09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði, sem mig langar til að fá staðfest hjá hv. flm., að ég hafi skilið rétt í því frv., sem er hér til umr.

Hið fyrra er það, hvort ekki sé með frv. gert ráð fyrir, að arður af hlutabréfum skuli vera skattfrjáls án tillits til þess, hversu hár hann kann að vera, þ. e. a. s. hversu mörg prósent sem arðurinn er af hlutafjáreign hverju sinni. Í grg. með frv. er þess getið, að ætlunin með flutningi þess sé að styrkja undirstöðu fyrirtækja með auknu eigin fjármagni. Ég fæ ekki betur séð en svo geti farið, að þegar hlutafélag hagnast vel, samtímis því að fyrir lægi, að sá hagnaður yrði eigendum hlutafjárins skattfrjáls með öllu, ef hann yrði greiddur út, en skattlagður ella, þá aukast einmitt líkur á því með lagabreytingu um takmarkalaust skattfrelsi arðs af hlutafé, að sá arður verði látinn renna út úr fyrirtækinu með því að hafa arðgreiðslurnar til hluthafa nógu háar. Þetta er annað atriðið, sem mig langar til að fá staðfest hjá hv. flm. Hann gerir ráð fyrir, að arður af hlutafé verði skattfrjáls án takmörkunar. Frv. ber það með sér.

Hitt atriðið er þetta: Gerir flm. ekki ráð fyrir því með frv. sínu, að arður af hlutafé verði skattfrjáls án tillits til þess, um hvers konar fyrirtæki er að ræða, þ. e. a. s. arður af hlutabréfum, t. d. í fasteignasölu, banka, bílasölu, söluturni, sælgætisgerð eða billjardstofu, svo að eitthvað sé nefnt, á samkv. frv. að verða skattfrjáls? Mig langar einnig til að fá staðfest, að ég skilji þetta rétt. Frv. er fáort, rúmlega 30 orð, og virðist einfalt, en þeim mun hrapallegra þætti mér að misskilja það og óska því þessara upplýsinga, áður en ég kynni að freistast til þess að ræða frv. almennt út frá sjónarmiði þeirra þjóðfélagsþegna, sem aldrei vex svo fiskur um hrygg að þeir eignist hlut í öðru fyrirtæki en því, sem kallað er fjölskylda, berjast í bökkum allt lífið við að fleyta því fyrirtæki áfram frá ári til árs og verða að borga skatt af hverri krónu, sem afla þarf, til þess að það takist.