17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

132. mál, loðdýrarækt

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Okkar reynsla af innflutningi á dýrum hefur yfirleitt verið slæm. Við höfum tvisvar sinnum flutt inn í landið fjárkláða með innflutningi útlendra sauðkinda. Við fluttum inn með sauðfé karakúlpestirnar, bæði garnaveikina og mæðiveikina, og þannig hefur okkur reynzt þetta erfitt. Og við fluttum inn minkinn á sínum tíma, sem líka hefur orðið okkur dýrt spaug, því að hann hefur orðið að skaðræðismeindýri í landinu, og það hefur kostað ríkið stórfé að halda þessari plágu niðri, og auk þess hefur þetta dýr valdið miklum skaða í náttúru landsins, fuglalífi og dýralífi í vötnum og ám. Við höfum því illa reynslu, Íslendingar, af þessum innflutningi á dýrum.

Ég fór hér í ræðustólinn aðallega til þess að láta þess getið, að hv. fyrri flm. þessa frv. átti tal við mig sem samþingismann sinn um flutning á þessu frv. eða meðflm., en ég tjáði honum, að ég teldi mig ekki geta verið með honum í flutningi frv., þrátt fyrir það að hann segði mér frá því, að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum hefði óskað þess eindregið, að þm. Sunnl. gerðust flm. að þessu máli. Ég er mjög andvígur minkaræktinni, sérstaklega vegna þeirrar reynslu, sem orðið hefur af minknum. Það var brugðið á það ráð á kreppuárunum upp úr 1930 að flytja inn mink og fara að stunda ræktun hans hér, og það var þá aðallega gert í þeim tilgangi, að hægt yrði að skapa útflutningsverðmæti og atvinnu fyrir landsmenn. Og víst er það virðingarverð tilraun, hver sem það reynir, að skapa atvinnu og auka gjaldeyristekjur. En þessi tilraun gafst mjög illa, eins og kunnugt er. Minkurinn slapp út víða og gerðist að rándýri í landinu, og þar á ofan varð enginn ávinningur að þessu fyrir þjóðina. Þetta gaf ekki þær tekjur, sem til var ætlazt. Það einhvern veginn mistókst að framleiða minkaskinn hér, sem eins og til var ætlazt yrðu að góðri söluvöru.

Ég er ákaflega hræddur um það í sambandi við Vestmannaeyjar, að þar sé óheppilegt veðurfar fyrir minkarækt. Að vísu sagði frummælandi, fyrri flm., hér áðan, að veðurfar hefði breytzt nokkuð mikið, það væri þurrviðrasamara en áður var. Það skal ég játa. Við höfum þá reynslu hér sunnanlands, að það er miklu meira um þurrviðri nú á síðari árum en var áður fyrr. En einhver umhleypingasamasti staður á landinu er Vestmannaeyjar samt enn í dag, og ég hef alltaf heyrt, að það væri óheppilegt veðurfar fyrir ræktun loðdýra eins og minksins. Ég er því ákaflega hræddur um, að þar sé illa valinn staður að þessu leyti. Auk þess er fuglalífið í eyjum í mikilli hættu, ef þessi dýr sleppa út. Þarna er mikið fuglalíf, margar tegundir og sumar fágætar tegundir, sem eiga þarna heima, hafa þarna dvöl, farfuglar og raunar aðrir fuglar, sjófuglar mikið í björgunum.

Ég var núna fyrir nokkrum dögum að líta í bók eftir Gils Guðmundsson alþm. um Færeyjar, þar sem hann er að lýsa náttúrulífi þar í eyjunum, sem er mjög líkt því, sem er í Vestmannaeyjum. Þar segir hann frá því, að á einhver svæði eða eyjar þar fluttist kvikindi, sem kallað er brúna rottan, það er ekkert greint frá því nánar, hvaðan hún kom, og hún hefur gjörsamlega útrýmt öllu fuglalífi á þeim svæðum, þar sem hún tekur sér bólfestu, svo að þar örlar ekki á dýralífi síðan. Og ég er ákaflega hræddur um, að ef það óhapp henti, að minkur slyppi út í Vestmannaeyjum, mundi hann gera þar mjög mikinn usla í fuglalífinu, en það er hrein paradís að koma til Vestmannaeyja á sumrin. Lundinn hefur mikla byggð í Vestmannaeyjum, og bjargfuglamergð er þar geysilega mikil.

Ég verð að láta í ljós, að ég hef ekki neina sérþekkingu á þessari atvinnugrein. En mér finnst, að reynslan sé sú, að Íslendingum láti yfirleitt illa að starfa að atvinnuvegum, sem þarfnast mikillar nákvæmni við, sérstaklega í sambandi við dýrin. Við höfum ekki sýnt það, að við værum natnir við umhirðu dýranna, því miður. Við eigum þar eftir mikið að læra, Íslendingar, og vonandi lærum við það með tímanum. En ég hygg, að þessi búskapur þurfi á að halda sérstaklega mikilli nákvæmni og vandvirkni. Og ég þekki nú Vestmanneyinga nokkuð. Þeir eru duglegir að fiska og bera mikinn afla á land, og yfirleitt eru ekki, að ég hygg, duglegri menn annars staðar á landinu heldur en í Vestmannaeyjum. En ég efast mjög um það, að þeim léti vel þessi atvinnugrein. Og hef ekki verulega trú á henni fyrir okkur Sunnlendinga eða Vestmanneyinga. Ég hygg, að þetta sé aðallega hugsað á þeim grundvelli að fá þarna markað fyrir úrgang af sjávarafurðum. En eru nú líkindi fyrir því, að útgerðarmennirnir í Vestmannaeyjum eða frystihúsin þar fengju hærra verð fyrir þessar afurðir frystihúsanna þarna í Vestmannaeyjum heldur en þau fá fyrir útflutninginn? Ég vil spyrja flm. að því, hvort hann geri ráð fyrir því, að það yrði hærra verð, sem þessi nýja atvinnugrein gæti greitt fyrir þetta, heldur en kaupendur á Norðurlöndum, sem aðallega hafa keypt þessar afurðir af okkur að undanförnu. Ég efast mikið um, að af þessu yrði mikill hagnaður gjaldeyrislega séð.

Þetta var nú það, sem ég vildi segja. Ég vildi sem sagt ekki leyna því, að ég hef ekki trú á þessum atvinnuvegi, og þó að ég sé viss um, að minkarækt í Vestmannaeyjum mundi ekki vera hættuleg að því leyti til, að sá minkur, sem slyppi þar, breiddist út um landið, mundi hann geta eyðilagt dýralífið á staðnum. Það er ákaflega erfitt að útrýma villimink, sem næði þar bólfestu, vegna þess að þarna er allt holt, allt brunnið hraun undir eyjunum, eða Heimaeynni, og ég álít, að það væri mikill skaði skeður, ef svona villidýr næði þar bólfestu.

Ég mun fylgja frv. til n., en ég vil ekki lofa stuðningi við það lengra. Minn stuðningur mun sennilega ekki ná lengra en það, að ég vil hleypa málinu til n. Þetta vildi ég, að kæmi fram af minni hálfu.