03.03.1969
Neðri deild: 58. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

156. mál, skipulagslög

Flm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér í hv. þd. frv. til l. um breyt. á skipulagslögum, nr. 19 frá 1964.

Eins og fram er tekið í grg. með frv., hefur á seinni árum verið mjög vaxandi ásókn í töku margs konar fyllingarefnis vegna mannvirkjagerðar, og með notkun stórvirkra vinnuvéla hefur efnistaka orðið miklu umfangsmeiri en áður var. Aðallega á þetta við um þéttbýlustu landssvæðin og næsta nágrenni þeirra, þ. e. innan marka skipulagsskyldra landssvæða. Það mun vera hægt að finna þess dæmi, að af þessum sökum hefur landslagi svo til hreinlega verið breytt, og er augljóst, að þegar um er að ræða þá staði, sem auðsjáanlega þarf að taka til byggingar í náinni framtíð vegna nauðsynjar á auknu athafnasvæði fyrir vaxandi byggð, getur hömlulaus jarðefnistaka á tilteknum svæðum skapað stór vandamál síðar.

Með samþykkt frv. þessa, sem hér um ræðir, opnast möguleikar til þess, að viðkomandi sveitarstjórnir geti með samþykki skipulagsstjórnar ríkisins lagt bann við svo stórfelldum tilflutningi jarðefna, að til vandræða leiði síðar til nýtingar á landssvæðinu undir byggð. Ekki er þó gert ráð fyrir því í frv., að landeigendur þurfi að sækja fyrir fram um leyfi fyrir því að nýta land sitt á þennan hátt, heldur er gert ráð fyrir því, að sveitaryfirvöld grípi aðeins í taumana, þegar að þeirra dómi og skipulagsstjórnar ríkisins sé hætta á, að of langt verði gengið í þessum efnum með tilliti til nýtingar landssvæðisins til almennra nota síðar. En að vissu marki er eðlilegt og sjálfsagt, að jarðefnisnámur séu nýttar.

En er þá ekki með þessu ákvæði, ef samþ. verður, verið að skerða eignarrétt landeigenda um of? spyrja máske einhverjir. Og víst er, að þessi heimild, ef samþykkt verður, til sveitarstjórna og skipulagsstjórnar takmarkar að nokkru nýtingu landeigenda á landi sínu, þó svo, eins og ég hef áður sagt, að aðeins sé gert ráð fyrir því í þeim tilfellum, þar sem nauðsyn er talin á, að svo sé gert með tilliti til nýtingar landsins síðar. En í þessu sambandi er og vert að benda á, að í gildandi skipulagslögum eru einmitt í þessari sömu lagagrein ákvæði, sem vissulega takmarka ráðstöfunarrétt landeigenda á landssvæðum á skipulagsskyldum stöðum. Þegar þau lög voru samþ. hér á hinu háa Alþingi, var það vandamál, sem hér um ræðir, þ. e. ásókn í ýmiss konar fyllingarefni til mannvirkjagerðar og tilkoma hinna stórvirku vinnuvéla, sem eru mjög afkastamiklar í þessu efni, ekki orðið svo augljóst sem nú er varðandi þéttbýlustu landssvæðin. Í þeirri lagagr., sem ég vitnaði hér til, þ. e. 31. gr. skipulagslaganna, segir svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er á skipulagsskyldum stöðum að skipta löndum og lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum, nema samþykki sveitarstjórnar komi til, og getur hún krafizt þess, að gerður sé fullnægjandi uppdráttur af landi, er skipta skal.“

Af því, sem hér segir í núgildandi lögum, er augljóst, að löggjöfin hefur þegar sett viss takmörk á ráðstöfunarrétt landeigenda, þegar um skipulagsskylda staði er að ræða, og gert það til þess að auðvelda, að landssvæðin verði skipulögð til nýtingar síðar meir. Á sama hátt er nauðsynlegt að veita sveitarstjórnum og skipulagsstjórn heimild til þess að grípa í taumana, þegar hætta er á, að of langt verði gengið í brottflutningi jarðefna, svo að verulegir erfiðleikar geti af hlotizt, þegar að því kemur, að nýta þarf landið til annars. Við höfum oft séð, að mjög er ábótavant á stundum um, að sómasamlega sé skilið við þær efnisnámur, sem nýttar hafa verið, og þannig við skilið, þegar efnistöku er hætt, að hætta getur beinlínis af stafað, auk þess sem til verulegra lýta er fyrir umrædd svæði. Með tiltölulega litlum kostnaði er hægt að ráða þarna bót á. En allt aðhald vantar þessu aðlútandi, og því er í frv. ákvæði um, að sveitarstjórnir geti, með samþykki skipulagsstjórnar sett tiltekin skilyrði um frágang og krafizt hæfilegra trygginga fyrir efndum. Þar sem í frv. er ávallt gert ráð fyrir því, að samþykki skipulagsstjórnar þurfi til, bæði um takmörkun á efnistöku og einnig varðandi skilyrði um frágang að lokinni efnistöku, á það að vera trygging fyrir því, að sveitarstjórnir misnoti ekki umrædda lagaheimild til takmörkunar á því, að landeigendur nýti land sitt, svo lengi sem ekki er í þeim efnum lengra gengið en eðlilegt er með hliðsjón af nýtingu landsins síðar, þar sem um skipulagsskylda staði er að ræða.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn. þessarar hv. þingdeildar.