17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

132. mál, loðdýrarækt

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það var á þinginu 1964, þá lá hér fyrir frv. um loðdýrarækt, og það voru mjög skiptar skoðanir um þetta mál og verulega um það deilt. Ég óttaðist það á tímabili, að þessi skolli yrði samþykktur, og taldi þetta háskalegt, og þá bar ég fram eina brtt. Í frv. var bráðabirgðaatkvæði og ég lagði til, að við það ákvæði yrði bætt þessum orðum: „Minkabú, sem leyfð kunna að verða, skulu vera í Vestmannaeyjum.“ Þarna fór ég eftir till. dr. Finns Guðmundssonar, þess ágæta fræðimanns, sem var mjög andvígur því, að minkaeldi yrði leyft hér, en bar þetta fram sem varatill. í bréfi til Alþ., að það yrði sett upp tilraunabú í Vestmannaeyjum, ef menn endilega vildu reyna þetta. Þessu var ekki vel tekið af öllum, sem hlut áttu að máli, þessari till. minni. Hv. 3. þm. Sunnl., sem er fyrri flm. og frsm. þessa máls, flutti ræðu um málið hér í Alþ. 4. maí 1965, og m. a. sagði hann þá þetta:

„Ég verð að segja, að mér þykir kveðja Skúla Guðmundssonar, hv. 1. þm. Norðurl. v., til okkar Vestmanneyinga heldur kaldranaleg.“ Já, það var nú þá. Nú flytur hann sjálfur frv. um að leyfa minkarækt í Vestmannaeyjum.

Það var nú ekki svo að skilja, að ég væri á þessu þingi fyrir nokkrum árum sérstaklega hrifinn af því, að þetta yrði sett upp í Vestmannaeyjum.

En ef illt átti að ske, taldi ég það þó skárra, að þetta yrði leyft í þeim eyjum, heldur en á meginlandinu, því að það væri þá minni skaði skeður, þegar þeir færu að hleypa þessum óargadýrum út úr geymslum. Og þess vegna bar ég fram þessa till. Mér kom auðvitað aldrei til hugar, að þetta yrði sett upp þar, nema Vestmanneyingar vildu það sjálfir.

Það má segja, að ég megi vel við una, því að nú hefur þessi hv. 3. þm. Sunnl. tekið aftur öll kaldyrði í minn garð, sem hann lét sér um munn fara vorið 1965 út af þessu máli. Ég veit ekki, að hverju gagni þetta kæmi, þó að út í þetta yrði farið. En ætli þessir flm. viti nokkuð um það, hvernig útkoman er af þessum atvinnuvegi hér í nágrannalöndunum? Ég veit ekki, hvort þeir vita nokkuð um það. Ætli þeim sé t. d. kunnugt um það, að Norges Pelsdyravlslag, sem mér skilst að sé einhvers konar samband skinnaframleiðenda í Noregi, gaf það út núna í desemberlok í vetur, að síðustu 2 árin hafi meðalminkabúin þar í landi ekki haft neinn hagnað af rekstrinum. Auðvitað hefur þetta gengið í bylgjum þar. Þetta hefur verið mismunandi frá ári til árs og mismunandi útkoma hjá búunum eftir því, hvernig þeirra dýrastofn er og hvernig á er haldið að því er reksturinn varðar, eins og gefur að skilja. En þetta var meðalútkoman hjá þeim síðustu tvö árin. Vita þessir flm, nokkuð um minkapestina, sem hefur verið landlæg í Noregi síðan 1962? Núna standa yfir málaferli í Noregi. Þar er minkabúseigandi í skaðabótamáli við ríkisstj. út af þessari pest, eða líklega heldur út af einhverjum stjórnvaldaráðstöfunum í sambandi við pestina. Vita þeir nokkuð um þetta, þessir hv. flm.? Og þessi minkapest, mér skilst, að hún sé einnig á hinum Norðurlöndunum, og það er talað um það, að minkapestin muni upphaflega hafa borizt með dýrum frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hvar ætla þessir menn að fá dýr, sem öruggt sé að ekki séu með þessa pest? Ég teldi náttúrlega ekki mikinn skaða, þegar þeir fara að sleppa þessum dýrum úr haldi, sem þeir auðvitað gera, og eins hvort þau eru í búrum eða utan búra, þó að þessi pest yrði þeim að grandi. En það er bara slæmt fyrir þá, sem leggja fé í þetta, að vera að kaupa dýrin dýrum dómum og svo fari þau úr pest.

Og svo er annað. Þeir segja, Norðmenn, það stendur í norsku blaði, að þessi minkapest sé mjög skyld hundapest, og það gæti verið verra að fá slíka veiki í hundana. Nú er það að vísu svo um okkar hunda, að þeir eru misjafnir að gæðum, og það hefur því miður verið of lítil rækt lögð við það að venja þá, temja þá og hafa af þeim það gagn, sem hægt er að hafa, og það er ekki nógu góð meðferð á þeim ágætu dýrum víðast hvar. Þó eru hér undantekningar frá þessu, og þar nægir að minna á fjárhundana hans Jóhannesar bónda á Kleifum í Gilsfirði. Mér er sagt, að þeir hafi verið á landbúnaðarsýningunni hér næstliðið sumar og sýnt listir þar. Þó var aðstaða þeirra þar náttúrlega langtum verri hér í þeim þys og látum öllum en þar heima vestur á Kleifum. Það var núna fyrir einum tveimur kvöldum viðtal í útvarpinu við Carlsen, sem er auknefndur minkabani, en hann hefur hundabú hérna upp í Mosfellssveit, og mér skilst, að hann sé þar aðallega að temja hunda til að nota við minka- og refaveiðar. Og það hefur verið góður árangur af því. Hundarnir hafa verið mjög gagnlegir við það að drepa minkinn. Carlsen lét sér þau orð um munn fara, — ég heyrði það, sem við vitum reyndar allir fullvel, að hundarnir eru vitur dýr, — og hann sagði, að þeir væru oft vitrari en mennirnir. Ekki dreg ég í efa hæfileika þeirra hv. þm. tveggja, sem flytja þetta frv., en ég held, að þeir yrðu ekki eins góðir við smalamennsku vestur á Kleifum og hundarnir hans Jóhannesar bónda þar. Ef þeir ættu nú þátt í því að flytja þessa pest til landsins og hún kæmist hér í hunda, m. a. í hundana á Kleifum, ætli þeir væru menn til þess að bæta Jóhannesi skaðann? Jafnvel þótt þeir vildu bjóðast til að gerast smalar hjá honum, þá er ég hræddur um, að þeir yrðu ekki eins snúningaliprir við féð og hundarnir. En þannig er með þessa hunda þar á Kleifum, þeir eru svo vitrir, að þeir smala landareignina tilsagnarlaust og án þess að nokkrir menn fylgi þeim í smalamennskuna. En auk þess mætti búast við, að mennirnir, hvort það væru nú þessir tveir eða aðrir, yrðu þyngri á fóðrunum og gerðu meiri kaupkröfur en sepparnir á Kleifum.

Það er, skal ég segja ykkur, að minni hyggju margt að athuga í sambandi við þetta mál. Og ég efast um það, það kom a. m. k. ekki fram í ræðu fyrri flm. og frsm., að hann hefði nú kynnt sér þetta nokkuð til hlítar. Ég held, að þetta þurfi að skoðast betur. Þetta fer nú sjálfsagt til n., og þá er mögulegt að athuga það nánar. En ég vil bara þakka þessum hv. þm. það, að hann hefur, þó að það sé nú ekki gert fyrr en eftir tæp 4 ár, tekið aftur sín kaldyrði um mig í sambandi við tillöguflutning minn á þinginu 1964 um minkarækt í Vestmannaeyjum.