18.02.1969
Neðri deild: 49. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

123. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sagði hér í gær nokkur orð í sambandi við flutning þessa frv., af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að mér virtist flutningur þess og sú stefna, sem fram kom í málflutningi hv. 9. landsk., vera angi af boðskap, sem fluttur hefur verið allmikið nú í seinni tíð, en þó raunar aldrei komizt inn í hv. Alþingi fyrr en nú. Það er boðskapur um það og kenning um það, að bændur á Íslandi séu of margir og þar af leiðandi baggi á þjóðinni. Ég kom inn á það aðeins lauslega í gær, að sú offramleiðsla, sem með réttu mátti segja að væri, þegar bezt áraði hér, núna fyrir 2, 3, 4 árum, tilheyrði nú sögunni eða fyrri tíma, því að það færðist óðum í það horf, að framleiðslan væri ekki nema handa þjóðinni að því er snertir mjólkurvörur. Hins vegar hefði aðstaða með sauðfjárafurðir, sölu á þeim úr landi, nokkuð breytzt núna upp á síðkastið vegna breytingar á gengi. Í hagskýrslum, sem ég leit í, eftir að ég hafði sagt mín fáu orð hér í gær, stendur, að nautgripum hafi fækkað hér á landi frá því 1965 til 1967 um 7298. Á sama tíma hefur sauðfé líka fækkað um 19 þús. Það liggja ekki fyrir tölur, hve nautgripir séu margir 1968, og því síður, hvað þeir munu verða margir í vor, þegar framtalsskýrslur verða gerðar, en ég ætla, að það megi fullyrða, að þeim hafi enn fækkað og sennilega eins mikið og á árunum 1965–1967. Enda er það þegar komið í ljós, að mjólkin hefur verulega minnkað. Þess vegna var það nú fyrir þremur árum, þegar smjörfjallið var mest umtalað, það var stundarfyrirbæri, það var vegna ástands, sem skapaðist af mjög góðu árferði.

Hv. 9. landsk. taldi, að ég hefði misskilið orð hans, þar sem ég talaði um það, að byggðarlögum væri lífsnauðsyn á því, ef þau ættu að haldast við, að fólki fækkaði þar ekki. Ef vel væri fyrir hvert byggðarlag, þarf fólkinu að fjölga, en ekki fækka. Þeir sem tala um það, að bændur séu of margir í landinu, tala ekki um það, hvaða ástand mundi skapast í þessum byggðarlögum, ef þeim fækkaði verulega. Ég er ekki að tala hér um byggðarlag eins og t. d. byggðarlag eða sveitarfélag mitt eða það sveitarfélag, sem hv. 9. landsk. nefndi. Ég er ekki að tala um byggðarlög t. d. hér á Suðurlandsundirlendi, í Borgarfirði, í Eyjafirði eða Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta eru það fjölmenn byggðarlög og hafa það góða aðstöðu, að þar hefur fólki frekar fjölgað en fækkað. Hins vegar eru það allt önnur byggðarlög, sem mundu verða fyrir því, ef bændafækkun yrði veruleg í landinu. Við skulum taka byggðarlög, sem liggja næst Þórshöfn á Langanesi. Hv. 4. þm. Norðurl. v. benti á það réttilega, að þorp og kaupstaðir styddust mjög við sveitabyggðina, sem væri kringum þau. Þórshöfn styðst við byggðirnar í Þistilfirði og á Langanesi. Sama má segja um Raufarhöfn og Kópasker, svo að maður haldi sig bara við Norðurlandið. Þessar byggðir, þessi þorp styðjast mjög við sveitabyggðina, sem er inn frá þeim og í kringum þær, og alveg sama má segja, þegar kemur vestur fyrir Eyjafjörð, t. d. Skagafjörð og Húnavatnssýslu, Sauðárkrók og Blönduós. Þetta styður allt hvað annað. En þegar fer að fækka í einu sveitarfélagi, skapast þar það ástand, að fólkinu heldur áfram að fækka, þangað til máske er komið svo, að byggðarlagið þurrkist algerlega út, eins og átt hefur sér stað á Vestfjörðum. Það eru þessi byggðarlög, sem ég tel vera í hættu, ef bændum fækkar, því að fækkun bændanna veikir þau. Þetta er sú stóra hætta, sem er í sambandi við það, að bændum fækki, fyrir utan það, að ég álít, að þeim megi ekki fækka, ef svo á fram að fara sem hingað til hefur verið viðurkennt, að bændastéttin eigi að fæða þjóðina með landbúnaðarframleiðslu.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða öllu meira um þetta. Ég tel, eins og ég benti á áðan, að kenningin um það, að það sé hættulega mikil framleiðsla á landbúnaðarvörum hér á landi, eigi ákaflega litla stoð í veruleikanum, og mitt hugboð er það, að við Íslendingar þurfum vel á að halda, ef við eigum að koma í veg fyrir það, að bændastéttin og hin strjála byggð verði ekki of fámenn, þveröfugt við það, sem mér virðist vera kenning sumra hagfræðinga og útreikningamanna, sem við höfum gert helzt til mikið með nú upp á síðkastið, svo að ekki sé meira sagt.