24.02.1969
Neðri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í C-deild Alþingistíðinda. (2651)

90. mál, greiðslufrestur á skuldum bænda

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir um það bil einni viku urðum við hér í deildinni áheyrendur að spjalli þriggja samherja í stjórnarflokkunum. Þeir, sem tóku þátt í þessu, voru hv. 9. landsk. þm., Bragi Sigurjónsson, hv. 11. landsk. þm., Bjartmar Guðmundsson, og hv. 4. þm. Norðurl. v., Pálmi Jónsson. Þeir töluðu um landbúnaðarmál, enda var á dagskránni frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins, sem einn þeirra hefur borið fram. Þeir félagar settu dálítinn sjónleik á svið hér í þingdeildinni, vildu láta líta svo út sem þeir væru örlítið ósammála. Þeir voru þarna að látast eins og börnin stundum. Ekki fannst mér sjónarspil þeirra takast með neinum ágætum, enda sagði einn þeirra, að þeir leikararnir ættu stundum dálítið erfitt með að skilja hver annan. Ég held, að það komi ekki svo mjög að sök, þó að skilningurinn sé ekki fullkominn. Allir þessir góðu drengir eru innilega sammála um að fylgja mömmu sinni, þ. e. a. s. ríkisstj., hvað sem hún gerir. Hér á þingi greiða þeir allir atkvæði um öll mál, sem nokkra þýðingu hafa, þar með talin landbúnaðarmál, nákvæmlega eftir fyrirmælum mömmu. Má því segja, að þetta séu góð og hlýðin börn. En það er verst, að mamman, þ. e. a. s. hæstv. ríkisstj., er ekki nógu vel hæf til að ala upp krakka. Stjórnarheimilið er ekki gott, því miður. Að vísu fara ekki sögur af miklum deilum þar, enda held ég, að hæstv. forsrh. hafi sagt hér á þingi í vetur, að ráðh. allir væru á einu máli. Líklega er samkomulagið þar allgott hjá húsbændum og krökkunum. En gallinn er bara sá, og hann er stór, að samkomulagið þar er um vitleysur, margar og stórar. Og þetta hefur orðið allri þjóðinni dýrt. Það hefur valdið henni miklu tjóni. Þess vegna er stjórnarheimilið vandræðaheimili, og líklega ætti barnaverndarnefnd að hafa þarna nokkurt eftirlit. (Gripið fram í.) Ég veit nú ekki, hæstv. forseti, kannske væri rétt, að ég frestaði framhaldinu. (Forseti: Sér hv. þm. sér fært að ljúka ræðu sinni fyrir kl. 3?) Það er afar hæpið, held ég, en við skulum sjá, ég er ekki vanur að vera margorður. Við skulum sjá, ef hæstv. forseti vill, að ég haldi áfram.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, var fyrst tekið til umr. 18. des. í vetur. Þar flutti hæstv. landbrh. ræðu, og hann talaði þar m. a. um útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur, sem núv. ríkisstj. hefði komið á, og sagði, að þetta hefði oftast nægt til þess, að bændur hefðu fengið fullt verð fyrir alla framleiðsluna, en svo hefði ekki verið áður en núv. ríkisstj. kom til valda. Þá hefðu bændur orðið sjálfir að bera hallann af því, sem út var flutt. Þarna skrikaði hæstv. ráðh. fótur. Hann hlýtur að vita það, að á þeim tíma höfðu bændur rétt til þess að jafna hallann á útflutningnum með hækkun á verði á því, sem þeir seldu innanlands, og þessi réttur þeirra hafði verið staðfestur með hæstaréttardómi, svo að þarna hefði hæstv. ráðh. getað sagt rétt frá.

Hæstv. ráðh. sagði í þessari sömu ræðu, að þegar núv. ríkisstj. kom til valda, hefði verið breytt um landbúnaðarstefnu, tekin upp ný stefna. Þetta er að vissu leyti rétt hjá hæstv. ráðh. Og nýja stefnan var sú að þrengja kosti bændastéttarinnar með ýmsu móti. Við framkvæmd á þessu kom til Teits og Siggu, eins og segir í gömlu máltæki. Einn af ráðh. er allra fremstur þeirra að því leyti, að hann flytur flestar ræður, en það er, eins og allir vita, hæstv. menntmrh. og viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, doktor að nafnbót. Ef til vill flytur hann einn jafnmargar ræður og allir hinir. Við öll tækifæri, sem bjóðast, talar hann og talar um flest milli himins og jarðar og þar á meðal um landbúnaðarmál. Það hefur komið í hans hlut að marka stefnuna í þeim málum og lýsa henni í töluðu máli. Þetta hefur hann gert árlega, einkum á kaupmannafundum. Og hæstv. ráðh. hefur gert þetta mjög skilmerkilega, eins og hans er von og vísa. Þegar hann er þannig búinn að marka stefnuna og lýsa henni glögglega fyrir kaupmönnum og öðrum landsmönnum, þá kemur til kasta Siggu, þ. e. a. s. hæstv. landbrh., að annast um framkvæmdina, — þegar Teitur er búinn að lýsa stefnunni. Nú er það svo um þessa hæstv. ríkisstj., að stefnufesta mun ekki verða fyrirferðarmikið orð í ævisögu hennar. En þó má segja, að þessi stefna hennar í landbúnaðarmálum, að þjarma að bændum með ýmsu móti, hefur tekizt svo vel, að bændur eru nú og hafa verið um skeið tekjulægsta stéttin í þjóðfélaginu samkvæmt því, sem opinberar skýrslur herma. Stjórnin hefur komið þessu fram með ýmsu móti. Ég ætla aðeins að nefna hér eitt dæmi um hernaðaraðgerðir hennar gegn bændum. Það er skatturinn á bændurna. Snemma á valdaferli sínum fékk hæstv. stjórn þinglið sitt til að samþ. lög um að leggja sérstakan skatt á bændur, allþungan, og skyldi hann renna til einnar deildar í Búnaðarbankanum. Þetta þekktist ekki áður. Fyrir daga þessarar stjórnar þurftu bændur ekki að borga neinn slíkan skatt. Þó fengu þeir framkvæmdalán í Búnaðarbankanum á þeim tíma engu síður en nú og með miklu hagstæðari vöxtum en nú eru. Innheimta þessa skatts á bændur hófst 1963, og nú um næstliðin áramót, — í árslok 1968, var þessi skattur orðinn með vöxtum og vaxtavöxtum samtals yfir 92 millj. kr. Ég held, að landbrh. ætti að endurgreiða bændum þennan skatt. Það kæmi sér vel fyrir þá nú á erfiðleikatímum að fá þetta endurborgað. Ég skal að vísu játa, að það er ekki víst, að það sé svo auðvelt fyrir Siggu að borga þetta út nú þegar. Í fyrsta lagi getur skeð, að Teitur banni henni það. Í öðru lagi er ég ekki öruggur um, að það sé nóg í peningabuddunni hjá hæstv. fjmrh. til þess að snara þessu út í einu vetfangi. En hérna mætti nota aðra aðferð. Stjórnin gæti látið tölvuna reikna út skattgreiðslu frá hverjum einstökum bónda frá upphafi og bæta þar við vöxtum. Og þessar upphæðir mætti færa hverjum einstökum bónda til tekna í sérstökum reikningi í Búnaðarbankanum. Það mætti setja reglur um það, að þetta yrði endurgreitt þeim — þessi inneign yrði greidd þeim á vissu árabili, svo gætu þeir líka notað þessar innstæður til þess, eftir því sem þeir þyrftu, að greiða með þeim árgjöld til stofnlánadeildarinnar af lánum, sem þeir hafa fengið þar. Þetta mundi, ef hæstv. landbrh. gæti komið þessu í framkvæmd, auka mjög veg hans. Þetta yrði honum til sóma. Náttúrlega þyrfti að gera meira. Um leið og þessi endurgreiðsla yrði ákveðin, þyrfti Alþ, að afnema þennan rangláta skatt, sem nú er lagður á bændur. En ef svo skyldi fara, að hæstv. landbrh. fengi ekki nógan stuðning til þess verks frá sínu liði í Alþfl. og Sjálfstfl., þá tel ég eiginlega víst, að framsóknarmenn á þingi væru fúsir til að rétta honum hjálparhendur við það nauðsynjaverk. Já, ég vil endurtaka það, að ég tel, að af þessu mundi hæstv. ráðh. hafa sóma, en hitt eykur ekki veg hans, að koma í þennan ræðustól, eins og hann gerir stundum, belgja sig hér út og fara með ýmsar fullyrðingar, sem hafa ekki við rök að styðjast.