18.02.1969
Neðri deild: 49. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2689)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Stundum dettur manni í hug, hér í þessari hv. þingdeild, að þó að við tölum allir íslenzku, þá skiljum við ekki hver annan allt of vel. Mér datt þetta í hug, bæði þegar ég hlustaði á ræðu hv. 11. landsk. þm. í gær og hv. 4. þm. Norðurl. v. rétt áðan. Menn gera hver öðrum allt of oft upp skoðanir og orð, liggur mér við að segja, sem alls ekki eru meint á þann hátt, sem síðan er reynt að leggja í þau, og nú vil ég koma lítillega að því.

Í gær sagði hv. 11. landsk., að í ræðu minni hefði verið lagt til, að byggðin yrði færð saman, sem var rétt. En hann lagði þann skilning í orðin, að ég ætlaðist til, að endilega þyrftu að koma út úr því færri menn í viðkomandi byggð. Og til þess að sýna fram á, að slíkt þarf alls ekki að vera, vil ég einmitt taka mína heimasveit eða fæðingarsveit, sem ég kalla enn „heima“, þó að ég sé ekki þar búsettur lengur, og ég veit, að þar hefur fækkað um 7 býli, þ. e. a. s. útkjálka- og afdalabýli hafa lagzt í eyði, en hreppurinn hefur aldrei verið jafnfjölmennur og nú, vegna þess að fólkinu hefur fundizt það eðlilegra og hagkvæmara að flytja saman, byggja nýbýli niðri í dalnum, þar sem betra og þægilegra var til byggðar, en leggja niður afdala- og heiðarkotin, sem gáfu ekki sömu raun til búskapar og jarðirnar, sem betur voru settar. Það var þetta, sem ég átti við með samfærslu byggðarinnar, og bakþanki minn var líka sá, hve hörmulegt er að horfa upp á það ár eftir ár og áratug eftir áratug, að það er í raun og veru algerlega vonlaust að leiða rafmagn til allra bændabýla hér á Íslandi, meðan byggðinni er háttað eins og nú er. Það er farið að kosta yfir 300 þús. kr. að leiða rafmagn inn á hvert það býli, sem bætt er við nú, og sjá allir, að slíkt er ekki gerandi fyrir þjóðina og ekki heldur viðunandi fyrir það fólk, sem hefur ekki rafmagn, að fá það ekki, og þá er eina leiðin samfærsla byggðarinnar, þ. e. a. s. að menn búi ekki eins strjált og nú er.

Þetta er það fyrsta, sem mér fannst styðja það, að stundum skiljum við ekki hver annan, þótt við tölum sama málið hér í d. Ég hygg, að þegar hv. 11. landsk. hugleiðir þennan skilning, sem ég hafði í mínum orðum, fari ekki langt á milli okkar skilnings á því, að það er heppilegt að færa saman byggð.

Annað, sem sá hinn sami þm. drap á, en þar skilur okkur nokkuð á, hann talaði um, að það væri að verða of lítil framleiðsla á landbúnaðarvörum. Ég hygg, að einmitt Hagtíðindin, sem hér var vitnað í áðan, sýni það, að enn er offramleiðsla. Við verðum að flytja töluvert mikið út af landbúnaðarvörum, án þess að það gefi þá raun í aðra hönd, sem er þjóðfélaginu heppileg og bændum hagstæð. Ég kem síðar að því, hver þessi útflutningur er og hvað fyrir hann þarf að kaupa. En í þessu sambandi vil ég aðeins drepa á það, að sú breyting varð á landbúnaðarframleiðslunni frá 1963 til 1967, að bændur fækkuðu kúm sínum verulega og fóru yfir í fjárbúskapinn meira og það svo mikið, að nú er orðin miklu meiri offramleiðsla á kjötinu heldur en mjólkurvörunum. Þetta finnst mér styðja þá skoðun mína, að það vanti yfirstjórn og hagsýni í landbúnaðinn.

Það er varla von, að bændur einir út af fyrir sig geti fundið, hvað rétt er í þessu, en þegar yfirstjórnina brestur, er hætta á ferðum.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. kallaði þetta frv. bændafækkunarfrv. Það má sjálfsagt gefa því það heiti. En ég vil minna þd. á, að ég flutti hér annað frv. og þessi frv. verða varla skoðuð nema hvort með öðru. Hið fyrra laut að því að koma upp sjóði fyrir landbúnaðinn, sem gæti orðið honum lyftistöng. Og ég ætlaðist til, að sá sjóður væri byggður upp bæði af bændum og ríki. Ég er þeirrar skoðunar þvert á móti því, sem mér virðist vera skoðun hv. 5. þm. Norðurl. e., að hvaða stétt sem er og hvaða atvinnuvegi sem er sé hollast að standa töluvert á eigin fótum. Ég mundi kalla hans stefnu miklu meira ríkishjálparstefnuna. Hann var að gera gys að þessum hagtryggingarsjóði, sagði, að það væri miklu réttara að efla bjargráðasjóð, og ég er ekkert að andmæla því, að það sé gott að efla hann. En ég vil benda á það, að bjargráðasjóði ráða bændur ekki nema að óverulegum hluta eða kannske engum hluta, en þessum sjóði, sem ég var að hugsa um, að stofnaður yrði, eiga þeir að ráða að meiri hluta, byggja hann upp að hálfu leyti og ráða honum að meiri hluta og geta þannig valdið miklu um, að hve miklu gagni hann kemur fyrir stéttina og þessa atvinnugrein.

Þessi hv. þm. drap einmitt á það, sem ég er honum algerlega sammála um. Uppbætur eru ekki æskilegar, sagði hann. Og það er það, sem ég var að benda á í síðara frv. Uppbæturnar hafa leitt til þess, að bændur hafa ekki athugað eins vel sinn gang í því, hvað væri hagkvæmt að framleiða. Hér var drepið á það áðan, að það fengist býsna mikið fyrir að flytja út kjötið og mjólkina. En ég man ekki betur en það birtist í Morgunblaðinu grein rétt fyrir jólin, þar sem bent var á það, að bændur fengju þá eitthvað um 35 kr. fyrir kjötkg, þar mætti draga frá 15 kr. í slátrunarkostnað, þannig að bóndinn fengi 20 kr. heim til sín fyrir kjötkg, sem flutt væri út, en þyrfti að fá 77.50 kr. fyrir kjötkg, til þess að það stæðist grundvallarverð. Þetta hefur, að mér skildist eftir tölum, sem nefndar voru í gær, batnað nokkuð, þannig að fyrir kjöt, sem flutt væri út til Bretlands, mundu fást um 45 kr., en slátrunarkostnaðurinn dregst þó þar frá. Eftir, skilst mér, eru þá eitthvað um 30 kr., og enn þá vantar meira en helming, til þess að bóndinn fái grundvallarverð fyrir kjötið, sem hann verður að flytja út.

Hér var áðan vitnað í Hagtíðindin og sagt, að útfluttar landbúnaðarvörur hefðu verið um 541 millj. kr. s. l. ár. Ég fékk nú raunar út úr því ofurlítið meira, en það skiptir ekki máli. Það var ekki sem neinu nam. En ef gert er ráð fyrir því, að þetta sé, og mér skilst, að það sé hámarkið, sem hægt er að gera ráð fyrir, að fyrir þetta fáist helmingsverð móti því, sem framleiðslan af því kostar, þá eru það um 250–270 millj. kr., sem tapast á þessum útflutningi. En þó að við sleppum þessum útreikningi, þá hafa fóðurvörur og tilbúinn áburður, sem flutt var inn á s. l. ári, samkv. Hagtíðindum líka, verið 451 millj. kr. eða rétt um það sama og fyrir landbúnaðarvörurnar fékkst, sem fluttar voru út. Sem sagt, við höfum orðið að flytja inn fóðurvörur og tilbúinn áburð fyrir 451 millj. kr. til þess að geta flutt út svipaða upphæð fyrir þannig verð, að það er helmingstap fyrir bóndann að framleiða þetta.

Pálmi Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. v., kvaddi sér hér hljóðs vegna ómaklegra orða flm., eins og hann komst að orði, og þá kem ég að öðru atriði þess, sem mér virðist stundum mega vitna í, að við skiljum ekki vel hverjir aðra hér í þd. Hann vitnaði réttilega í það, að ég sagði, að að mínum dómi væru bændur ráðvillt stétt, sem fyndist jörðin skríða undir fótum þeirra. En nú ætla ég að segja Pálma, af því að hann virðist ekki alveg hafa skilið, hvað ég lagði í þessi orð, — við segjum stundum, að okkur finnist jörðin skríða undir fótum okkar, þegar við erum óvissir um, hvar við stöndum. Og það var þetta, sem ég átti við. Bændurnir finna ósjálfrátt, að landbúnaðurinn er ekki lengur neinn aðalatvinnuvegur Íslendinga. Þeir finna það, en þeir eiga ákaflega erfitt með að sætta sig við það, og þess vegna eru þeir ráðvilltir. En þeir rata ekki til réttra átta með því að skilja ekki, hvar þeir eru staddir. Þeir verða að skilja, hvar þeir eru staddir, verða að skilja það, hvað er hagkvæmast fyrir þá að framleiða, svo að þeir njóti góðra kjara og svo að þjóðin hljóti ekki skaða af þeirra búskap. Nú er ég ekki að segja, að í heild sé þetta alltaf svo. Við þurfum vissulega að framleiða landbúnaðarvörur. En það, sem okkur skilur á, þessa 3 hv. þm., sem ég hef hér nefnt, og mig, er það, að ég tel, að bændum sé skaði að því og þjóðinni sé skaði að því að framleiða fram yfir það, sem fer til neyzlu hér innanlands, og að þessi prósenta, sem ég legg til að verði lækkuð, valdi því að nokkru leyti, að bændur athuga ekki sinn gang og skilja verr en ella, hvar þeir eru staddir og til hverrar áttar þeir eiga að horfa. Þetta er það, sem ég vildi koma hér á framfæri, án þess að ég ætli að taka þátt í því, sem mér finnst stundum vera gert hér í d., að pexa lengi um hlutina.