06.03.1969
Neðri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

161. mál, iðnfræðsla

Flm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér í þessari hv. þd. frv. til l. um breyt. á l. um iðnfræðslu, nr. 68 frá 1966. Frv. er á þskj. 310.

Í 12. gr. í gildandi lögum um iðnfræðslu er í 7. og 8. tölul. ákvæði um skólaumdæmi iðnskólanna, sem í lögunum heita iðnfræðsluskólar. Þar er Reykjavíkurborg sérstakt skólaumdæmi, en Kjósarsýsla, Gullbringusýsla ásamt kaupstöðunum Kópavogi, Hafnarfirði og Keflavík skólaumdæmi. Nú er áhugi fyrir því í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, þ. e. a. s. Mosfellssveit, Seltjarnarnesi og Kópavogi, að fá fram breytingu á þessu ákvæði, þannig að þessi sveitarfélög verði skólaumdæmi með Reykjavík. Segja má, að þessi sveitarfélög ásamt með Reykjavík séu eitt og sama atvinnusvæðið og margþætt samskipti milli þessara sveitarfélaga og á mörgum sviðum náin samvinna. Fyrir iðnnemendur frá þessum sveitarfélögum er mun auðveldara að sækja skóla í Reykjavík en t. d. í Hafnarfirði. En til þess að sækja þangað þurfa þeir að notast við minnst tvo strætisvagna, en til að sækja skóla í Reykjavík aðeins einn, og á þetta við um alla nemendurna nema rétt aðeins þá fáu, sem búa í næsta nágrenni við Hafnarfjarðarveginn í Kópavogi. Það er því augljóst, að það er miklum mun tímafrekara og kostnaðarsamara fyrir nemendur að sækja skóla til Hafnarfjarðar en til Reykjavíkur.

Ég vil sérstaklega taka það fram, að ástæðurnar fyrir því, að ósk kemur fram um þessa breytingu, sem hér er lagt til, að lagaákvæðum um viðkomandi skólaumdæmi verði breytt, eru þær, að það er að öllu leyti hægara fyrir nemendur frá þessum sveitarfélögum, sem hér um ræðir, að sækja skóla til Reykjavikur en Hafnarfjarðar. Á þessa till. til lagabreytingar um skólaumdæmin ber alls ekki á neinn hátt að líta sem vantraust á Iðnskóla Hafnarfjarðar. Af þeim skóla hef ég aðeins gott eitt frétt.

Fyrir liggur, að byggja þarf nýtt skólahús fyrir iðnfræðslu í Hafnarfirði, og eðlilegt er, að stærð þess verði ákveðin með hliðsjón af stærð og fjölmenni skólaumdæmisins, eins og lög segja til um að það sé. Sú breyting, sem hér er lagt til að gerð verði á l. um viðkomandi skólaumdæmi, þarf því að ná samþykki nú, áður en lengra er haldið með undirbúning að þeirri nýju skólabyggingu í Hafnarfirði, sem ég gat hér um. Til þessa hafa flestir iðnnemar úr áðurgreindum sveitarfélögum sótt iðnnám til Reykjavíkur. Þessi tilhögun hefur gefizt vel. Reyndar hefur ekki verið annarra kosta völ. Iðnskólinn í Reykjavík hefur tekið við þessum nemendum, án þess að nokkrir samningar hafi verið gerðir milli sveitarstjórna þessara sveitarfélaga og borgarstjórnar Reykjavíkur. Og vissulega ber að þakka það, að iðnnemar frá nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur hafa átt þess kost að sækja þangað sitt iðnnám.

Nái þessi breyting fram að ganga, sem von mín er að verði, hljóta að verða teknir upp samningar milli hlutaðeigandi sveitarstjórna nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og borgarstjórnar þar. Ég veit, að borgarstjórnin í Reykjavík er fús til þeirra viðræðna. Sveitarstjórnir nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur gera sér fulla grein fyrir því, að sveitarfélögin verða að sínu leyti að standa undir kostnaði við mannvirkjagerð og rekstur iðnfræðsluskóla vegna sinna nemenda, þó að þessi sveitarfélög hafi til þessa losnað við þann kostnað. Sveitarstjórnirnar kjósa aðeins, að í þessu efni verði sá kosturinn valinn, sem hentugastur er, miðað við allar aðstæður.

Í 16. gr. l. um iðnfræðslu segir, hvernig skólanefndir iðnfræðsluskóla skuli skipaðar. Í gr. segir m. a., að í skólanefndunum skuli vera 5 menn skipaðir af ráðh. og skal einn þeirra skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Í gr. er gert ráð fyrir því, að hinir 4 skuli skipaðir samkv. tilnefningum bæjarstjórna og sýslunefnda í viðkomandi skólaumdæmi. Í Reykjavík tilnefnir borgarstjórn 4 skólanefndarmenn. Ég legg ekki til, að gerð verði nein breyting á þessu ákvæði, þó að ég leggi til, að skólaumdæmi Reykjavíkur verði fært út. Eins og fyrr segir, hljóta að eiga sér stað víðtækir samningar um öll þessi mál, ef þessi breyting nær fram að ganga, og getur það þá verið tekið upp í þeim samningaviðræðum, ef einhverjar óskir yrðu uppi um það, að þessi sveitarfélög vildu bera fram tilteknar till. um val á manni við borgarstjórn Reykjavíkur. Ég hef ekki séð neina ástæðu til þess, að nauðsynlegt væri að breyta þessari grein, þrátt fyrir það að fyrrgetna breytingin nái fram að ganga. Þarna er fyrst og fremst samkomulagsatriði, hvernig með það verður farið.

Herra forseti. Ég hef hér rakið nokkur atriði, sem ég vonast til að verði til þess að skýra fyrir hv. þm., hvers vegna umrætt frv. er flutt. Í raun réttri er með samþykkt þessa frv. verið að staðfesta það fyrirkomulag, sem verið hefur varðandi iðnnám nemenda frá umræddum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Og þar sem þessi skipan hefur í alla staði gefizt vel, er eðlilegast að ganga út frá því í ákvæðum laga um skólaumdæmi iðnfræðsluskóla, að þetta fyrirkomulag verði áfram, en sett í fastara form. Fræðsluráð Kópavogs hefur gert samþykkt, þar sem fram kemur, að það telur þá skipan, sem hér er lagt til að upp verði tekin, þá eðlilegustu miðað við allar aðstæður.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lok. inni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.