18.02.1969
Neðri deild: 49. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var hér til 1. umr. í gær, ekki svo mjög til að ræða efnisatriði frv., heldur aðallega vegna ýmissa ummæla, sem komu fram í ræðu hv. flm., hv. 9. landsk. þm. Um frv. sjálft vil ég þó segja það, að ég mun leggja til, að það fái skjóta og þinglega afgreiðslu. Það er óskað eftir því, að því verði vísað til þeirrar hv. n., sem ég á sæti í, og ég mun leggja því lið, að það nái að komast svo langt. Hins vegar er þess eigi að vænta, að stuðningur minn við frv. nái lengra.

Frv. felur í sér, að skera skuli niður um helming það fé, sem verja má til útflutningsuppbóta, þannig að greitt skuli einungis sem svarar 5% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar í stað allt að 10%, svo sem gert hefur verið nú um nokkur undanfarin ár. Ég vil út af fyrir sig segja það, að ég tel mjög ómaklegt og óeðlilegt, að till. sem þessi komi fram, ekki sízt á tímum eins og þessum, þegar landbúnaðarframleiðslan hefur átt við erfiðleika að stríða vegna árferðis nú um 2–3 undanfarin ár, og ég vænti þess, að hv. þdm. taki það til athugunar, að bændastéttin hefur ekki átt við það góð kjör að búa þessi síðustu kuldaár, að hún megi við þessari skerðingu á tekjum.

Hv. 9. landsk. þm. komst þannig að orði í ræðu sinni, að að sínu áliti væru bændur ráðvillt stétt, sem fyndi jörðina skríða undir fótum sér. Þetta tel ég ranglát ummæli og ómakleg. Bændastéttin hefur frá upphafi vega stefnt að því að bæta þetta land. Hún er þjóðnýt stétt og þjóðholl, sem vinnur að því að auka framleiðslu til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og skila landinu betra til næstu kynslóðar, bæta það frá hverju ári til hins næsta, og ég tel fullkomlega óréttmætt að telja, að hún sé ráðvillt og að jörðin sé að skríða undan fótum hennar.

Hv. flm. talaði mikið um offramleiðslu í landbúnaði, og það hefur verið mjög í tízku síðastliðin ár að deila á bændastéttina fyrir þá stefnu, sem ríkt hefur, vegna þess að nokkuð hefur verið framleitt umfram það, sem neyzluþörfin hefur verið í landinu. Nú blasir það við, að mjólkurframleiðslan, sem að vísu hefur verið nokkuð mikil undanfarin ár, hefur dregizt svo saman, að hér á mjólkursölusvæði Reykjavíkur hefur þurft að flytja neyzlumjólk allt norðan frá Húsavík eða næstum því yfir hálft landið. Kjötframleiðslan og framleiðsla sauðfjárafurða er að vísu nokkru meiri en neyzlan innanlands, en við það er að athuga, að nú hafa verðhlutföllin orðið þeim mun hagstæðari en áður var, eins og fram kom hér í umræðunum í gær, að nú munu fást um það bil 80% af innanlandsverðinu á erlendum markaði. Vegna þess, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér í gær um þetta atriði, þá hlýtur að verða að miða við það verð, sem í gildi er.

Á síðasta ári voru samkvæmt því, sem segir í Hagtíðindum, sem liggja á borðum hv. þm., fluttar út landbúnaðarvörur fyrir 541 millj. kr. Ég hygg, að nokkuð mundi sjá á, fyrir þjóðarbúið, ef þessar gjaldeyristekjur skorti, og við vitum það, að eftir gengislækkunina í nóv. s. l. ár hefur verð þessara vara á erlendum markaði hækkað verulega í krónutölu, þannig að þess má vænta, að þessi upphæð verði drjúgum hærri á næsta ári.

Í grg. með frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Að sjálfsögðu ber að stefna að því, að útflutningsuppbætur séu alls ekki greiddar með vöru, sem engan þjóðhagslegan vinning gefur að framleiða til útflutnings.“ Ég vænti þess, að hv. flm. eigi við einhvern hluta af þeim framleiðsluvörum bænda, sem á síðasta ári voru fluttar út fyrir á sjötta hundrað millj. kr., sem sé að sú framleiðsla hafi ekki gefið af sér neitt þjóðhagslegt gildi. Annars væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hv. 9. landsk. þm., hvaða skilning hann vill leggja í þessi orð sín.

Hv. flm. minntist á það, að sumir teldu, að ekki væri lengur um neinn aðalatvinnuveg að ræða, þar sem landbúnaður væri. Ég get lítið um það sagt, hvað hinir og þessir telja, en ég vænti þess, að allir hv. alþm. séu þeirrar skoðunar, að landbúnaðurinn sé vissulega einn af höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar, og hann er einn af aðalundirstöðuatvinnuvegum þessarar þjóðar. Það er rétt, að bændastéttin er ekki fjölmenn, bændur eru nú rúmlega 5000 talsins, og það er ekki stór hópur af þjóðarheildinni, en þeir skila miklum verðmætum í þjóðarbúið, og þeir skapa mikla og vaxandi atvinnu fyrir aðrar stéttir þjóðfélagsins, og þarf ekki að eyða mörgum orðum til að skýra, hvað ég á við. Það er ljóst að í mörgum tilfellum hefur meginhluti fólksins í þorpum og kaupstöðum víðs vegar um land haft aðalatvinnu sína, óbeint eða beint, af ýmiss konar þjónustustarfsemi og iðnaði, sem bundinn er landbúnaðinum, og hygg ég, að hv. flm. þessa frv. ætti að vera það nokkuð kunnugt, þar sem ég man ekki betur en hann sé forseti bæjarstjórnar á Akureyri.

Þegar hv. 9. landsk. þm. talar um það, að bændastéttin sé ráðvillt stétt, sem finni jörðina skríða undir fótum sér og viti ekki, hvert skuli stefna, þá hefur hann ráðin á takteinum, og þau felast í því að skerða enn hlut þessarar stéttar. Ég hafði ætlað, að þessi hv. þm. og aðrir þdm. mundu haga sínum málflutningi og sínum tillöguflutningi á annan veg en hér kemur fram.

Ég ætla ekki að ræða þetta mál miklu lengur. Eins og ég sagði, mun því verða vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, en ég sá ástæðu til að vekja athygli á ummælum, sem fólust í framsögu hv. flm., sem mér fundust gersamlega ómakleg til handa bændastéttinni, og gat ekki látið vera að mótmæla þeim.