04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

95. mál, Útgerðarstofnun ríkisins til atvinnujöfnunar

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð til þess að leiðrétta misskilning, sem mér skilst að hafi orðið hjá hv. frsm., ef hann heldur, að ég í ræðu minni áðan hafi verið að tala gegn togaraútgerð. Ég taldi mig ekki hafa komizt svo að orði, að þannig ætti eða mætti misskilja það, sem ég sagði. Ég get alveg fallizt á það, að það getur verið eðlilegt að halda uppi útgerð, þó að hún sé rekin með tapi, ef það er nauðsynleg undirstaða undir atvinnurekstri og vinnu fólks í landi. Hins vegar þýðir ekki að vera að berja höfðinu við steininn með það, að sú reynsla, sem fékkst af rekstri togara í eigu hins opinbera, bæjarfélaganna, á sínum tíma, varð mjög neikvæð og mjög dýr fyrir mörg sveitarfélög, þannig að þau fengu vart og ekki undir því risið sum þeirra. Það, sem ég vildi láta koma hér fram í sambandi við þetta mál, var það, að ég tel, að ef ríkisvaldið vill hafa einhver bein afskipti af öflun meira hráefnis til hinna ýmsu vinnslustöðva víðs vegar um land til atvinnuaukningar fyrir það fólk, sem þar býr, þá er hægt að gera það að mínum dómi á allt annan og miklu þjóðfélagslega séð betri hátt en þarna er lagt til.

Það var þetta, sem ég vildi láta koma fram og sérstaklega undirstrika, að ég tel, að þetta frv. stefni ekki í þá átt að skapa aukna atvinnu í sambandi við fiskiðnaðinn á eins hagkvæman hátt og ég hygg, að megi gera eftir öðrum leiðum, og ég lítillega kom hér inn á í minni fyrri ræðu.