13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

122. mál, hagtryggingarsjóður landbúnaðarins

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér um ræðir, er lagt til, að stofnaður verði sérstakur sjóður, svonefndur hagtryggingarsjóður landbúnaðarins, sem hafi það hlutverk að bæta bændum ýmisleg ófyrirsjáanleg og óviðráðanleg tjón, sem þeir verða fyrir af völdum illæris, náttúruhamfara o. s. frv. En svo sem alkunna er, eru ýmiss konar tryggingar tæki nútímaþjóðfélags til velfarnaðar þegnum sínum. Virðist gefa auga leið, að þessu tæki eigi ekki sízt að beita atvinnuvegunum til öryggis, enda hefur hér svo verið gert í talsverðum mæli hvað sjávarútveginn snertir, en hins vegar allt of lítið varðandi landbúnaðinn, en þar treyst meira á beina ríkishjálp, þegar á hefur bjátað. Nú höfum við Íslendingar mörg dæmi fyrir okkur, að landbúnaður er áhættusamur atvinnuvegur fyrir þá, sem hann stunda. Sjúkdómar hafa herjað bústofninn, svo að efnahagur margra bænda hefur beðið mikinn hnekki af. Slæmt árferði, svo sem ill veðrátta, hefur valdið stórfelldum fóðurbresti hjá bændum, og er skammt að vitna til undanfarinna kalára á Norður- og Austurlandi. Þá geta eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll og vatnsflóð valdið landbúnaði stórfelldum áföllum, en sjóðsstofnun þeirri, sem hér er gerð till. um, er ætlað það hlutverk að bera þessi blök af bændum að ákveðnum hluta. Lagt er til, að bændastéttin og ríkið byggi þennan sjóð upp eftir ákveðnum reglum, svo sem í frv. greinir, þ. e. að bændur greiði ákveðin gjöld í sjóðinn árlega af hverjum öfluðum heyhesti og keyptri kjarnfóðurlest og áburðartonni, en ríkið leggi jafnt á móti framlagi bænda og Búnaðarbanka Íslands, sem er ætlað lítilsháttar beint framlag, enda hafi sá banki sjóðinn í vörzlu sinni. Lagt er til, að stjórn sjóðsins sé í höndum Stéttarsambands bænda og landbrn., svo sem greint er í 3. gr. frv.

Eins og ég drap á fyrr, þá er Ísland áfallasamt til atvinnurekstrar bæði til lands og sjávar vegna misæris. Mundi fátt styðja atvinnuvegi okkar betur en öflugar tryggingar, sem gætu borið verstu áföllin af. Ýmislegu í þá átt höfum við komið á stofn, eins og ég hef áður drepið á, sem gefið hefur góða raun, en betur má, ef duga skal. Ríður þá á miklu, að atvinnuvegirnir sjálfir renni meginstoðum undir hagtryggingar sínar, því að þannig finna þeir, sem þá stunda og reka, mest til ábyrgðar sinnar varðandi það, að vel farnist, eftir því sem föng framast leyfa.

Varðandi stofnun hagtryggingarsjóðs landbúnaðarins er bændum ætlað að byggja hann upp að verulegum hluta sjálfum og hafa á honum stjórn að meiri hluta. Takist vel til um stofnun slíks sjóðs og framkvæmd, mætti svo fara, að landbúnaður okkar öðlaðist drjúgum meira öryggi um afkomu en hann býr nú við, jafnframt því sem hann hlyti af því aukna reisn og viðgang að koma á samtryggingu gagnvart ýmiss konar áföllum, en þyrfti sjaldnar og minna að leita til hins opinbera, þó að hallaðist á hesti. Umdeilanlegt er hins vegar, af hvaða einingum skuli reikna tillög til slíkra tryggingarsjóða og hve há slík tillög megi vera, svo að þau ofbjóði ekki þeim, sem atvinnuveginn stunda. Varðandi landbúnaðinn er hér horfið að því ráði að miða framlögin við undirstöðu rekstrareiningar, en ekki framleiðslu. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar lætur nærri, að á undanförnum 3 árum hafi heyfengur bænda verið um 3.2 millj. hestburða á ári, meðalkjarnfóðursnot yfir sama tíma um 48000 lestir árlega og meðaláburðarnot samkvæmt upplýsingum áburðarverksmiðjunnar reynzt 53000 lestir á ári. Gæfi þetta, miðað við 3 kr. af hverjum heyhesti, 200 kr. af hverri kjarnfóðurlest og 100 kr. af hverju áburðartonni, eins og lagt er til hér í frv., þá gæfi þetta um 25 millj. kr. í árstekjur í hagtryggingarsjóð frá bændastéttinni, 2.5 millj. frá Búnaðarbanka Íslands og loks 27.5 millj. kr. frá ríkinu, þannig að tekjur sjóðsins næmu um 55 millj. kr. á ári, miðað við líkar aðstæður og hér er að framan getið. Gæti sjóðurinn því orðið allöflugur innan tíðar og veruleg baktrygging landbúnaði okkar, ef ekki beinlínis lyftistöng. Nú er einmitt mjög um það talað, að landbúnaðinn þurfi að aðlaga breyttu þjóðlífi, bæði þeim, er stunda hann, til betri lífskjara og allri þjóðinni til meira hagræðis, en slíkt hlýtur alltaf að kosta verulega fjármuni.

Rétt þykir að fara örfáum orðum um það ákvæði frv., að Búnaðarbanki Íslands leggi hagtryggingarsjóði landbúnaðarins til nokkurt fé árlega. Í lögum bankans, 2. gr., segir, að tilgangur bankans sé að styrkja landbúnaðinn, og þegar haft er í huga, að verulegur hagnaður var af rekstri bankans s. l. ár, virðist ekki óeðlilegt, að nokkur hluti þess hagnaðar renni í tryggingarsjóð landbúnaðarins. Ætla má og, að umræddur tryggingarsjóður verði innan tíðar umtalsverðir fjármunir, sem bankanum er ætlað að ávaxta, þannig að hann öðlast með sjóðnum aukið fé til umsýslu.

Að lokum skal tekið fram, að flm. þessa frv. gengur þess ekki dulinn, að vel kann svo að vera, að tryggingarmálum landbúnaðarins megi betur fyrir koma en í frv. þessu er lagt til, og yrðu allar slíkar ábendingar vel þegnar, enda er þess vænzt, að Alþ. muni bæta um það, sem miður kann að þykja, í meðförum sínum á frv. þessu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.