17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (2685)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera margorður um þetta frv., þar sem ég geri ráð fyrir því, að það verði sent til n., sem ég er í. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að segja hér örfá orð í sambandi við flutning þessa frv. á þessu stigi.

Landbúnaðarmál hafa verið mjög til umr. nú um sinn, og mér finnst, að mörg orð hafi fallið í þeim umr., sem bera vott um, vægast sagt, takmarkaðan skilning á þeim málum og aðstöðu þeirri, sem bændur eru í um þessar mundir. Það hefur verið mjög eftirtalið af ýmsum mönnum, að ríkið skuli hafa greitt og greiði enn nokkrar fjárhæðir, sem kallaðar eru uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, sem miðast að hámarki við það, að upp verði bættar þær vörur, sem úr landi eru fluttar, allt að 10% af allri framleiðslu landbúnaðarins. Þessi verðtrygging til handa bændum var sett með lögum frá 1960, og hafa það að mínu áliti orðið mjög farsæl lög að því er það snertir að tryggja hag bændanna betur en ella hefði orðið á því tímabili, sem liðið er síðan.

Það má segja, að þessar uppbætur séu orðnar nokkuð háar nú upp á síðkastið vegna þess, hvað verðbólgan hefur aukizt. Nú hefur hins vegar orðið allmikil breyting á þessu, svo að á þessu ári er talið, að fyrir landbúnaðarvörur, sem útfluttar eru, muni fást allt að því 80% af framleiðsluverði sauðfjárafurða.

Annað er það, sem mjög hefur verið á lofti haldið í sambandi við landbúnaðarmál, og það er það, að byggðin sé allt of dreifð og það eigi að færa hana saman, og margir hafa meira að segja sagt, að það væri þjóðþrifamál að fækka bændum verulega, vegna þess að þeir framleiddu of mikið af landbúnaðarvörum. Þetta má til nokkuð sanns vegar færa í góðærum, að landbúnaðarvörurnar hafa orðið heldur miklar fyrir innanlandsmarkað. En hins vegar er ekki lengi að verða breyting á, þegar harðnar í ári. Og meira að segja nú, strax á þessu ári, hefur það komið í ljós, að mjólkurframleiðsla hér á mjólkursvæði Reykjavíkur er mun minni en þörfin, svo að það hefur orðið að flytja mjólkurvörur norðan úr landi, sem kostar mjög mikið. Þetta sýnir aðeins það, að landbúnaðarvöruframleiðslan er svo miklum sveiflum háð eftir árferði, að það er mjög óvarlegt að miða við það að framleiða ekki meira handa þjóðinni en nægi, þegar góðæri er, því að þá mun fljótlega koma að því, að framleiðslan verði of lítil, þegar verr árar.

En eins og ég lofaði í upphafi, þá ætla ég ekki að gera þetta mál hér að neinu verulegu umræðuefni að þessu sinni, þar sem það mun eiga eftir að koma í n., en ég vil aðeins benda á það, að margt er í kringum landbúnaðarmál, sem þarf athugunar við, eins og réttilega kom fram í framsöguræðu hv. flm. En varðandi þetta frv. er rétt að benda á, að það hefur þegar verið skipuð n. af hálfu landbrh. til þess einmitt að gaumgæfa mörg atriði í sambandi við framleiðslumálin og gera till. um ýmislegt, sem gæti orðið til breytinga til bóta á þessu sviði. Og ég hygg, að óskynsamlegt sé að afgreiða þetta frv., fyrr en a. m. k. fyrir liggur álit þessarar nefndar.

Ég vil svo bæta því við í sambandi við þá kenningu, að færa eigi saman byggðina, að þá eru þar fleiri hliðar en sú að hugsa aðeins um það, að hæfilega sé framleitt af búvörum hverju sinni. Gangi eitthvert byggðarlag saman, fækki verulega fálki í einu byggðarlagi, er byggðarlaginu stór hætta búin öllu í heild. Þeir, sem eftir eru, eiga miklu örðugra með að haldast við, ef flótti hefur orðið úr byggðarlaginu. Og þá er mjög hætt við því, að eftir lítinn tíma komi að því, að byggðarlagið þurrkist út. Þetta er eitt höfuðatriðið, sem mælir á móti því, að það sé rétt stefna að fækka fólki í byggðarlögum, ef á annað borð er hugmynd þeirra, sem ráða þjóðfélaginu, að byggðin dragist ekki stórkostlega saman og að landið verði byggt mestallt, eins og hér er nú og hefur verið og á að vera að mínu áliti.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En landbúnaðarmál eru miklu flóknara viðfangsefni en mér virðist koma fram í ýmsum umræðum og ályktunum, sem um þau hafa verið gerðar nú upp á síðkastið, og ég vona, að þjóðin beri gæfu til þess að stuðla að því, að landsbyggðin eyðist ekki fram úr því, sem er, heldur að taka meira í hinn strenginn en mér virðist hafa verið gert nú upp á síðkastið.