27.02.1969
Neðri deild: 57. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (2706)

155. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að einn aðalhvatamaðurinn að því, að þessi styrkur var lögtekinn á sínum tíma, hafi verið Jón Pálmason, fyrrv. ráðh. og alþingisforseti, enda hefur þessi styrkur stundum verið nefndur bæði í gamni og alvöru J-styrkur. Þessi styrkur hefur komið mörgum bóndanum að góðu gagni, bæði nýbýlamönnum og síðar bændum, sem hafa haft við erfiðan fjárhag að búa, og loks hefur þetta í raun og veru orðið almennur byggingarstyrkur til sveita.

Mig minnir, að styrkur þessi hafi fyrst numið 25 þús. kr., en hefur síðan smávaxið með árunum. Það er alveg rétt hjá flm., eins og fram kemur í grg., að vissulega má færa full rök fyrir því, að styrkur þessi sé orðinn lágur miðað við nútímaverðlag og vaxandi verðbólgu. Hitt er annað mál, hvort flm. hefur að öllu leyti valið heppilegan stað og stund til að ýta þessu áhugamáli sínu í framkvæmd. Það er jafnan svo, að oft verður að sæta lagi, bæði að því er tíma og stað snertir, til þess að koma málum í framkvæmd, sem maður hefur einlægan áhuga á. Mér er kunnugt um það, að um þetta mál hefur verið fjallað á öðrum vettvangi nú undanfarið, og eru vissulega margir, sem styðja þetta málefni. Ég er einn þeirra, því að vissulega mun ég styðja frv. til n. og vinna að því af heilum hug, að málið verði athugað og það nái fram að ganga fyrr eða síðar eða m. ö. o. við fyrsta hentugt tækifæri.