17.02.1969
Neðri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

132. mál, loðdýrarækt

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. minnti hér á ummæli, sem ég hafði viðhaft um minkarækt, þegar málið var hér til umr. 1964. Þess gerðist ekki þörf mín vegna. Mér voru þessi ummæli mjög í huga og vel ljós, þegar ég átti hlut að því að leggja málið fyrir hér að nýju í því formi, sem það er nú gert. En ef menn vilja lesa ræðu hv. þm., sem hann vitnaði í, þá munu þeir sjá, að hún gekk öll út á það að mæla gegn minkaeldi, og aðalrökin voru þau, að þetta væri svo mikið skaðræðisdýr, svo þjóðfélagslega hættulegt, eins og hann orðaði það, held ég, og þegar hann er búinn að reyna að sannfæra alla þm. um það, hversu hættulegt þetta dýr sé og skaðlegt, þá leggur hann til, að það sé samþykkt, að það sé leyft aðeins í Vestmannaeyjum. Ég endurtek ekki það, sem ég sagði þá, að þetta voru kaldar kveðjur til okkar Vestmanneyinga, og þær voru sannarlega ekki meintar af góðum hug, ef maður vill lesa ræðu þessa hv. þm. Hann ætlaði sem sagt, að því, sem hann taldi sannfæringu sína þá, að væri til skaða fyrir þjóðina og þá, sem vildu hafa afskipti af þessu, því ætlaðist hann til, að við einir tækjum við. Af þeirri ástæðu benti ég á þetta, sem hann vitnaði í, að ég hafði talið þetta kaldar kveðjur. Þær voru það á þeim tíma. Málið horfir allt öðruvísi við í dag. Nú hafa ráðamenn byggðarlagsins gert þetta upp við sig, bæði þann skaða, sem kynni af því að verða, og eins þann hagnað, sem þeir telja að kynni af því að verða, og óskað eftir því að fá að gera þessa tilraun.

Málið þarf að sjálfsögðu, áður en minkabú er stofnað, ef það yrði leyft hér, verulegan undirbúning. Það þarf að kynna sér málið frá öllum hliðum, skoða bæði hugsanlega arðsemi af því og eins það tjón, sem þetta gæti valdið. En það er auðvitað ekki ástæða til að leggja í kostnað við það, fyrr en við vitum, hvort hv. Alþ. vill leyfa, að þessi tilraun sé gerð. Það er frumskilyrði fyrir því, að eðlilegt sé, að lagt verði í kostnað við að skoða málið og vinna að eðlilegum undirbúningi þess, að fá úr því skorið, hvort hv. Alþ. vill leyfa okkur að gera tilraun, ef okkur sjálfum sýnist hagur í því.

Það er alveg rétt, sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Sunnl., að þetta náttúrlega byggist á því, að við trúum því, að fengnum þó ekki meiri upplýsingum en við höfum, að við trúum því sjálfir, að við getum gert afurðir okkar, sem þar berast á land, arðvænlegri í því formi að rækta mink, nota fiskúrganginn til að rækta mink, og fá þess vegna meira út úr þeim hluta afurðanna í formi minkaskinna heldur en að setja þetta í beinamjölsverksmiðju eða frysta það í litlum stíl, eins og nú er gert til minkaeldis annars staðar. Þetta er það, sem málin byggjast á. Og ef það kemur í ljós, að við höfum þarna rétt fyrir okkur, að við getum aukið verðmæti fiskafurða í Eyjum með þessu móti, hvers vegna má þá ekki leyfa okkur að reyna þetta? Við gerum okkur ljósa þá áhættu, sem kann að verða af þessu. Við gerum miklu minna úr henni en margir hér, sem talað hafa gegn málinu.

Sú hliðin á málinu, sem hv. 2. þm. Sunnl. lagði mest upp úr, það var óttinn við, að þetta kynni að valda skaða á fuglalífinu. Þá verða menn að gera sér ljóst, að það er alveg rétt, sem hann sagði, að það er mjög fjölbreytt fuglalíf í Eyjum og sennilega hvergi meira. En það er bara í úteyjum, það er ekki á Heimaeynni. Það er hreint ekki fjölbreyttara fuglalíf á Heimaey en annars staðar á landinu, nema kannske síður sé, en í úteyjum er það mun fjölbreyttara en víðast annars staðar við landið. Og það er engin hætta á því, að minkurinn sleppi út í úteyjar. Ég tel ekki nokkra einustu hættu á því. Það er um mjög langan veg að fara yfir sjó, sem ég hef ekki nokkra trú á að minkur lifi af að reyna að synda. Við leggjum því nú orðið ekki svo mikið upp úr þeirri hlið málsins, að við teljum ekki, að það sé eðlilegt, að okkur verði leyft að gera þessa tilraun til að reyna að auka verðmæti okkar eigin framleiðslu á þennan hátt, að nota fiskúrganginn, sem fer að langmestu leyti í fiskmjöl, skilar litlum hagnaði og litlum erlendum gjaldeyri. Við trúum sjálfir, að það væri hægt að gera þessar afurðir verðmeiri í formi minkaskinna, ef vel tækist til.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. var að geta um alls konar bollaleggingar um pest í minkum. Það er náttúrlega hætta, sem allir geta átt von á, sem eru með dýrarækt, hvort sem það eru loðdýr eða önnur dýr, að pestir komi upp. Við Íslendingar höfum sannarlega ekki farið varhluta af því að fá hingað pestir, og við höfum ekki hætt við sauðfjárrækt, þó að hér hafi komið upp pest, sem hefur kostað ríkið og alla, sem þar eiga hlut að máli, verulegt fé, þannig að það þýðir ekki að vera með andmæli á þeim forsendum, það fær ekki staðizt. Þessi grínsaga um hundapestina, — ég man nú ekki, hvar hann talaði aðallega um þessa vitru hunda, — það vill nú svo til, að hundahald er ekki leyft í Vestmannaeyjum, það eru engir hundar þar, þannig að hundar þaðan ættu ekki að smita mikið út frá sér, því að þar eru þær skepnur ekki leyfðar og ekki til, svo að það er náttúrlega hreinlega sagt út í bláinn líka.

Um afkomu annarra þjóða, þá vita það allir, að þetta er orðinn allverulega þróaður atvinnuvegur bæði í Danmörku og Noregi og nokkuð í Svíþjóð. Auðvitað eru á þessu sveiflur, en það liggur hins vegar fyrir, að minkaskinn virðast vera einu skinnin af loðdýrum, sem nokkuð halda velli á markaði. Skinn annarra dýra eru miklu frekar tízkufyrirbæri, sem hlaupa í hátt verð stuttan tíma, en falla svo úr tízku og eru óseljanleg. Áratuga reynsla er aftur fengin með minkaskinn og í þeim er miklu minni sveifla, en það er sveifla í þeim, það vita allir, en í þeim er miklu minni sveifla, og þess vegna hafa þær þjóðir, sem ég hef hérna vitnað til, séð sér fjárhagslegan hag í því að gera þetta að atvinnuvegi og það í allstórum stíl, eins og er hjá Dönum nú.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um þetta. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Sunnl. gat um, að ég benti honum á einróma óskir ráðamanna í Eyjum og spurði hann, hvort hann vildi vera meðflm. að frv. í samræmi við það. Hann tjáði réttilega, eins og hér hefur komið fram, að hann væri á móti málinu í heild, og er ekkert við því að segja. Þetta er eitt af þeim málum, sem menn greinir nokkuð á um, menn hafa ólíkar skoðanir á. En af því að hann beindi hér fyrirspurn um þetta, hvort við í Eyjum reiknuðum með að geta fengið hærra verð fyrir úrgang úr fiskafurðum með þessu móti, þá get ég svarað alveg játandi. Eins og málin standa í dag, þá trúum við því. Komi annað í ljós, að þetta sé ekki fjárhagslega hagkvæmt, stofnkostnaður of mikill, reksturinn ekki arðvænlegur, þá auðvitað verður tilraunin ekki gerð. En ef talinn er grundvöllur fyrir henni, þá efast ég ekki um, að Vestmanneyingar munu gera þessa tilraun. Og ég veit, að þeir, sem þarna hafa kannske mestra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta, eru alveg tilbúnir að leggja eitthvert fjármagn fram, til þess að þessi tilraun verði gerð. En ég vil aðeins undirstrika það, sem ég benti á í framsöguræðu minni, að þetta mál er þess eðlis, að ég tel, að hv. alþm. margir, sem kunna að vera í nokkrum vafa um, hvort rétt sé að leyfa minkaeldi hér á landi almennt, þeir gætu fylgt þessu frv., því að þetta snertir aðeins einn stað, sem ég held að allir séu sammála um, að öðrum stafi ekki hætta af, þó að hann væri leyfður, hvorki hundahaldi á Kleifum né annars staðar á landinu, frekar en að villiminkur bærist til meginlandsins utan frá okkur í Eyjum.