13.02.1969
Neðri deild: 44. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2678)

122. mál, hagtryggingarsjóður landbúnaðarins

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að vekja athygli á því, að í 2. gr. frv., sem ég lýsti hér áðan, er einmitt tekið fram, hvernig ætlunin er, að gjald af heyfeng bænda sé fundið og hvernig það sé lagt á. Stendur í 2. gr.: „Gjald samkvæmt 1. gr. a-lið skulu sveitarstjórnir leggja á bændur ár hvert samkvæmt skýrslum forðagæzlumanna, og skal sú gjaldskrá liggja frammi jafnhliða skrám um opinber gjöld.“ Þarna er tekið fram, hvernig ég hugsaði mér, að þessi gjöld væru fundin og lögð á.

Varðandi það, að allir sjóðir hafi brunnið upp í óðaverðbólgu undanfarin ár, þá skal því að vissu marki ekki andmælt. En þó vil ég benda á það, að þeir sjóðir, sem hafa ávaxtað sig í fasteignum, eins og einmitt er gert ráð fyrir að þessi sjóður geri að nokkru leyti, þeir hafa vissulega aukizt og margfaldazt og dafnað vel, og þurfum við ekki annað en að vísa til atvinnuleysistryggingasjóðs, sem er nú öflugasti sjóður, að ég hygg, hér á landi og hefur gert atvinnuvegunum — að minni hyggju og að ég held fleiri — geysilegt gagn. Þess vegna er ég viss um, að svona sjóður gæti gert landbúnaðinum einmitt verulegt gagn, ef tækist að koma honum á fót.

Ég tók fram í niðurlagi ræðu minnar, að ég hefði einmitt velt því fyrir mér, hvort gjaldfóturinn væri rétt fundinn, og hann væri vissulega til athugunar. Það má vel vera, að þetta þyki of há gjöld. En á móti því, sem ég hygg að sjóðurinn kynni að veita landbúnaðinum, þá er það álitamál, hvort grundvallarbúið þarf að horfa í það að greiða um 5000 kr. á ári til þess að öðlast þá tryggingu, sem ég hygg að slíkur sjóður mundi veita, þegar hann væri kominn á laggirnar og farinn að starfa af fullum þrótti.