27.02.1969
Neðri deild: 57. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (2705)

155. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. Jónas Jónsson):

Herra forseti. Í frv. þessu til breytinga á lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, sem hér er lagt fram, er sú ein breyting lögð til, að styrkur til íbúðarhúsabygginga hjá þeim bændum, sem þurfa að endurnýja íbúðarhús sín og eins og segir í lögunum hafa erfiðan fjárhag eða meðaltekjur eða minni, verði hækkaður úr 60 þús. kr. í 100 þús. kr.

Nýbýlum hefur farið frekar fækkandi að undanförnu, en hins vegar hefur fjölgað þeim bændum, sem hafa hlotið þennan styrk vegna endurbyggðra íbúðarhúsa. Þetta mál ber að vissu leyti að líta á í sambandi við þá lánamöguleika, sem bændur hafa til íbúðarhúsabygginga, og er það rakið í grg., að þeir fá núna 300 þús. kr. lán úr stofnlánadeild landbúnaðarins, og það eru þeirra einu lánamöguleikar til íbúðarhúsabygginga. En til samanburðar má benda á, að lán til byggingar íbúðarhúsa í bæjum eru 380 þús. að viðbættum 75 þús. kr. til meðlima verkalýðsfélaga, en aftur má benda á það, að fjöldi manna hefur einnig möguleika á lífeyrissjóðslánum, en eðlilegt er að draga hliðstæðu milli bænda og verkamanna að því leyti, að slíka möguleika hafa þeir ekki.

Um aukna fjárþörf, ef af þessari breytingu yrði, er erfitt að segja. Það er þegar komið í ljós af þeim umsóknum, sem liggja fyrir, að það mun verða heldur lítið um íbúðarhúsabyggingar á komandi sumri, þannig að það er ekki útilokað, að hægt væri að hækka þetta án aukinnar fjárveitingar. En hins vegar er auðvitað sá möguleiki fyrir hendi, að þessi hækkun yrði til þess að örva eitthvað byggingarnar, og það er að sjálfsögðu vel, ef svo færi, og sjálfsagt er, að allt það fjármagn, sem til þessa er veitt, notist. En það eru auðvitað þeir möguleikar, að þessi örvun yrði svo mikil, að til þessa þyrfti einhverja aukafjárveitingu, en um það er ekki gott að segja.

Ef þetta yrði til að örva byggingar í sveitum, yrði það auðvitað til aukinnar atvinnu og af því mundu fleiri iðnaðarmenn fá atvinnu í sumar, hvort sem það eru iðnaðarmenn, sem starfa í sveitum, eða menn frá bæjum og kauptúnum. Það er allvíða atvinnuleysi hjá þeim mönnum, þannig að það virðist æskilegt að örva þessar byggingar, eins og á stendur, og þess vegna yrði fé vel varið, jafnvel þó að þyrfti að fara fram á einhverja aukna fjárveitingu. Nefna má, að fjárveiting landnámsins, sem þetta er tekið af, var að vísu skert um 7½ millj. á s. l. ári og einnig á þessu ári. En það var bundið við þau tvö ár, þannig að næsta ár eru líkur til, að fjárveitingar mundu örugglega vera nógar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að að loknum umr. um þetta mál verði því vísað til landbn.