregst mjólkurframleiðslan svo saman, að gera má bráðlega ráð fyrir skorti á sumum mjólkurvörum. Það þarf ekki að rökstyðja það, að það fækkar ekki fólki í þeim stéttum, þar sem er velmegun. Fólki fækkar ekki í öðrum stéttum en þeim, þar sem mönnum vegnar ekki nógu vel. Úr þeim atvinnuvegi flýja menn og reyna að fá sér lífsviðurværi við eitthvað annað. Og þetta hefur átt sér stað á undanförnum árum. Bændum hefur fækkað. Sumir segja, að það sé ekki mikill skaði, og það má vel vera, að það sé hægt að reka hér blómlegan landbúnað, þó að bændum fækki eitthvað. Ég skal ekki hafa á móti því, að það geti verið skynsamlegt að leggja einhver afskekkt býli til hliðar og geyma þau framtíðinni, á meðan framleiðslan er yfrið nóg. En þetta hefur átt sér stað á undanförnum árum vegna þess, að menn hafa ekki unað við hlutskipti sitt í landbúnaðinum og flúið frá honum.

Hæstv. landbrh. talaði um, að nokkrar kotjarðir væru komnar í eyði. En eins og ég var að segja, eru þær nú allmargar og fleiri en nokkrar, og þar að auki væri hægt að nefna nokkuð mörg stórbýli, sem einnig hafa lagzt í eyði á undanförnum árum. Hann hefur líka stundum talað um það, hæstv. ráðh., að það hafi bætt aðstöðu sumra bænda, þegar byggðin grisjaðist og þeir fengu eyðijarðir til viðbótar við sínar jarðir, þeir sem eftir sátu. Í sumum tilfellum kann þetta að vera rétt, þar sem sauðfjárrækt er stunduð í stórum stíl, ef viðkomandi bændur ráða þá við að smala þessi stóru lönd. En það er nú ekki alls staðar, sem þeir hafa í raun og veru ráðið við það, og víða hafa girðingar, sem eru nauðsynlegar fyrir búskapinn, fallið í vanhirðu vegna þess, að bændur hafa ekki ráðið við að stækka svo við sig löndin.

Þeir bændur t. d., sem stunda mjólkurframleiðslu, eiga ekkert að gera við stórar jarðir. Það hefur ekkert gildi fyrir þá, af því að þeir komast ekki yfir að nytja þær eða hirða. Þeir þurfa að hafa aðeins nóg land til ræktunar, en víðátturnar hafa enga þýðingu fyrir mjólkurframleiðslubændurna.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, þegar hann var að svara hv. 5. þm. Norðurl. e., að það þyrfti að sameina fleiri jarðir, svo að þær yrðu betri bújarðir. En ég hef nú bent á, að það er ekki nema þá á stöku stað, sem slíkt á við. Það er hægt að benda á það, og það er eftirtakanlegt í sumum sveitarfélögum, sem ég þekki til á Suðurlandi, að þar sem fólkið er flest og hver jörð er setin, þar er afkoma fólksins bezt. Þar er fólkið ánægðast, þar er félagslíf í blóma, þar verða störfin léttust hjá fólkinu, og þar er öryggið mest, ef eitthvað ber út af með heilsufar eða ef eitthvað kemur fyrir, því að þá er hjálpin nærtæk, og þar sem fjölmenni er og margmenni í sveitarfélagi, þar eru skilyrði til þess að koma til hjálpar, ef eitthvað ber út af. Ég get t. d. nefnt sveitarfélag eins og Hrunamannahrepp í Árnessýslu, sem er svo þéttsetinn af fólki, að ég held, að það sé í raun og veru ekki pláss fyrir fleiri, eins og nú standa sakir. Ég held, að það sé ekki víða, þar sem fólk er ánægðara og því líður betur en einmitt í þeirri sveit, af því að það finnur til öryggiskenndar og það getur veitt sér hollt og heilbrigt félagslíf, sem er nauðsyn á okkar dögum.

Ég hygg, að við séum flestir sammála um það, að við Íslendingar hljótum eins og flestar aðrar þjóðir að byggja landbúnað okkar á ræktun. Flestar þjóðir verja miklu fé til þess að halda landbúnaði sínum í horfi, efla hann og styrkja. Valda þar um bæði efnahagslegar og þjóðernislegar ástæður. Og við þurfum á því að halda eins og aðrar þjóðir að varðveita okkar þjóðerni, halda landi okkar í byggð eins mikið og við getum og vernda það fyrir eftirkomendur okkar og komandi kynslóðir.

Þó að ég hafi nú stundum deilt hér við hæstv. landbrh. um málefni bændanna, skal ég játa það, að ég hygg, að við eigum báðir það markmið að vilja bæta hag bænda. Það takmark næst ekki með því að telja upp, hvað ærgildum hefur fjölgað á meðalbúi og hvað sáð hefur verið í marga hektara á ári. Þó að það sé gott að vita til þess, að meðalbúið hefur nokkuð stækkað, þá væri þó hitt enn betra, ef það væri hægt með fullgildum rökum að sanna það um leið, að hagurinn hefði blómgazt og batnað. En því miður er það ekki, eins og ég hef reynt að draga nokkur rök að. Það segir ekki a. m. k. nema hálfan sannleikann um hag bændanna og stöðu landbúnaðarins sem atvinnuvegar, þó að við getum bent á, að meðalbúið hafi nokkuð stækkað. Það er fyrst og fremst góður efnahagur, traustur efnahagur, sem er bændunum sjálfum og þjóðinni allri brýnasta nauðsyn.

Ríkisvaldið hefur á okkar dögum miklar skyldur að rækja við atvinnuvegi og þegnana í hverju landi og ekki sízt hjá okkur Íslendingum, sem erum sífellt að nema okkar land og eigum ákaflega mikið ógert í því, bæði við sjávarsíðuna og til sveitanna. Bændurnir eru hlekkur í þeirri keðju, sem bindur lífakkeri lands og þjóðar, og þess vegna verður að treysta eins og mögulegt er öryggi fyrir því, að þeir geti haldið störfum sínum áfram nokkurn veginn óháðir. Ef bændastéttin flosnar upp frá jörðum sínum og getur ekki lifað við allgóð og traust lífskjör, verður ekki heldur lengi traustur grundvöllur undir ráðherrastólnum, sem hæstv. landbrh. situr í eða aðrir ráðh. sitja í. Það fer að hrikta í valdastólum, ef atvinnulífinu er ekki fullur skilningur og sómi sýndur bæði til lands og sjávar. Báðir höfuðatvinnuvegirnir, landbúnaður og sjávarútvegur, geta veitt og munu veita þúsundum manna viðurværi á óbeinan hátt í æ ríkara mæli, eftir því sem tímar líða, með vinnu við iðnað. Það sást bezt nú í vetur, þegar verksmiðjurnar brunnu á Akureyri, hvaða störf það voru, sem fólkið þar missti um sinn. Það var vinna við það að breyta framleiðsluvörum bændanna í dýra útflutningsvöru. Það voru bændurnir, sem höfðu lagt til hráefnið í þessa mikilvægu iðngrein, sem þarna er stunduð, og ég hygg, að þá hafi mörgum fyrst opnazt sýn um það, hverja þýðingu landbúnaðurinn getur haft líka fyrir iðnaðinn í landinu og fyrir fólkið í þéttbýlinu. Þessi störf má enn auka, það er ég sannfærður um, og margfalda, ef búið verður svo að bændastéttinni, að hún verði fær um að rækja sitt mikilvæga hlutverk.

Það er hart, að í hvert sinn sem við framsóknarmenn berum hér fram á hinu háa Alþ. till. um stuðning við landbúnaðinn og þá, sem hann stunda, þá skuli sjálfur landbrh. rísa hér upp með þá fullyrðingu, að bændastéttin hafi svo góð lífskjör, að þau hafi aldrei verið betri. En þetta er hans venja. Í hvert skipti sem við berum hér fram einhvers konar málefni, sem eiga að verða til stuðnings við landbúnaðinn, þá kemur hann upp í þennan ræðustól og víða annars staðar og blæs sig út um það, hvað bændur búi nú við góð kjör og þau hafi aldrei verið betri áður. Ég kann illa við þetta og ég trúi því ekki, að hann trúi þessu sjálfur. Ég veit, að hann er manna kunnugastur landbúnaði og bændastéttinni, og hann veit, að þar eru miklir erfiðleikar núna og hafa verið að aukast einmitt í hans stjórnartíð vegna þeirrar stjórnarstefnu, sem rekin hefur verið. Hún hefur farið þannig með bændastéttina, eins og hann hlýtur bezt að vita sjálfur. Mér finnst, að þessar aðferðir hæstv. landbrh. líkist mest barnalegri afbrýðisemi í garð okkar. Ég get vel skilið það, að ráðh. hafi metnað og vilji setja sinn stimpil á allar úrlausnir, sem gerðar eru í sambandi við landbúnaðarmál af hálfu hins opinbera. En þó að hann hafi viljað bændum vel, fer það ekki leynt, eins og ég hef bent á, að þeir eru tekjulægsta stéttin í landinu. Og það er líka opinbert mál, að allt of margir þeirra eru sokknir í skuldir, sem þeir ráða ekki við. Það er líka vitað mál, að fram undan er nú og þarf að vinna að því á næstu árum að byggja upp nýjar vinnslustöðvar fyrir afurðir þeirra, eins og t. d. sláturhús. Og ég veit, að það mun kosta of fjár að breyta þessum vinnslustöðvum landbúnaðarins í það horf, sem nútíminn sættir sig við, svo að við getum borið höfuðið hátt gagnvart þeim, sem við viljum hafa viðskipti við, bæði innanlands og utan. En það getum við ekki í dag. Við höfum ekki svo góðar vinnslustöðvar fyrir sauðfjárafurðir landbúnaðarins, að við getum verið stoltir af því. Þar þarf miklar umbætur að gera á næstu árum.

Allt þetta og margt fleira verður að leysa, og það verður að gera með samstarfi margra manna, bæði hér á Alþ. og meðal bændastéttarinnar og forustumanna hennar. Þó að ég geri ekki lítið úr dugnaði og áhuga núv. hæstv. landbrh., þá hygg ég, að hann leysi þessi mál ekki einn. Hann ætti frá mínu sjónarmiði þess vegna að taka vel hverri þeirri viðleitni, sem aðrir en hann og hans samherjar sýna til þess að lagfæra þessi mál bændanna, sem ég hef gert hér að umtalsefni, og mörg önnur, sem ég hef ekki nefnt hér. Ég fyrir mitt leyti hef ekki og mun ekki kvarta undan því, þó að hæstv. landbrh. sé ómjúkur í garð okkar framsóknarmanna. „Þeim var ég verst, sem ég unni mest,“ sagði Guðrún Ósvífursdóttir. Hæstv. landbrh. var einu sinni fyrir löngu í Framsfl. Það er víst nokkuð algengur kvilli að óttast þá, sem menn einu sinni hafa sagt skilið við, og vilja í engu á þá hlusta. Og mér finnst, að þessi kvilli sé nokkuð áberandi hjá hæstv. landbrh.

Málefni atvinnuveganna eru alvarlegri en svo, að réttlætanlegt sé vegna flokkslegra væringa að ónotast út af till., sem fluttar eru í því skyni að ráða bót á vandræðum, og í því skyni einu er það frv. flutt, sem hér er til umr. og hv. 5. þm. Norðurl. e. flutti hér framsöguræðu fyrir í des. s. l. Ég vil því eindregið mælast til þess við hæstv. landbrh., að hann flýti fyrir þeirri lausn á skuldamálum bænda, sem felst í þeim frv., sem við höfum flutt, bæði því frv., sem hér er til umr., og frv., sem flutt er af framsóknarmönnum í Ed. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þetta eru núna mest aðkallandi mál fyrir bændur. Í næstu röð kemur svo spursmálið um áburðarverðið í vor. Hvað ætlar ríkisstj. að gera í því máli? Það er sú spurning, sem brennur núna, að ég hygg, á vörum hvers einasta bónda í landinu. Hækki áburðurinn enn í verði, eins og ætla má af völdum gengisfellingarinnar og menn þekkja af reynslunni, þá er víst, að á stóran hluta af þeirri nýju ræktun, sem hæstv. landbrh. er svo drjúgur yfir, verður ekki borið í sumar. Ég veit, að ég þarf ekki að útskýra það hér, hvaða afleiðingar slíkt hefði, ekki einasta fyrir bændastéttina, heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Það er beðið áreiðanlega núna í sveitum landsins með óþreyju eftir því að heyra eitthvað um það, hvað stjórnin ætlast fyrir í þessu efni, og þess vegna hef ég nú það mín síðustu orð, að ég ber þá spurningu hér fram til hæstv. landbrh.: Hvað er ákveðið að gera í því með áburðarverðið á komandi vori?