24.02.1969
Neðri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég stanzaði í ræðu minni, þegar hæstv. landbrh. hafði gengið frá. Ég vildi ekki vera að tala til hans, þegar hann væri ekki viðstaddur. Hann hélt hér mikla ræðu, þegar þetta mál var á dagskrá hér um daginn, og hann var eitthvað svo kvartsár og ólíkur sjálfum sér orðinn, meyr og siðavandur við þm. og talaði mikið um óheiðarleika í öllu, sem við sögðum, við hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég fyrir mitt leyti kann ekki við þennan tón hjá hæstv. ráðh. Ég vil langtum heldur, að hann sé harðvítugur og skammi okkur andstæðinga sína. En mér fannst einhvern veginn, að maður, sem er orðinn svona siðavandur eins og hæstv. ráðh., hann ætti eiginlega frekar að vera prestur eða biskup heldur en vera stjórnmálamaður, því að það veitir ekki af að vera dálítið harður af sér í því starfi. En ég kann nú eiginlega ekki við það og veigra mér heldur við því að vera hér að deila við þennan ágæta hv. samþingismann minn, sem hæstv. landbrh. er. Mér fellur á marga lund vel við hann og þykir leiðinlegt að þurfa að vera að deila við hann hér. En mér fannst ég ekki geta annað en komið hér upp í ræðustólinn til þess að svara nokkrum atriðum, sem fram komu í ræðu hans og hann beindi aðallega til mín.

Hæstv. landbrh. spurði í sambandi við þetta frv. okkar, hvað mundi hafa orðið um stofnlánadeildina t. d. nú í þetta sinn, ef þetta frv. hefði orðið að lögum fyrir áramótin, því að þá hefðu menn ekki greitt af lánum sínum, þá hefði það dregizt. Ég hygg, að það sé nú þannig með flesta, sem lán fá nú orðið í stofnlánadeildinni, að lánin gangi upp í það að greiða af fyrri lánum, svo að það hefði ekkert annað skeð á þessum mánuðum en það, að þetta hefði verið óuppgert og dregizt, þangað til nýrri skipan hefði verið komið á þessi mál, og ég hygg, að það liggi nú í loftinu, að hæstv. ráðh. muni beita sér fyrir því að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, og þá hefði auðvitað þetta uppgjör farið fram um leið. Ég held því, að stofnlánadeildin hefði ekkert sérstaklega liðið af þessum sökum. Hún fær líka talsvert fé á annan hátt en með afborgunum af lánum, árgjöldum, þar sem er skatturinn af bændum og neytendunum og framlag ríkissjóðsins, þannig að ég hygg, að það hefði ekkert skeð háskalegt þessa mánuði af þeim sökum hjá henni.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefði verið minna nú um áramótin s. l. ógreitt af lánum bænda hjá stofnlánadeildinni heldur en á sama tíma í fyrra. En samkv. því, sem stofnlánadeildin sjálf gefur upp um þetta, var það þannig, að vanskil af heildarupphæð voru 31. des. 1967 53% eða 62.4 millj. og núna 31. des. 1968 voru þau 60% eða 77.7 millj., enda hefur stofnlánadeildin auglýst það, að hún láni ekki neitt núna nema til allra nauðsynlegustu framkvæmda. Ég hef hér í höndum auglýsingu frá stofnlánadeildinni, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í endinn á þessari auglýsingu: „Stofnlánadeildin telur ástæðu til að hvetja bændur til ýtrustu varkárni með byggingarframkvæmdir og aðra fjárfestingu á árinu og telur horfur á, að ekki verði unnt að gefa lánsloforð nema til alveg bráðnauðsynlegra framkvæmda.“ Ég hygg, að þessi tilkynning stafi af því, að stofnlánadeildin sé hrædd um það, að hún fái ekki greiðslur af árgjöldum og geti þar af leiðandi ekki veitt lán. Það er ekki af því, að henni sé ekki vel kunnugt um það, að í sveitum landsins er enn þá mikið ógert. Það þarf mikið að byggja og það þarf mikið að rækta á Íslandi enn þá. Og við vitum það, að allar framkvæmdir og byggingar og ræktun þarf síns viðhalds með og það þarf að endurnýja þessar framkvæmdir, en það verður ekki gert nema með stuðningi frá lánastofnun.

Ráðh. sagði, að það væri mikil gróska í búskapnum á Suðurlandi og hann vissi ekki til þess, að jarðir þar væru að fara í eyði, og hann sagði líka, að framleiðslan færi vaxandi. Ég get vel tekið undir það með ráðh., að á Suðurlandi eru mjög margir ágætir bændur, sem betur fer. Það er ekki svo illa komið, að það séu ekki margir góðir bændur til enn þá í landinu. Skárri væru það nú ósköpin. Að vísu er þessi ríkisstj. búin að vera við völd í 9 ár, en bændur eru seigir og þola talsvert margir hverjir. Og það hafa alla tíð verið til góðir bændur á mestu hörmungartímum þjóðarinnar, meira að segja voru til ýmsir bændur, sem stóðu upp úr og voru traustir efnalega, og svo er það enn í dag, og það er talsvert mikið til af slíkum bændum á Suðurlandi. En því miður eru hinir líka mjög margir og allt of margir, á Suðurlandi ekki síður en annars staðar, sem hafa erfiðan fjárhag og allt of erfiðan. Og framleiðslan hefur farið minnkandi núna undanfarið. Það var nokkur minnkun á mjólkurframleiðslunni á árinu 1967. Og enn gerðist það sama á árinu 1968, þá minnkaði hjá sunnlenzkum bændum mjólkurframleiðslan um 2.5%. Það var 880 þúsund lítrum minna, sem Mjólkurbú Flóamanna tók á móti á s. l. ári heldur en á árinu áður. Það gerir sjálfsagt um 9 millj. í tekjuskerðingu fyrir bændur á Suðurlandi. Þá get ég upplýst ráðh. um það, að ég veit til þess, að á Suðurlandi hafa ýmsir hætt algjörlega við mjólkurframleiðslu, og hún hefur hraðminnkað núna. Það stafar að vísu eitthvað af lélegri heyjum en verið hafa undanfarið. Ég get nefnt sem dæmi 2 hreppa, þar sem ég er mjög vel kunnugur í báðum þeim hreppum. Í öðrum hreppnum standa auðir á fjórða hundrað básar í nýlega byggðum fjósum, sem er búið að tæma. Og í hinum hreppnum standa auðir á annað hundrað básar, líka í ágætum nýlega byggðum fjósum. Það segir til sín þetta í framleiðslunni, og menn hætta ekki þessari framleiðslu nema af því, að þeir telja hana ekki hagstæða og telja sig ekki geta lifað á þessari framleiðslu. Ég get ekki ímyndað mér, að það sé af öðru. Margir þessara bænda sitja í húsum á þessum jörðum og sumir stunda atvinnu í þorpum til þess að hafa ofan af fyrir sér með. Það sést í nýjasta hefti Hagtíðinda, að mjólkurkúm hefur fækkað á árunum 1966 og 1967 um 5000 á öllu landinu. Sauðfé hefur á sama tíma — að vísu ekki fækkað svo mikið, en það eru þó um 19 þús. sauðkindur, sem hefur fækkað um á þessum árum. Ef þessar kýr stæðu allar mjólkandi á básunum sínum, þá mundu þær sennilega skapa um 15 millj. lítra af mjólk, og það hefði sannarlega ekki veitt af því núna hér á Suðurlandi, að við bændurnir hefðum getað haft meiri mjólk til sölu. Það hefur orðið að skrapa saman hingað og þangað, inn til dala og út um strandbyggðir norðanlands í vetur, mjólk til þess að flytja hingað suður á Reykjavíkurmarkaðinn með ærnum kostnaði og hefði ekki verið hægt nema af því, að tíðin hefur verið alveg sérstaklega hagstæð. Þetta er auðvitað mikið hættuspil fyrir þennan mikla neytendafjölda hér við Faxaflóa. ef þessi framleiðslugrein rýrnar mikið og dregur úr henni. Bændurnir, sem stunda þetta, þurfa að geta búið við svo góð kjör, að neytendurnir séu nokkurn veginn öruggir um það, að þeir geti útvegað þeim þessa nauðsynlegu vöru daglega.

Ég tók eftir því, að þegar hæstv. landbrh. var kominn á búnaðarþing, — ég hlustaði á ræðu hans þar, — þá var þó nokkuð annað hljóð komið í strokkinn hjá honum heldur en þegar hann var að tala til mín hér á dögunum. Þá sagði hann, að 3.4% bænda væru svo illa staddir, að þeir yrðu að hætta búskap, nema þeir fengju einhverja sérstaka hjálp til að geta haldið áfram, þ. e. a. s. um 160 bændur. Og það er það sorglega við þetta, að að líkindum eru þetta yngri mennirnir úr hópi bændastéttarinnar, sem svona er ástatt fyrir. Það eru mennirnir, sem hafa byrjað búskap á undanförnum svokölluðum viðreisnarárum og orðið að kaupa vélar og bústafn og framkvæma margt og taka mikil lán einmitt á þessum erfiðu tímum fyrir búskapinn.

Þá sagði ráðh. á búnaðarþinginu, ef ég hef tekið rétt eftir, að það mundu vera um 19% bænda þar fyrir utan, sem þyrftu sérstaka fyrirgreiðslu til þess að geta haldið áfram búskap. Þetta kalla ég háa tölu. Þetta munu vera um 10–12 hundruð bændur, sem þá er svo komið fyrir, að þeir þurfa alveg sérstaka hjálp til þess að geta haldizt við búskapinn.

Ég veit, að hæstv. landbrh. þykir ekki skemmtilegt að þurfa að gefa svona skýrslu, því að ég efast ekkert um, að hann hefði viljað, að þetta væri á annan veg. Mér dettur ekki í hug að halda annað.

Og þá sagði hæstv. ráðh. um þau 77%, sem þá væru eftir af bændum, að mikið af þeim væru menn með ágætar aðstæður, en þó mundu þar vera innan um menn, sem þyrftu að fá lausaskuldum sínum breytt í föst lán. Hafi ég tekið rétt eftir því, sem hann sagði, þá var það svona. Og þetta er sannarlega ekki glæsilegt, því að ég verð að álíta. að a. m. k. hér á Suðurlandi hafi verið góðæri, — ja, ég vil segja síðan 1955. Það hefur ekki komið nokkurt erfitt ár hér á Suðurlandi síðan 1955. Annað mál er það á Norðurlandi, þar sem hafa gengið mikil harðindi. Þar hefur náttúrlega verið erfiðara. Hér á Suðurlandi höfum við bændur ekki haft ástæðu til að kvarta undanfarin 13–14 ár.

Þetta er útkoman eftir þessi viðreisnarár, og í ofanálag á þetta er það þannig, að það getur enginn bóndi, sem af einhverjum ástæðum þarf að hætta, annaðhvort vegna elli eða heilsubrests, selt eignir sínar. Það kaupir enginn, það verður að láta þetta af hendi fyrir svo að segja ekki neitt.

Hæstv. landbrh. sagði, að það hefði aldrei fyrr en í hans stjórnartíð verið hugsað um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Átti hann þá við 1962, þegar hann beitti sér fyrir því, og þetta var nauðsynlegt vegna þess, hvernig upphaf viðreisnarinnar verkaði á bændastéttina, gengisfellingarnar 1960 og 1961. En það var ekki liðið lengra en fram á árið 1962, þegar varð að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, sem margir höfðu þá mikið gagn af að vísu. En það er ekkert undarlegt, þó að þetta hafi ekki verið gert áður, því að þess hefur aldrei þurft, þess hefur aldrei verið óskað. Það hefur verið búið þannig að landbúnaðinum á áratugunum áður, að það þurfti ekki að gera þetta. Það komu engar óskir fram um slíkt frá bændunum.

Ráðh. segir, að það hafi orðið mikil eignaaukning hjá bændum á s. l. árum, og ekki skal því neitað, að það hefur ýmislegt verið keypt. Það hafa verið keyptar vélar og húsgögn og bílar, eins og hann sagði, sjónvarpstæki og þess háttar, eins og hann var að tala um, og hann furðaði sig ekki á því, þó að það hefðu safnazt lausaskuldir, þegar menn hefðu verzlað svona mikið og keypt hitt og þetta af þægindum og húsgögnum. En ég verð nú að segja það, að það er nú ekki beisinn atvinnuvegur, sem getur ekki veitt fólki þau þægindi, að það geti átt stól til að sitja í — og ég vil segja bíl nú á þessum tímum. Það er í raun og veru ekki hægt að vera sveitabóndi nú á tímum nema eiga farartæki, svo að mér finnst þetta ekki nein sönnun fyrir því og ekki til þess að réttlæta það, að skuldasöfnun hefur orðið. Hún hefur vitanlega orðið vegna þess, að atvinnuvegurinn, tekjur bændanna hafa ekki getað staðið undir þeim lífsnauðsynlegu þægindum, sem þeir þurfa að veita sér ekki síður en annað fólk.

Já, vinnandi stéttir landsins hafa sopið illt seyði af gengisfellingunum, sem hafa farið fram hér á landi 4 sinnum á undanförnum 9 árum, og þeirri óstjórn, sem af því hefur leitt á efnahagsmálum á öllum sviðum. Þó hefur, held ég, engin stétt farið eins illa út úr þessu eins og bændastéttin. Mér dettur í hug í sambandi við það saga af sparisjóðsbók einni, mig langar til að segja þá litlu sögu:

Það var árið 1941, sem bóndi einn austur í Árnessýslu lagði 10 lambsverð inn í sparisjóðsbók handa syni sínum. En þessi sonur hans var þá í heimanbúnaði, ætlaði að fara út í heiminn, ætlaði að hverfa úr föðurgarði, og bóndinn vildi ekki skilja þannig við son sinn, að hann léti hann ekki hafa eitthvað úr búi sínu til þess að grípa til, ef á þyrfti að halda. En það fór nú þannig fyrir þessum syni bóndans, að hann kom sér vel áfram, varð dugandi maður og þurfti ekki að grípa til sparisjóðsbókarinnar. Hún hefur þess vegna legið alla tíð í skúffu hjá honum. Hann hefur ekki látið færa inn vextina og vaxtavextina fyrr en núna fyrir áramótin í vetur. Það eru liðin 27 ár síðan þetta gerðist, eins og ég sagði áðan, 1941. Nú lét hann færa inn vexti og vaxtavexti af þessum 10 lambsverðum í sparisjóðsbókina sína fyrir áramótin, og það stóð alveg heima, að þegar búið var að leggja saman í bókinni, þá var í henni nákvæmlega eitt lambsverð. Og hvað er svo hægt að kaupa fyrir þetta eina lambsverð? Það er hægt að kaupa hérna úti í næstu búð eina miðlungsdýra reykjarpípu fyrir þetta eina lambsverð, — ég spurði um verð á þeim þar í morgun. Ég nefni þetta sem dæmi.

Nei, það fór því miður fyrir hæstv. landbrh. og hans félögum í hæstv. ríkisstj. líkt og vinnumönnunum á kirkjustaðnum, sem segir frá í gamalli sögu. Þá langaði til að efnast og bæta hag sinn, alveg eins og ríkisstj. langaði til að bæta hag þjóðarinnar, — ég efast ekkert um það, — svo að þeir fundu upp á því, að þeir fóru út í kirkjugarð og ætluðu að vekja þar upp einn af þeim framliðnu til þess að afla sér auðsins. Ríkisstj. hins vegar fann upp viðreisnina. Þeir vöktu upp einn náunga. En þegar hann kom upp úr gröfinni, þá vildi svo illa til, að þetta var gamall strandmaður og talaði ekki íslenzku, heldur eitthvert mál, sem þeir skildu ekki, svo að þeir réðu ekki við hann, hvorugir skildu aðra. Og það hefur farið eins fyrir hæstv. ríkisstj. að þessu leyti. Viðreisnin og ríkisstj. hafa hvorug skilið aðra, og út úr þessu hefur komið sá óskapnaður, sem við öll eigum nú við að búa, og þau vandræði í efnahagsmálunum, er allir kannast við.